Ástandið á húsbréfamarkaðnum
Mánudaginn 19. nóvember 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þau tíðindi gerðust í síðustu viku að Landsbréf lýstu því yfir að á þeim bæ yrði ekki um meiri húsbréfakaup að ræða. Félmrh. átti fund með ráðamönnum þar og að honum loknum var tilkynnt að Landsbréf mundu hefja húsbréfakaup að nýju en nú á dagprísum. Skýringin á þessu var m.a. sú að húsbréfin væru ekki nógu góður kostur fyrir viðskiptavini verðbréfamarkaða. T.d. væru ríkisskuldabréfin vænlegri vegna betri vaxta.
    Með þessu er eiginlega verið að segja að ríkið sé syndaselurinn þar sem það setji í gang samkeppni innbyrðis milli tveggja kosta og dæmi annan kostinn úr leik fyrir fram með því að búa honum verri skilyrði. Afleiðingin sé m.a. sú að lífeyrissjóðirnir hafi ekki keypt húsbréf eins og skyldi. En úr því sem komið er hefur ekkert upp á sig að finna blóraböggulinn heldur að bæta unninn skaða. Með áðurnefndri ákvörðun Landsbréfa var fótunum allt í einu kippt undan fjölda fólks, fólks sem hefur staðið í fasteignaviðskiptum nýlega eða hefur í huga að gera það bráðlega og nota til þess húsbréfakerfið. Sú óvissa sem nú hefur skapast er ófyrirgefanleg.
    Ásóknin í húsbréfin hefur sýnt að þetta kerfi er kostur sem fjöldi fólks vill nýta og treystir sér til að standa í skilum í þessum viðskiptum. Svo er einnig um Húsnæðisstofnun ríkisins sem metur greiðslugetu væntanlegra íbúðakaupenda í húsbréfakerfi. Nóg hefur nú gengið á í málefnum Húsnæðisstofnunar og fasteignaviðskipta þó þetta bættist ekki við.
    Almennir íbúðakaupendur og seljendur verða að geta treyst því kerfi sem um er að ræða. Sá skaði sem nú hefur verið unninn verður e.t.v. seint bættur. Yfirlýsingar þess efnis að nú geti skipt máli hvort bréf eru seld í dag eða á morgun, að ég tali nú ekki um hvort viðskiptin eiga sér stað fyrir eða eftir hádegi, vekja óróa og skapa vantraust.
    Það að koma sér upp þaki yfir höfuðið er í flestum tilfellum mesta fjárfesting í lífi alls þorra fólks og það er ekki í peningaspekúlasjónum heldur einfaldlega að sinna þörfum sínum og fjölskyldu sinnar. Þessi allt að því skyldufjárfesting Íslendinga krefst oftar en ekki útsjónarsemi og ráðdeildar ef þannig á til að takast að byrðin verði ekki óbærileg. Það er lítil huggun harmi gegn að segja fólki að nú taki nokkra mánuði, allt upp í hálft ár, að skapa aftur ró og jafnvægi á markaðnum og því sé ráðlegt að bíða með sölu á húsbréfum í bili. Venjulegt fólk hefur ekki það fé milli handanna að það geti beðið. Það getur verið ágætis ráðlegging fyrir spekúlanta og spákaupmenn, stöndug fyrirtæki og sjóði, en ekki fyrir almenna íbúðakaupendur og seljendur. Það eina sem hægt er að gera nú er að skapa það traust sem húsbréfakerfi og notendum þess er nauðsynlegt og reyna að bæta skaðann og sjá til þess með fastari reglum og fyrirmælum en nú er að Seðlabanki Íslands gegni sínu hlutverki sem viðskiptavaki og sjái til þess að aðrir viðskiptavakar geri það líka eins og þeim reyndar ber að gera samkvæmt lögum. Ég ætla að lesa hér upp 66.

gr. laga um húsbréf þar sem kveðið er á um þetta, með leyfi forseta:
    ,,Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands skal hafa eftirlit með viðskiptum með húsbréf á grundvelli laga um verðbréf og verðbréfasjóði, nr. 20/1989. Seðlabanki Íslands skal stuðla að því að jafnvægi ríki á húsbréfamarkaði. Seðlabanki skal í þeim mæli sem hann telur nauðsynlegt hindra að verulegt misvægi myndist á markaðnum fyrir húsbréf.``
    Þetta töldu þingmenn fullnægjandi skilyrði þegar húsbréfakerfið var samþykkt á Alþingi, en nú hefur komið í ljós að svo er ekki og þá vaknar sú spurning hvort ekki þarf að herða þessi fyrirmæli og hvort hæstv. félmrh. hafi einhver áform uppi um slíkt.