Lögverndun á starfsheiti kennara og skólastjóra
Þriðjudaginn 20. nóvember 1990


     Birgir Ísl. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í grg. með þessu frv. þá er það flutt í samræmi við ákvæði sem er í gildandi lögum frá 1986 þess efnis að þau lög skuli endurskoðuð innan ákveðins tíma. Sú vinna hefur verið unnin í ráðuneytinu, eins og gert er grein fyrir í grg., og niðurstaðan liggur fyrir í þessu frv.
    Þessi lög sem nú eru endurskoðuð voru sett árið 1986. Þau voru mjög umdeild hér á Alþingi á sínum tíma og reyndar mjög umdeild í þjóðfélaginu almennt. Eins og Alþingi gerir stundum til þess að friða samvisku sína ef hún er ekki allt of góð, þá var sett ákvæði til bráðabirgða í lögin frá 1986 þess efnis að þau skyldu endurskoðuð eftir að mig minnir fjögur ár. Þessi lög voru umdeild en sú gagnrýni sem þau fengu beindist ekki gegn kennurum á neinn hátt né starfi þeirra, heldur fyrst og fremst gegn þeirri stefnu í þjóðfélaginu, sem hefur verið framfylgt í æ vaxandi mæli, að lögvernda bæði starfsheiti og starfsréttindi ákveðinna stétta og þar með er verið að skipta þjóðfélaginu upp í æ ákveðnari hólf. Sennilega var þetta einn stærsti bitinn sem Alþingi hafði borist um langa hríð þegar þetta frv. kom fram 1986 og þess vegna vildu menn gjarnan staldra við.
    Nú er komin nokkur reynsla af þessum lögum. Ég efast ekkert um að kennarar telji að þeir hafi með þessum lögum náð fram miklu réttindamáli, enda hygg ég að flutningur þessa frv. á sínum tíma hafi staðið í beinu sambandi við lausn á kjaradeilu við kennara. Hins vegar held ég að það sé alveg ljóst að þeim sem hafa unnið með lögin eins og þau hafa verið hefur fundist að lögin væru of stíf og sköpuðu ýmis vandamál í framkvæmd. Mér sýnist á frv. eins og það liggur hér fyrir að með því sé verið að reyna að sníða af helstu vankanta sem á framkvæmd þessara laga hafa verið.
    Ég vil aðeins nefna hér örfá atriði í frv. sem mér finnast verð til umhugsunar og byrja þá á ákvæði til bráðabirgða sem er á þá leið að þrátt fyrir ákvæði 6. gr., þ.e. þeirrar greinar sem fjallar um lögverndun á starfsréttindum kennara við framhaldsskóla, megi fastráða sem framhaldsskólakennara þá kennara sem náð höfðu 55 ára aldri 1. jan. 1987 og höfðu þá verið settir kennarar í fjögur ár eða lengur og höfðu lokið fullgildum prófum í kennslugrein sinni. Þetta á sem sagt við um framhaldsskólakennara. Ég fagna því að samkomulag skuli hafa náðst um ákvæði af þessu tagi því það er enginn vafi á því að það hafa komið upp mjög mörg og erfið dæmi, eins og reyndar er skýrt frá í grg., þar sem menn sem jafnvel hafa kennt meira og minna alla sína ævi, hafa ekki fengið réttindi. Oft er um að ræða menn sem hafa menntun í ákveðinni sérgrein, t.d. í verklegu fagi eða listgrein, og hafa kennt sína grein en hafa ekki lokið námi frá Kennaraháskólanum né frá Háskólanum í uppeldis- og kennslufræðum og þess vegna var þeim synjað um réttindi og stóðu nánast uppi réttindalausir og sviptir sínu ævistarfi. Þess vegna fagna ég því að þetta ákvæði skuli hafa komið þarna. En mér finnst umhugsunarvert hvort ekki eigi að huga að hliðstæðu ákvæði um grunnskólakennara og er rétt að athuga það nánar í nefndinni.
    Ég hygg þó að þetta mál sé öllu meira vandamál í framhaldsskólunum og ég vek einmitt athygli á því, sem hv. 12. þm. Reykv. gat um í sinni ræðu hér áðan, að þetta er alltaf spurningin um hvort er meira virði fyrir þann sem stendur í kennslu að hafa sérhæft sig í viðkomandi grein, hafa próf í viðkomandi grein, t.d. leiklist eða einhverri verklegri grein, eða hafa fengið próf í uppeldis- eða kennslufræði. Þetta er sú eilífa spurning sem menn standa frammi fyrir. Ég tel að við framkvæmd á reglum eins og þessum verði að vera ákveðin sveigja þannig að hægt sé að meta það nám og þau störf sem menn hafa innt af höndum. Þess vegna fagna ég því að ákvæðið til bráðabirgða skuli hafa verið sett í þetta frv.
    Af svipuðum toga reyndar er annað ákvæði í þessum lögum, þ.e. 13. grein. Í 1. og 2. málsgr. stendur, með leyfi forseta: ,,Óheimilt er að ráða eða skipa til kennslu við framhaldsskóla á vegum opinberra aðila eða hliðstæða skóla aðra en þá sem uppfylla ákvæði laga þessara. Undanþágu frá þessu m
á þó gera að því tilskildu að auglýst hafi verið ítrekað eftir framhaldsskólakennara en án árangurs og að um sé að ræða kennslustarf sem er átta stundir á viku eða minna og að skólastjóri og allir skólanefndarmenn séu sammála að ráða til kennslustarfa umsækjanda sem eigi fullnægir ákvæðum þessara laga.``
    Ég hygg að í þessu tilviki sé um að ræða í mjög mörgum tilvikum einmitt kennara sem hafa stundað kennslustörf en eru menntaðir í sínu sérfagi fyrst og fremst en eru ekki menntaðir kennarar. Og þess vegna fagna ég því að það skuli hafa verið opnuð þarna smuga sem er þó ekki mjög víð, því það er aðeins um að ræða átta kennslustundir á viku eða minna.
    Ég tek eftir því í grg. að það kemur fram að í nefndinni sem endurskoðaði lögin hafi komið fram tillaga um að hliðstæð breyting yrði gerð á undanþágum fyrir grunnskóla en um það hafi ekki náðst samkomulag. Þetta er auðvitað atriði sem þarf að kanna betur í þeirri nefnd sem fær mál þetta til umfjöllunar, þ.e. menntmn. þessarar deildar.
    Ég vil aðeins vekja athygli að lokum á 8. gr. frv., þ.e. lokamálsgrein þeirrar greinar, þar sem segir að sá umsækjandi, það er verið að fjalla um skólastjórnendur, sem lokið hafi viðurkenndu stjórnunarnámi fyrir skólastjórnendur við Kennaraháskóla Íslands eða Háskóla Íslands eða aðrar viðurkenndar menntastofnanir skuli að öðru jöfnu sitja fyrir um ráðningu í stöðu skólastjórnenda.
    Það kemur fram í grg. að um þetta hefur verið allmikið rætt í nefndinni og segir í grg.: ,,Þá er bætt við ákvæði þess efnis að umsækjandi sem lokið hefur viðurkenndu stjórnunarnámi fyrir skólastjórnendur skuli að öðru jöfnu sitja fyrir um ráðningu í stöðu skólastjórnanda. Það álit kom fram hjá fulltrúum KÍ og HÍK að ekki væri tímabært að setja um þetta ákvæði. Það nám sem nú væri boðið upp á væri aðeins ætlað starfandi skólastjórnendum en nauðsynlegt væri að

allir sem hefðu kennaramenntun ættu kost á að fara í námið. Niðurstaðan varð sú að láta ákvæðið standa í því trausti að komið yrði á fót námi fyrir skólastjórnendur sem væri opið öllum sem kennaramenntun hefðu.``
    Ég tel það reyndar mjög brýnt að slíkt nám verði opnað þannig að kennarar eigi kost á því að sækja slíkt nám þó þeir stundi ekki skólastjórnun fyrir. En mér finnst satt að segja afar vafasamt að setja ákvæði af þessu tagi inn í lögin í trausti þess að eitthvað gerist í náinni framtíð. Þannig að ég hef tilhneigingu til þess að vera sammála kennarasamtökunum í þessu tilviki, enda vilja þau þarna opna meira en frv. gerir ráð fyrir, og teldi að þetta ætti að kanna mjög rækilega einnig í nefndinni sem fær málið til umfjöllunar.
    Ég vil, virðulegi forseti, láta þessar athugasemdir duga hér við 1. umr., en á sæti í menntmn. þannig að þar er hægt að taka þessi atriði, og reyndar fleiri, til umræðu síðar.