Ástandið á húsbréfamarkaðnum
Mánudaginn 19. nóvember 1990


     Þorsteinn Pálsson :
    Frú forseti. Það vakti athygli að hæstv. ráðherra skyldi í engu svara þeim tilmælum hv. málshefjanda að þess yrði freistað að ná hér víðtækri samstöðu um stefnumörkun í húsnæðismálum til þess að taka á því óvissuástandi sem þar er ríkjandi og því stríðsástandi sem er um stefnuna í húsnæðismálum. Það segir mikla sögu hvernig hæstv. ráðherra leiddi hjá sér að ræða þau tilmæli.
    En kjarni málsins er kannski sá að hér enn ein staðfestingin á því í hverri upplausn þessi mál eru. Það liggur fyrir, vegna þess að vaxtamismun hefur verið haldið óeðlilegum og hæstv. ríkisstjórn hefur ekki tryggt eðlilegar fjárveitingar til Byggingarsjóðs ríkisins, að hann stefnir í gjaldþrot. Og það liggur fyrir að þetta nýja kerfi uppfyllir ekki þær glansmyndir sem hæstv. ráðherra hafði teiknað og prentað og birt þjóðinni þar um. Það skortir líka á að hæstv. ríkisstjórn hafi gefið skýr svör við því hvað hún ætli að gera og hvernig hún ætli að bregðast við. Hæstv. félmrh. sagði hér fyrir skömmu í þinginu að hæstv. forsrh. ætti að svara fyrir stefnuna í húsnæðismálum og skýtur þá nokkuð skökku við.
    Hæstv. félmrh. hefur lagt til að gamla húsnæðiskerfið frá 1986 verði lagt niður en vextir verði ekki hækkaðir eða vaxtamismunur ekki minnkaður. Hæstv. forsrh. hefur tekið undir kröfuna um það að húsnæðiskerfið verði lagt niður en á hinn bóginn talið sjálfsagt að minnka vaxtamismuninn og bent á að það sé ein af ástæðunum fyrir því í hverjar ógöngur er komið að það skyldi ekki hafa verið gert fyrr.
    Nú hefur flokksþing framsóknarmanna hafnað þessari tillögu og þá hljóta menn að spyrja, þegar aðstandendur ríkisstjórnarinnar svara svona út og suður um stefnuna í húsnæðismálum þegar allt er í upplausn: Hvenær á að gefa Alþingi skýr svör um það hvernig við á að bregðast? Eða er það ætlan ríkisstjórnarinnar að láta málin halda áfram í þessum farvegi og í þessari upplausn og gefa engin svör á Alþingi og taka engar ákvarðanir til þess að koma málum úr því ófremdarástandi sem þau eru í dag?