Lánsfjárlög 1991
Þriðjudaginn 20. nóvember 1990


     Guðmundur Ágústsson :
    Virðulegur forseti. Þó ríkisstjórnin hafi margt gert til úrbóta verð ég nú að viðurkenna að framtíðin er ekki eins björt og hæstv. fjmrh. lýsti hér áðan. Þó verðbólgan hafi náðst niður þá má að verulegu leyti segja að það sé grundvöllur þeirrar þjóðarsáttar sem gerð var á sínum tíma. En það er margt að varast og sérstaklega í ríkisfjármálin.
    Ég hef oft velt því fyrir mér og sérstaklega nú þegar það ætlunarverk hefur tekist að stoppa erlendar lántökur og ná ríkisfjármálum niður með innlendum lántökum, hvað það hefur kostað.
    Það er alveg ljóst að þeir vextir sem ríkissjóður býður fást hvergi annars staðar á lánamarkaðinum. Það þýðir ekki fyrir fjmrh. að bera saman útlánsvexti bankakerfisins og vextina af spariskírteinum ríkisins. Þar er um tvennt ólíkt að ræða. Það ætti frekar að bera saman innlánsvexti bankanna og vextina af spariskírteinum ríkisins. Bankarnir bjóða ekki 6% eða 6,5%. Þeir bjóða 4 -- 5% í mesta lagi svo að það er að mínu viti einn af þeim þáttum sem hafa leitt af sér að ekki hefur tekist að ná hér niður raunvöxtum af þessari spennu sem er á markaðnum, m.a. vegna ákafa manna í fjmrn. að koma ríkisskuldabréfum á markað. Mig undrar það ekki að 8.000 manns hafi verið áskrifendur að spariskírteinum ríkissjóðs þar sem þetta er langhagstæðasti kosturinn á markaðnum. Eins og ég sagði áðan eru þau með 6 -- 6,5% vöxtum þegar bankakerfið getur ekki boðið nema í mesta lagi 5%. Svo að það er ekkert að undra þó að almenningur kaupi ríkisskuldabréf. Í ofanálag er þetta ríkistryggt þannig að fólk tekur ekki nokkra áhættu með því að kaupa þessi bréf. Að mínu viti hefðu þau átt að vera lægri en innlánsvextirnir.
    Þetta er það sem ég vildi segja í þessari umræðu. Ég er formaður fjh. - og viðskn. og þetta mál verður krufið en mér finnst að hið sanna og rétta eigi að koma í ljós þegar rætt er um þessi mál og reyna að finna lausnir og ræða um þessi mál af sanngirni og reyna að koma réttum skoðunum og réttum staðreyndum á framfæri.