Yfirstjórn öryggismála
Mánudaginn 19. nóvember 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég tel að hér sé hreyft mjög stóru máli og á því eru margir fletir. Við vitum að þegnunum getur stafað hætta af upplausnaröflum undir ýmsum kringumstæðum. Þeim getur stafað hætta af skæruliðastarfsemi, sem er alþjóðleg, varðandi flugrán og margt fleira, og einnig getur orðið bein árásarhætta á landið. Það er vitað að Íslendingar hafa með samningum og þátttöku í NATO reynt að tryggja sig gagnvart beinni árásarhættu á landið.
    Sú hugmynd sem hér kemur fram bendir til þess að það eigi að miðstýra öryggismálum með mun ákveðnari hætti en gert hefur verið, því eins og kom fram í ræðu hv. flm. þá þarf að leita viss samráðs þegar ráðuneytisstjóri dómsmrn. hefur verið að samhæfa aðgerðir. Nú er það svo að sé horft á heiminn og hugsað sem svo að það sem gerist erlendis getur einnig gerst hér þá blasir það við að þingræðinu hefur oft stafað ærin hætta af öryggissveitum framkvæmdarvaldsins. Jafnfram hefur framkvæmdarvaldinu oft og tíðum stafað ærin hætta af öryggissveitunum, þ.e. sveitirnar hafa ráðist gegn skapara sínum og valdataka hers og lögreglu hefur verið vinsæl á ýmsum stöðum jarðarkringlunnar.
    Hér hefur ekki verið sá styrkleiki til staðar að á það hefði reynt hvort áhugamenn um valdarán leituðu eftir því að verða toppaðilar í svona stöðu og kanna hvern styrk þeir hefðu. Við höfum því auðvitað ekkert í höndunum sem segir að slíkt mundi gerast hér á landi þó að þetta yrði gert. Hins vegar er hægt að fullyrða það að eitt og annað hefur verið framkvæmt meðal lýðræðisþjóða Evrópu sem okkur þætti allógeðfellt hér á landi. M.a. hefur breska leyniþjónustan verið staðin að því að halda uppi umfangsmikilli njósnastarfsemi og í sumum tilfellum áróðursstarfsemi í pólitískum tilgangi. Hafa það verið foringjar Verkamannaflokksins og gjarnan ráðherrar sem hafa orðið fyrir barðinu á hennar starfsemi.
    Ég segi þetta hér vegna þess að mér er ljóst að hugsunin á bak við þetta er sú að tryggja hér öryggi og sú hugsun er góðra gjalda verð. Hins vegar játa ég það að þó að margir vilji hafa ríkisvaldið sterkt þá hefur mér alltaf fundist að því meir sem við ykjum miðstýringuna, þeim mun meiri hætta væri á misnotkun valdsins gagnvart þegnunum.
    Ég hygg að við Íslendingar höfum sem betur fer sloppið nokkuð vel í þeim efnum þó að vissulega sé hægt að finna dæmi þess hér á landi, eins og annars staðar, að manni finnst að framkvæmdarvaldið hafi verið lausbeislað. Verður mér þar m.a. hugsað til þeirra afskipta sem Íslendingar höfðu á sínum tíma af málum sem áttu sér stað í Evrópu og á Norðurlöndum eftir stríð þegar við unnum að því að láta sýkna þar Íslendinga sem innlend stjórnvöld þeirra landa höfðu talið að hefðu brotið verulega af sér.
    Ég segi þess vegna að ég hef vissar efasemdir gagnvart því að þetta málefni eigi að vera forgangsmálefni á okkar tímum. Hins vegar finnst mér að margt bendi til þess að æskilegt væri að kanna hvernig okkar öryggisvarsla mundi bregðast við hinum ýmsu utanaðkomandi atvikum þannig að menn hefðu gleggri mynd af því en þeir hafa í dag hverju Íslendingar gætu varist með þeim mannafla sem þeir hafa í sinni öryggisgæslu og ættu þess vegna auðveldara með að meta hvað beri að gera, hverju beri að breyta.
    Ég ætla ekki að fara út í að diskútera það hversu sterkt ríkisvaldið eigi að vera á hverjum tíma, en auðvitað held ég að það sé nú samt okkar viðhorf að löglega kosið ríkisvald eigi að halda velli á hverjum tíma þar til þingræðið ákveði þá aðra skipan á stjórn landsins.