Ástandið á húsbréfamarkaðnum
Mánudaginn 19. nóvember 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst ástæðulaust hjá sumum ræðumönnum að snúa út úr orðum mínum áðan og tala um að ég hafi verið að kenna hinum og þessum um það ástand sem nú hefur orðið á markaðnum. Þetta er rangt. Ég sagði fyrst og fremst að ég hefði áhyggjur af því hvernig sumir
fjölmiðlar fjölluðu um húsbréfakerfið og einstakir þingmenn. Það hefur ekki farið fram hjá mörgum að bæði af fjölmiðlum og einstaka þingmönnum hefur verið rætt um það að íbúðakaupendur hafi þurft að sæta miklum afföllum af húsbréfum. Ég vitnaði til formanns Félags fasteignasala og fólks sem hefur þurft að standa í íbúðakaupum. Þeirra orð eru að það hafi ekki þurft að sæta afföllum og ég rakti ástæður fyrir því hér áðan sem ég skal ekki endurtaka. Ég rakti líka áhyggjur mínar af því að ég hef haft þær fréttir að sumir fasteignasalar hafi ekki gert fólki nægilega grein fyrir því að það sé réttara hjá því að láta húsbréfin ganga upp í næstu fasteignaviðskipti fremur en að breyta því í peninga á markaði. Þetta voru mín orð hér áðan. Ég hef líka áhyggjur af því hvernig einstaka þingmenn fjalla um húsbréfakerfið, eins og t.d. kemur fram í fréttaskýringu hjá DV, þar sem vitnað er í einn hv. þm., Alexander Stefánsson. Þar segir hann að íbúðaeigendum í greiðsluerfiðleikum yrði gerður lítill greiði með því að láta þá glíma við húsbréf með afföllum og sveiflum sem þeim fylgdu. Þetta kom fram hjá hv. þm. og ég hef reyndar heyrt þetta hjá fleirum. Það er eins og íbúðakaupendur sem skipta á fasteignaveðbréfum og húsbréfum séu háðir afföllum og sveiflum á húsbréfum í 25 ár. Þetta er bara rangt vegna þess að þeir taka á sig fasteignaveðbréf með föstum vöxtum sem þeir þurfa að greiða en eru ekkert háðir sveiflum á húsbréfum í 25 ár. Þetta er auðvitað alrangt.
    Ég vil líka segja það að mér finnst menn hafa lítinn skilning á greiðsluerfiðleikum hjá fólki þegar þeir vilja heldur bjóða upp á það fyrirkomulag, sem var áður, að fólk fái einungis 600 þús. kr. í greiðsluerfiðleikalán sem getur ekki leyst vanda hjá fjölda af heimilum sem eru í greiðsluerfiðleikum. Hér er verið að tala um það að fólk geti nýtt sér húsbréfakerfið til þess að greiða upp skammtímaskuldir í bönkum sem eru hjá mörgum um 1,5 millj. og meðalskuldir fólks 3,5 millj. Þetta er eina leiðin til þess að bjarga því. Það fólk þarf að sæta háum vöxtum, kannski 8 -- 9% vöxtum, á 1,5 millj. sem það skuldar en hér er verið að bjóða upp á allt aðra leið og allt aðra lausn.
    Það er þetta sem ég vildi láta koma fram. Og af því að verið er að tala hér um húsbréf sem seðlaútgáfu vil ég að menn hafi það líka hugfast að ef húsnæðiskerfinu frá 1986 er lokað þá þarf 14 milljörðum minna á ári í lántökur frá lífeyrissjóðunum, sem væntanlega ella fer þá út á markaðinn, en líkleg sala á húsbréfum þegar það kerfi er komið í fullt gagn er um 12 milljarðar. Það liggur líka fyrir að fólk hefur þurft í gegnum banka, gegnum lífeyrissjóði og með handhafaskuldabréfum á hverju ári að taka lán sem

nemur 8,5 milljörðum en með tilkomu húsbréfakerfisins minnkar þetta um helming. Þetta liggur fyrir frá þeim sem hafa gert úttekt á þessu kerfi.