Lánsfjárlög 1991
Þriðjudaginn 20. nóvember 1990


     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Satt best að segja þykja mér umræður um alvarleg fjármál og annað slíkt ekkert óskaplega skemmtilegar. Ég átti þess vegna ekki von á því að hérna yrði skemmtileg stund í dag en það er orðið æði gaman að hlusta á hæstv. fjmrh. lýsa ágæti markaðsbúskapar. Hann útlistaði það og ljómaði allur út undir eyru þegar hann lýsti því hve geysilega gleðilegar þær væru hinar gífurlegu vinsældir og sérstaklega meðal almennings vegna vaxtanna og allrar þessar blessunar sem hefur verið dengt yfir fólkið. Það væri bara bókstaflega þannig að nú væri þjóðin orðin skuldlaus nánast, skildist manni, skuldirnar væru eiginlega að hverfa. Og það væri svo ánægjulegt að núna væru skuldirnar bara eiginlega allar á heimilunum. Hann sagði að innlendar lántökur hefðu eiginlega sáralitlar verið hjá atvinnuvegunum, enda ástæðulaust að styrkja þá, við þurfum enga atvinnuvegi. En það var mjög ánægjulegt, sagði hæstv. ráðherra, að nú skyldi þetta allt saman lenda á heimilunum. Skuldir heimilanna hafa farið vaxandi. Og hann útlistaði þetta með fleiri orðum og áhrifaríkari en þetta skrifaði ég niður hjá mér. Skuldir heimilanna hafa farið vaxandi, skuldir atvinnuveganna minnkandi, lántökur atvinnuveganna eru gleðilega litlar, þ.e. lítið er fjárfest í atvinnuvegum landsins. Það er af hinu góða að það skuli vera fáir atvinnuvegir og fá fyrirtæki, það skuli vera máttlaus fyrirtæki, það skuli vera samdráttur í atvinnuvegunum, það skuli vera kreppa í atvinnuvegunum. En það er af hinu góða, og það er rétt að fólk festi sér það í minni, að skuldir heimilanna hafa farið vaxandi. Og skyldi þá ekki hagur heimilanna hafa batnað með vaxandi skuldum? Það skyldi maður þó ætla að væri í samræmi við hina kenninguna, beint framhald hennar, ein og sama kenningin, að hagur fólksins hefði farið gífurlega batnandi því að skuldir heimilanna hafa vaxið.
    Við vitum að skuldir heimilanna hafa vaxið, það þurfti ekki að segja okkur það. Skuldir heimilanna hafa vaxið með þeim hætti að það eru fjöldagjaldþrot heimilanna, ekki bara í hundruðum heldur þúsundum. Það er ávöxturinn af starfi þessa herra á síðustu tveimur árunum. Og hann segir það sjálfur og viðurkennir það héðan úr þessum stól.
    Ég sagði áðan að það væri gaman ef væri hér gleðistund, það er kannski öfugmæli. Ég átti kannski heldur að segja hitt að hann væri að upplýsa um hryllilegasta þáttinn í stjórnarstefnunni, heimatilbúna kreppu hjá þessari þjóð sem gæti verið ríkasta þjóð heimsins. En að hinu leytinu má kannski segja að maður getur ekki annað en brosað að sjá og heyra hæstv. ráðherra fjármála vera að tíunda ágæti þess sem hann kallar peningafrelsi. Það er ekkert peningafrelsi þegar peningar eru skammtaðir. Peningar eru það eina sem ekki má skammta vegna þess að þá fá þeir peningana á bestum kjörum sem eru í náðinni en hinir fá enga peninga eða þá að það er okrað á þeim með vöxtum þegar ekki er frjálsræði í peningamálum, og það er ekki á Íslandi. Það eru ekki frjáls peningaviðskipti. Það streyma að vísu inn erlendir peningar og kannski er ekki mjög langt í það að peningamálin verði frjálsari hér eins og er í öllum öðrum löndum.
    Það er að koma alheimsmarkaður í peningamálum. Það er rétt. En það er ekki fyrir tilstuðlan þessa hæstv. ráðherra. Það er að gerast um víða veröld að peningar eru frjálsir. Það getur enginn stöðvað til
langframa streymi peninga af þeirri einföldu ástæðu að þeir eru ekki að verða til í gömlu merkingunni. Nú ganga færslur fjármuna í gegnum tölvur og nútímatækni og þess getur verið skammt að bíða að menn hafi enga peninga í fórum sínum nema kannski smápeninga í strætó. Því að flestir nota greiðslukort sem líka var vikið hér að að væri einhver mesta uppgötvun í sögu peningamarkaðar alheimsins. Sagði ráðherrann nær orðrétt að íslenska ríkisstjórnin hefði fundið það upp að afla sparifjár frá borgurunum í gegnum tölvuviðskipti og greiðslukort? Það væri gífurlega merkilegt mál og eitthvað hafði hann um það orð á þá vegu að sérfræðingar í peningamálum erlendis stæðu alveg agndofa yfir þessu og væru nú að kynna sér þessa hugmyndaauðgi íslensku ríkisstjórnarinnar í peningamálum. Hugmyndaauðgi er nákvæmlega orðið yfir alla þá stefnu sem þessi hæstv. ráðherra hefur fylgt síðan hann varð ráðherra. Hugmyndaauðgi í skattlagningu, í skattheimtu, í okurvöxtum, í ofstjórn og ofstjórnarbrjálæði. Það er orðið yfir þá stefnu sem þessi ríkisstjórn hefur fylgt.
    Nú er kannski hæstv. ráðherra líka að hugsa um það sem boðað er af yfirboðara hans, sjálfum hæstv. forsrh. Hvað boðaði hann núna á flokksþingi flokks síns, ósköp ánægjulegum flokksfundi, segja þeir framsóknarmennirnir? Hann sagði umbúðalaust: Það verður að hækka skatta. Það er auðvitað það sem þeir eru alltaf að gera þó þeir þykist vera að lækka þá. En hæstv. forsrh. er auðvitað miklu hreinlyndari maður en hæstv. fjmrh. nokkru sinni hefur verið eða mun verða. Hann sagði umbúðalaust hvað verið væri að gera og hvað þyrfti að gera. Það hefur verið hækkun á sköttum nærri því á hverjum einasta degi, og hækkun á verðlagi raunar líka og aukning á erlendum skuldum. Að vísu skal ég koma á eftir að því. Það hefur líka verið aukning á innlendum lántökum. Það er alveg rétt. En þetta eru þeir allt saman að segja og þeir hafa verið að framkvæma það. Forsrh. á þakkir skildar fyrir að aðvara þjóðina núna einmitt af því að kosningar eru í vændum og að segja nákvæmlega hvað fyrir honum og núv. hæstv. ríkisstjórn vakir. Það vakir fyrir þeim að hækka nú enn þá skattana, skerða enn þá kjörin, setja minna fé í atvinnuvegina, auka skuldir hjá borgurunum. Hvernig ætla þeir að auka féð? Jú, þeir ætla að lána þeim eitthvað meira, á okurvöxtum, þangað til allir eru komnir á hausinn.
    Þetta er stefnan sem þessi hæstv. ráðherra er að boða og forsrh., yfirboðari hans, gerir algerlega opinberlega. Hann sagði að vísu við flokksmenn sína og stoppaði við í ræðupúltinu, eins og ég skal gera núna, og sagði: Haldið þið ykkur nú. Ég hugsa að allmargir Íslendingar hafi heyrt hann og séð á því augnabliki

og hann sagði: Það verður að hækka skattana til þess að geta haldið við velferðarkerfinu, velferðarkerfinu sem er nú t.d. með þeim hætti að það eru tæmdar heilu deildirnar á spítölunum þó alls staðar sé fólk sem þarfnast læknis. Það er nú bara eitt smádæmi. Velferðarkerfi þar sem þannig er búið að fátæku fólki að það hefur bókstaflega ekki nóg að borða. Ellilífeyrisþegar hafa það ekki. Og það er velferðarkerfi sem er þannig, og ég held að allir a.m.k. sem eru komnir á miðjan aldur viti það, að það er meiri fátækt, það er meiri mismunun í þessu þjóðfélagi, það er erfiðara fyrir fátækt fólk að komast af en hefur verið í áratugi. Þetta er afraksturinn af störfum þessa hæstv. ráðherra sem kemur hér, ber sér á brjóst og segir að allt sé í sómanum. Já, það er hugmyndaauðgin. Gleymum ekki þessu orði. Notum það. Það passar nákvæmlega yfir allt það sem verið er að bardúsa daginn út og daginn inn, öll þau lög sem verið er að setja eða afnema og öll þau lög sem verið er að skrumskæla til þess að ná auknu fé af borgurunum yfir í ríkishítina þar til bæði atvinnuvegir og heimili eru gjaldþrota.
    Þetta er það sem að er stefnt og sem verður barist um í kosningum í vor. Vilja menn áframhald þessarar stefnu sem þeir eru að sjá framan í núna? Á að herða á, á enn að rýra kjörin? Á að falsa vísitölur og gera fólkinu ókleift að lifa í þessu landi og á að sverfa svo að atvinnuvegunum að þjóðartekjurnar fari lækkandi ár frá ári, sem þær gera og það er líklega eina OECD - landið sem svo er ástatt um. Það eru framfarir í öllum nágrannalöndum, við vitum það, og aukin framleiðsla og auknar þjóðartekjur. Hér fer þetta allt saman minnkandi og það er svo indælt líf, segir þessi hæstv. ráðherra. Hann brosti meira að segja, annars er hann nú alvörugefinn á svipinn núna. Hann er kannski farinn að hugsa aðeins hvað hann var að segja. Af því að það hugsa nefnilega allir núna og skilja hvað hann var að segja. Það fór ekkert á milli mála. Þeir ætla sér að halda þessari stjórn áfram --- til hvers? Til að fullkomna verkið. Og menn vita hvert stefnir. Það er enginn maður til á þessu landi sem heldur því fram að kjör hafi ekki stórversnað jafnt og þétt. Það þýðir ekkert að koma með einhvers konar þjóðarsáttarboðskap. Hann er ekki til. Það er búið að afsanna það að það séu raunverulegar kjarabætur eða stöðugt efnahagslíf í þessu þjóðfélagi.
     Þetta er kannski alveg nóg þó af mörgu sé að taka í orðum ráðherrans. Og ég vil bara vekja á því athygli að hann vitnaði sérstaklega til eins árs, þegar hörmulegt hefði nú verið umhorfs í ríkissjóði og ríkisfjármálunum, ársins 1988. Hvers vegna nefndi hann það ár sérstaklega? Ég er sammála honum um það að þá var verst stjórnað fjármálum landsins um langa tíð, eða kannski frá upphafi, á því ári þangað til þessi hæstv. ráðherra tók við. Þá keyrði um þverbak. Og geta menn getið upp á því hvers vegna hann nefndi einmitt þetta ár? Skyldi hann hafa verið að reynan að ná sér niðri á mér eða sjálfstæðismönnum? Hver var fjmrh. það ár? Muna menn það? Getur þessi hæstv. ráðherra svarað mér því? Hver var fjmrh. árið 1988?

Af hverju velur hæstv.fjmrh. það ár sérstaklega? ( Fjmrh.: Það vitum við báðir.) Já, og þú veist það að sjálfsögðu og þess vegna velurðu það, af því að þetta eiga nú að heita samherjar, hann og núv. hæstv. utanrrh. Þeir eru nefnilega alltaf með rýtinginn hver í bakinu á öðrum, þessir sem eiga að vinna saman og stjórna af sanngirni, heiðarleika og réttsýni þessu þjóðfélagi og svo eru þeir stöðugt að tala um stöðugleikann og stöðuglyndið, sjálfsagt á heimilinu hjá þeim, stöðugleikann í íslensku þjóðfélagi. Þar sé sko allt í sómanum og hafi aldrei verið annað eins dýrðarríki hér og einmitt núna.
    Málið sjálft er alveg ljóst. Þetta var útúrdúr hjá hæstv. ráðherra sem ég var aðeins að svara. Þetta frv. er svo sem ekki mikið öðruvísi en þetta frv. hefur alltaf verið. Þetta á auðvitað að vera hluti af fjárlögum landsins. Um það erum við hæstv. ráðherra sammála, held ég, að þetta er bara skrumskæling á ríkisfjármálunum. Það er verið að falsa hér allar mögulegar tölur og nota seðlabanka og einhverja aðra reiknimeistara til að aðstoða við að blekkja fólkið þannig að enginn botni neitt í neinu. Og ég er hér um bil viss um það að það var ekki nokkur einasti maður hér inni, sem var þó búinn að reyna að þrælast í gegnum þessar tölur og skilja þær fyrir fram, sem skildi orð af þessum talnalestri hæstv. ráðherra áðan, hvað snýr upp og hvað snýr niður. Ég þori alveg að leggja hausinn að veði að hér inni er ekki einn einasti maður sem skildi það, heldur ekki hann sjálfur. Þetta var allt þvælingur og tilvitnanir í einhverja reiknispekinga hjá tölvunum í Seðlabankanum.
    En þetta mál fer auðvitað til fjh. - og viðskn. þar sem ég á sæti. Þar verður auðvitað um það þjarkað, eins og alltaf áður. Síðan bíður það þangað til búið er að afgreiða fjárlögin sjálf eða á því sama augnabliki þegar gott samkomulag er milli manna. Það er ekki hægt að afgreiða annað málið án hins, þau hanga algerlega saman. Þetta er platfrv. sem notað er til þess að stela t.d. allra handa framlögum. Það stendur í mörgum greinum: Þrátt fyrir ákvæði þessarar greinar skal nú ekki standa við lögin. Þá skulu lögin brotin og fólk ekki fá peningana sem því ber. Þetta er ekkert hæstv. ráðherra einum að kenna. Þetta var komið til löngu fyrir hans tíma og þetta var liður þá í að falsa fjárlög til þess að geta sagt að þau væru hallalaus, sem þau reyndar aldrei voru. Hann segist sjálfur ætla að vera með ríkissjóð með halla upp á 3,7 milljarða, sem mér skilst muni verða. Það var víst á þessu ári, var það ekki hæstv. ráðherra? ( Fjmrh.: Það var á næsta ári.) Á næsta ári. ( Fjmrh.: Þetta er frv. fyrir næsta ár.) Já, en þessi tala sem hann nefndi sérstaklega, 3,7 það er fyrir næsta ár. Hvað skyldi það hafa verið á þessu ári? Það væri gaman að fá að vita það þó hann hafi það víst ekki á þessari stundu. Það er áreiðanlegt. Það verður náttúrlega miklu hærri upphæð þegar allt er saman tekið og þar með þetta frv. sem er hér til umræðu. Við getum svo deilt um það þegar þar að kemur en látið það kyrrt liggja nú.
    Það væri ekki heiðarlegt af mér að hafa engin góð orð um það sem gerst hefur. Það er út af fyrir sig alveg rétt að það hefur orðið nokkru meira frjálsræði í peningamálum af því að það gat enginn ráðið við annað. Það hlaut að verða. Það hefur komið inn í landið eitthvað af erlendu fé og þróunin er í þá átt að hér verður auðvitað frjáls peningamarkaður. Það er af hinu góða og ég hef barist fyrir því og skammast mín síst af öllu fyrir það. Ég hef líka bent á það að það væri ekkert athugavert við það, um eitthvert árabil, að ríkissjóður væri rekinn með halla ef það væri gert til þess að lækka skatta --- ég endurtek, til þess að lækka skatta, ekki síst neysluskatta, t.d. vörugjaldið, og þá skatta sem hafa bein áhrif á verðlagið það mikið að verðbólgan gufaði upp án þess að kjör fólksins væru skert. En hæstv. ráðherra hefur montað af því að vera að framkvæma mína stefnu, þ.e. fyrri hluta hennar, að reka ríkið með halla með opnum augum eitt eða tvö ár eða lengur þannig að það fé sem þannig áynnist yrði notað til að lækka skatta nægilega mikið til að verðbólgan gufaði upp. Það er einfalt mál. En hann gerir hvort tveggja. Hann eykur skattana stöðugt, í sífellu eykur hann skattana en tekur samt stórfé að láni, ekki frá fólkinu svo mikið, það er mest frá lífeyrissjóðum og auðugu fólki sem hann nær í þessa peninga á háum vöxtunum, með fullri ríkistryggingu. Hann nær þeim þannig. Hann keyrir verðbólguna áfram samhliða því sem hann aflar aukinna skatta og svo segir hann að ég hafi boðað þessa stefnu. Ég endurtek: Ég hef margsinnis sagt, ég held að fyrsta greinin sem ég skrifaði um það hafi verið í júlímánuði 1978, var að leiðbeina væntanlegum ráðherrum þá, það voru Framsókn og fleiri góðir sem mynduðu svo stjórn um haustið og hækkuðu auðvitað skatta, sérstaklega neysluskattana, í sífellu og verðbólgan náttúrlega rauk upp úr öllu valdi.
    Þessi hæstv. ráðherra er klókur. Það hef ég lengi vitað og þótt mjög gaman að honum. Við höfum oft haft gaman af að spjalla saman og m.a. um þessi málefni. Hann sér að þetta er nokkuð góð leið að fara nú á markaðinn, ná peningunum til sín, þjarma þannig að atvinnuvegunum að þeir þurfi enga peninga, og láta fólkið að einhverju leyti, og svo þá sem auðugri eru og lífeyrissjóðina og aðra sjóði, lána sér fjármagnið, en í leiðinni bara hækka skattana þannig að eignarrétturinn að auðlegð þjóðfélagsins færist allur yfir í ríkishítina alveg öfugt við það sem er að gerast í flestum öðrum löndum, þar á meðal í dýrðarríkjunum þarna fyrir austan tjald. Þar eru menn meira að segja að átta sig á því að það gengur nú ekkert að hafa fólkið allt eignalaust. Til langframa una menn því ekki. Þetta finnur hæstv. ráðherra af hyggjuviti sínu og hefur verið að framkvæma. Og svo ætlar hann að kenna mér um ósköpin öll sömul.
    Ég mundi nefnilega, hæstv. ráðherra, ef ég réði, gera allt þveröfugt við það sem þú gerir, alla hluti. Ég mundi þar að auki náttúrlega reyna að segja sannleikann. Ég held að ég mundi stundum líkjast hæstv. forsh. sem segir bara hreint út: Við getum ekkert annað en bara stórhækkað skattana, annars hrynur allt velferðarkerfið, og eins og það er nú beysið fyrir. Það hrynur ef skattarnir eru ekki stórhækkaðir. Það er hans

sannleikur.
    Nú vill svo til að þarna í næstu sveit, á Reykjanesinu, verða þessir ráðherrar líklega einhvers staðar í sviðsljósinu og þeir boða þetta: áframhaldandi skatta. Þeir lofsyngja dýrðina sem er alltaf að verða meiri og meiri frá degi til dags, frá klukkutíma til klukkutíma og nú lofa þeir því að stórhækka skattana, dengja þessu yfir þjóðina við náttúrlega fagnaðarlæti fólksins. Ég vona að það verði fagnaðarlæti þegar talið verður upp úr kjörkössunum.