Yfirstjórn öryggismála
Mánudaginn 19. nóvember 1990


     Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um samhæfða yfirstjórn öryggismála. Till. þessa flyt ég ásamt Matthíasi Á. Mathiesen, Friðjóni Þórðarsyni og Ólafi G. Einarssyni.
    Lagt er til að könnuð verði og undirbúin setning löggjafar um yfirstjórn öryggismála. Ætlunin er að ná fram skilvirkri stjórnun með samhæfingu einstakra þátta öryggis- og löggæslu.
    Tilgangurinn er tvíþættur. Annars vegar er miðað við að nýta megi sem best mannafla og tækjabúnað fyrir það fjármagn sem til þessara mála er veitt. Hins vegar er stefnt að því að efla megi öryggi ríkisins og almennings í landinu með nýjum aðferðum og nýjum vinnubrögðum eftir því sem breyttir tímar og staða landsins á hverjum tíma gera nauðsynlegt. Gert er ráð fyrir sérstakri yfirstjórn öryggismála sem hafi það hlutverk að fara með skipulega samstjórn lögreglumála, landhelgisgæslu og mála er varða tollgæslu, almannavarnir og aðra öryggisgæslu.
    Til að undirbúa setningu löggjafar um yfirstjórn öryggismála er lagt til að sett verði á fót nefnd sjö þingmanna sem kosin verði hlutbundinni kosningu í sameinuðu Alþingi. Kveðið er á um að nefndin skuli á haustþingi 1991 leggja fram á Alþingi áfangaskýrslu um störf sín sem þar verði tekin til umræðu. Að því loknu á nefndin að halda áfram störfum sínum og ljúka við frumvarpsgerð svo fljótt sem auðið verður, en eigi síðar en 1. febr. 1992.
    Till. þessi til þál. var flutt síðla á síðasta þingi. Allshn. Sþ. fékk till. til meðferðar. Nefndin sendi hana til ýmissa aðila sem málið varðar og fékk ítarlegar umsagnir um það. Hins vegar vannst ekki tími til þess að vinna þetta umfangsmikla mál frekar og hlaut till. því ekki afgreiðslu á síðasta þingi. Nú endurflytja sömu flutningsmenn þessa till. til þál. með aðeins breyttu ákvæði um tímasetningu sem leiðir af því að málið er nú síðar á ferðinni en upphaflega var gert ráð fyrir.
    Ég mælti fyrir þessari till. til þál. í mars sl. og gerði þá ítarlega grein fyrir þeim sjónarmiðum og viðhorfum sem liggja til grundvallar. Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það sem ég þá sagði þegar svo stuttur tími er um liðinn. Ég ætla að hv. þm. sé þetta allt nokkuð í fersku minni, enda eru þessu gerð skil ítarlega í grg. sem till. fylgir.
    Ég mun því nota tímann nú til að auka við það sem ég áður hef sagt um þetta með því m.a. að greina frá, svo sem kostur er í stuttu máli, því sem þær stofnanir ríkisins og samtök ríkisstarfsmanna, sem málið varðar sérstaklega, hafa um það að segja. Þetta má gera með því að vekja athygli á þeim mörgu umsögnum sem allshn. bárust um þessa till. til þál. Þar kennir ýmissa grasa.
    Umsögn frá dómsmrn. er jákvæð. Sérstök áhersla er lögð á að undirbúningur að setningu löggjafar um samhæfða yfirstjórn öryggismála sé vandasamt verk og mikilvægt sé að til þess veljist hæfir menn sem bæði séu þátttakendur í stjórn landsins og hafi mikla innsýn í þessi mál. Ráðuneytið tekur fram að heppilegt sé að alþingismenn verði hér kvaddir til eins og lagt er til í till.
    Hæstv. dómsmrh. áréttaði jákvæða afstöðu ráðuneytisins í umræðunum um málið á síðasta þingi. Hann lagði áherslu á að þessi till. fengi þinglega meðferð og alla þá umfjöllun sem henni bæri.
    Landhelgisgæsla Íslands gaf umsögn þar sem talið var mjög tímabært að kanna hvort ekki sé rétt að samhæfa ýmsa þætti öryggis - og lögreglumála til að ná fram sem bestri hagræðingu í nýtingu tækja og mannafla. Bent var á hvert gagn aukin samhæfing gæti haft.
    Í umsögn Lögreglufélags Reykjavíkur segir að eðlilegt sé að öryggismálum hér á landi verði nánar gaumur gefinn og þá sérstaklega að horft verði til framtíðar í þeim efnum eins og fram komi í till. Félagið er sammála því að ástæða sé að kanna hvort ekki sé þörf á að samhæfa þá stjórnsýslu sem lýtur að öryggis - og löggæslu ríkisins, stofnana á þess vegum og almennings.
    Lögreglustjórinn í Reykjavík segir í sinni umsögn að í kjarna þessarar till. til þál. birtist hugmyndir að víðtækari yfirstjórn lögreglu, landhelgisgæslu, tollgæslu, almannavarna og landvarna en dæmi séu til í nágrannalöndum okkar. Segir hann að till. sé verð góðrar umfjöllunar því að aðeins með stöðugri athugun á frammistöðu stofnana og á skipulagi þeirra megi ætla að búið sé við það skásta hverju sinni.
    Í umsögn Rannsóknarlögreglu ríkisins er þessari till. til þál. fagnað. Segir að fyllsta ástæða sé til að huga rækilega að yfirstjórn og samhæfingu allra þeirra aðila sem að öryggisgæslu starfa á vegum ríkisvaldsins. Enn fremur segir að víst sé að þessi könnun sé tímabær og æskilegt væri að henni lyki svo tímanlega að afrakstur könnunarinnar gæti tekið gildi hinn 1. júlí 1992, þ.e. um leið og lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði taka gildi, svo og væntanlega ný lög um meðferð opinberra mála. Fleiri athyglisverðar og gagnlegar ábendingar er að finna í þessari umsögn Rannsóknarlögreglu ríkisins.
    Starfsmannafélag Landhelgisgæslunnar sendi umsögn þar sem segir að ekki megi horfa fram hjá því að þjóð sem ekki hafi her þurfi enn frekar á skipulegri löggæslu að halda til að vernda þegnana. Enn segir þar að samræmd yfirstjórn leiði örugglega til aukinnar og bættrar samvinnu löggæslumanna ríkisins sem telja verði af hinu góða.
    Það verður að segjast að umsagnir þeirra aðila sem hér hefur verið vikið að eru mjög jákvæðar. Í umsögnum
Sýslumannafélags Íslands, Landssambands lögreglumanna, Tollgæslu og Tollvarðafélags Íslands er lýst efasemdum eða menn treysta sér ekki til á þessu stigi málsins að fjalla mjög náið um þessa till. til þál.
    Er þá ótalin ein umsögn sem er frá Varnarmálaskrifstofu utanrrn. Þar er tekið skýrt fram að Varnarmálaskrifstofan geri engar sérstakar athugasemdir við meginefnið í sjálfri þáltill. Engar athugasemdir við meginefni í sjálfri þáltill. Hins vegar er komið á framfæri athugasemdum við ýmis atriði í grg. þeirri sem fylgir þáltill. sjálfri. Hér kennir ýmissa grasa sem ég á ekki kost á að ræða nú í einstökum atriðum. En samnefnari þessara athugasemda er settur fram í lok umsagnarinnar með tilvísun í skýrslu utanrrh. til Alþingis í mars sl., þar sem fjallað er um stöðu Íslands í ljósi breyttra kringumstæðna. Er vitnað í VII. kafla skýrslunnar sem segir ,,... að þær breytingar sem orðið hafa og eru um það bil að eiga sér stað á sviði öryggis- og varnarmála í Evrópu gefi Íslendingum ekki tilefni til að hrófla við fyrirkomulagi sem þeir hafi stuðst við í öryggis- og varnarmálum undanfarna áratugi.``
    Hér er um að ræða grundvallarágreining við þau sjónarmið sem liggja að baki þessari till. til þál. og lýst er í grg. sem henni fylgir. Við Íslendingar þurfum nú að hafa hliðsjón af þeirri öru þróun heimsmála um þessar mundir sem taka verður tillit til í viðhorfum til öryggis- og varnarmála landsins. Stríðsviðbúnaður fer þverrandi en umsýsla eftirlits og hvers konar gæslu vegur meira. Þannig flyst áherslan frá því sem við erum sjálfir ófærir um til þess sem er innan marka hins mögulega fyrir okkur sjálfa. Við þurfum að vera þess viðbúnir að geta aukið hlutdeild okkar í því sem varðar öryggi og varnir landsins. Það gerum við svo best að koma á fót skipan sem miðar að því að hægt sé að taka við þeim verkefnum sem eru þess eðlis að við getum annast þau sjálfir. Til þess þarf markvissan undirbúning. Það gerum við með því að koma á laggirnar þeirri samhæfðu stjórn öryggismála sem þessi tillaga gerir ráð fyrir. Þess vegna er tillagan líka tímabær og aðkallandi. Þannig verðum við Íslendingar viðbúnir til að mæta þeim kröfum sem til okkar eru gerðar sem fullvalda þjóðar.
    Þessi þáltill. kveður ekki á um veru varnarliðsins hér á landi. Það er hins vegar gert ráð fyrir að þessi samræmda gæsla sé þannig að skipulagi og framkvæmd að hún sé þess umkomin að taka við verkefnum af varnarliðinu eftir því sem við verður komið og allri öryggis- og löggæslu á Keflavíkurflugvelli þegar til þess kemur að varnarliðið hverfur af landi brott. Það er hvorki gengið út frá því að erlent varnarlið verði í landinu um alla framtíð né að innlendum her verði komið á fót.
    Sú skipan öryggis- og löggæslu sem hér er lagt til að stofnað verði til tekur mið af eðlismun einstakra þátta löggæslunnar og margbreytileika. Engin breyting er gerð á skipun umboðsstarfa lögreglustjóra þannig að gjaldheimta og tollheimta heyra undir þá sömu og áður, hvort sem um er að ræða fjmrh. eða aðra aðila. Eftir sem áður helst skipting landsins í lögsagnarumdæmi. Ekki er lögð til breyting á valdsviði og hlutverki lögreglustjóra einstakra lögsagnarumdæma. Þeir málaflokkar sem ekki fara eftir skiptingu lögsagnarumdæma, svo sem gæsla landhelginnar, lúta stjórn án umdæmaskiptingar eins og hingað til. Sama er að segja um almannavarnir og ýmiss konar öryggisþjónustu.
    Gert er ráð fyrir að með yfirstjórn allra öryggis- og löggæslumála fari forstjóri, eða öryggismálastjóri, sem

heyri undir dómsmrh. Það er hlutverk öryggismálastjóra að samhæfa hina margslungnu þætti öryggis- og löggæslu.
    Að því er varðar þau verkefni sem hingað til hefur verið sinnt má líkja þessu hlutverki öryggismálastjóra við það sem dómsmrn., eða ráðuneytisstjóri þess, hefur leitast við að inna af hendi með samkomulagi og samvinnu ýmissa aðila. En sá er munurinn að staða öryggismálastjóra á að vera miklu sterkari til að skipa niður sameinuðum liðsafla til sérstakra verkefna, sem upp kunna að koma, og ráðstafa eftir þörfum tækjabúnaði, sem á að vera til sameiginlegra nota.
    Það gefur hlutverki öryggismálastjóra aukið vægi að gert er ráð fyrir að leggja megi undir hina samhæfðu yfirstjórn öryggismála alla þætti þessara mála, hvort sem þeim hefur verið sinnt hingað til eða ekki. Á þetta ekki síst við um allt sem lýtur að landvörnum. Jafnframt hinni styrku stöðu yfirstjórnar öryggismála er gert ráð fyrir að hlutdeild almennings í öryggis- og gæslustörfum verði ekki minni en áður, nema síður sé. Er þá átt við hið mikilvæga hlutverk Slysavarnafélags Íslands, Hjálparsveitar skáta og flugbjörgunarsveita og lögbundna hlutdeild almennings, svo sem almannavarnanefndir og aðra slíka skipan sem til kann að koma.
    Hér er um að ræða mikið og margslungið mál. Víðfeðmi málsins er slíkt að í mörg horn er að líta. Við byggjum að sjálfsögðu á margháttaðri reynslu sem við höfum á meðferð okkar í hinum ýmsu greinum okkar öryggismála. Við getum í þessum efnum, sem svo mörgum öðrum, sótt okkur fyrirmyndir til annarra þjóða sem okkur eru skyldastar að stjórnarháttum. En um sumt erum við sérstæð í hópi þjóðanna, svo sem að hér er engum her til að dreifa og ekki er ætlunin að koma honum á fót. Það fer því ekki hjá því að það skipulag öryggismála sem við komum til með að búa okkur hlýtur í ýmsum efnum að vera einstætt, svo frábrugðnar eru hér allar aðstæður frá því sem annars staðar gerist.
    Hæstv. forseti. Ég er að ljúka máli mínu en vil aðeins segja að með tilliti til þessa sem ég hef nú sagt er allur undirbúningur að setningu löggjafar um yfirstjórn öryggismála vandmeðfarinn. Till. þessi til þál., sem við nú ræðum, ber þess einmitt glöggan vott. Þar er að finna ákvæði um alveg óvenjulega aðferð og vinnutilbúnað til að undirbúa setningu löggjafar. Meira að segja nefndin sem ætlað er að vinna verkið er í hæsta máta óvenjuleg, bæði að tilurð og formi. Vandaður undirbúningur lýsir sér í því að nefndin skal skipuð alþingismönnum kjörnum til verksins af sjálfu Alþingi. Þá er sá málatilbúnaður, að ætla má, nær eindæmi að á Alþingi er ætlað að ræða áfangaskýrslu nefndarinnar, þannig að þar verði komið við skoðunum, hugmyndum og áliti einstakra þingmanna sem nefndin getur unnið úr áður en frumvarpsgerðinni er lokið.
    Hæstv. forseti. Ég vænti þess að till. þessi til þál. hljóti góða og trausta málsmeðferð svo hún megi verða samþykkt á þessu þingi. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að till. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.