Lögverndun á starfsheiti kennara og skólastjóra
Þriðjudaginn 20. nóvember 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir :
    Virðulegi forseti. Frv. þetta, sem er um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, er eflaust bót fyrir þessar stéttir en það er þó ýmislegt sem þarf að huga að í þessu máli.
    Núna á föstudag og laugardag átti ég þess kost að sitja merka ráðstefnu um menntastefnu til ársins 2000. Þar var margt reifað og margt talað og voru þar til umfjöllunar drög að starfsáætlun sem hefur verið undirbúin á vegum menntmrn. Því er ekki að neita að víða fannst manni þar gæta nokkurs einstrengingsháttar í málefnum kennara og því hverjir mættu koma nálægt uppeldis- og kennslumálum. En þó er aðeins eitt sem mig langar að gera hér að umtalsefni. Það varðar bæði starfsheitin, grunnskólakennari og framhaldsskólakennari. Nú er það svo að í þessum drögum að menntastefnu til ársins 2000, í aðalnámsskrá sem var samþykkt hér í fyrra, ef ég man rétt, og í umfjöllun um grunnskólalög sem lögð voru fyrir Alþingi í fyrra hefur verið lögð áhersla á stóraukna list- og verkmenntakennslu, bæði í grunnskólum og framhaldsskólum. Það mátti vel lesa það út úr þessum drögum að menntastefnu til ársins 2000 að fullur vilji væri til þess að framkvæma þetta. M.a. var kveðið þar á um að stórauka þyrfti þátt leiklistar í menntum.
Bæði tónmennt og myndmennt hafa verið hefðbundnar námsgreinar í grunnskólum. Það hefur verið hægt að taka þær líka í framhaldsskólum, í sumum skólum sem valgreinar, og það hefur reyndar verið hægt að taka leiklist þar líka sem valgrein.
    Það var aftur á móti ljóst, að mér fannst, í þessari menntastefnu, eða drögum að menntastefnu, að gert var ráð fyrir því að grunnskólakennarar önnuðust sjálfir leiklistarkennslu. Það var lögð áhersla á að það þyrfti að efla nám í myndmennt og tónmennt en síðan var lagt til að til sérstakra námskeiða yrði stofnað fyrir kennara. Í þessu frv. til laga er ekki minnst á þessa kennara eða hverjir eiga að kenna leiklist sem þó er sagt að eigi að stórauka í bæði grunnskólum og framhaldsskólum. Nú er að vísu hvergi kostur á því hér á landi að mennta kennara í leiklist. Ef til vill verður sú raunin þegar og ef listaháskóli tekur til starfa en þó mun víst að þó að kennarar í leiklist verði menntaðir í þeim skóla muni þeir ekki anna kennslu í þessari grein ef ætlunin er að taka hana upp í öllum grunnskólum og framhaldsskólum. Auk þess sem leiklistarháskóli mun auðvitað fyrst og fremst sinna menntun leikara, aðrar deildir hafa ekki mikið verið ræddar við þann skóla. En ef þessi drög að menntastefnu eiga að koma til framkvæmda, og það er ætlunin að það gerist á næstu tíu árum, þá verður að vera með einhverjum hætti ljóst hvernig á að annast þá kennslu sem þarna er stefnt að. Það er útbreiddur misskilningur meðal kennara að þeir kunni það fyrir sér í leiklist að þeir geti kennt leiklist og er þá oft, að ég hygg, verið að rugla saman tvennu. Eflaust stafar það að nokkru leyti af fákunnáttu. Annars vegar er verið að ræða um nokkuð sem hefur verið kölluð leikræn tjáning og sem er víða farið að nota

að verulegu marki til þess að gera alla almenna kennslu, ég vil ekki segja markvissari en oft kannski skemmtilegri eða til þess að nemendurnir tileinki sér námið betur með því að tjá á einhvern hátt í leikrænu formi. Einhver orðaði það svo að leikræn tjáning væri fólgin í því að til þess að nemendur sem byggju í þéttbýli vissu hvað kýr væri þá mundu allir nemendurnir leggjast á fjóra fætur og baula og þar með væri búið að sýna það í leikrænni tjáningu hvernig kýr væru og þeir mundu ekki gleyma því upp frá því.
    Þetta er allt saman ágætt og ekki ætla ég að kasta rýrð á þennan hátt á kennslu eða nauðsyn þess að nota leikræna tjáningu en aftur á móti er það alveg ljóst að leiklist kenna ekki almennir kennarar. Það er fag eins og allt annað og hér eru fög viðurkennd. Hér er verið að viðurkenna menntun kennara og því situr síst á kennurum að viðurkenna ekki menntun og faglega þekkingu annarra. Þess vegna langar mig nú að spyrja hæstv. menntmrh. hvernig ætlunin er að standa að þessum ákvæðum í drögum að menntastefnu, og jafnvel aðalnámsskrá, ef leiklistarfólki verður algjörlega meinað að kenna sitt fag og það ekki sjálft viðurkennt sem hæft fólk. Hvernig á þá að framkvæma þessar áætlanir um að stórauka hlut leiklistar í grunnskóla og framhaldsskóla?