Listamannalaun
Þriðjudaginn 20. nóvember 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Það var 20. júlí 1989 sem skipuð var nefnd til að gera tillögur að nýrri skipan listamannalauna. Nefndin skilaði áliti 30. nóv. 1989. Nefndin var þannig skipuð að formaður var Ragnar Arnalds alþm. en aðrir í nefndinni voru Eiður Guðnason alþm., Brynja Benediktsdóttir, forseti Bandalags ísl. listamanna, Gerður Steinþórsdóttir kennari og Guðný Magnúsdóttir myndlistarmaður. Kristni Hallssyni, starfsmanni í menntmrn., var falið að starfa með nefndinni, en hún naut einnig aðstoðar Sigurðar Reynis Péturssonar hrl. við endanlega gerð frv.
    Það er mjög langt síðan skiptar skoðanir fóru að koma fram, jafnvel óánægja, meðal listamanna um útdeilingu listamannalauna. Sú saga verður ekki rakin hér, enda þjónar það engum tilgangi. Á það hefur hins vegar verið bent að listamenn mismunandi listgreina hafi ekki setið við sama borð og þessi mál hafa verið mikið rædd innan samtaka listamanna og menn hafa óskað lagfæringa og breytinga á þeirri skipan sem hér hefur verið um nokkurt skeið.
    Launasjóður rithöfunda og Starfslaunasjóður myndlistarmanna eru þegar fyrir hendi og í mörg ár höfðu svo tónskáld ítrekað sótt um að fá sérstakan tónskáldasjóð. Þessir þrír hópar hafa, eins og kunnugt er, hvað mesta þörf fyrir starfslaun.
    Í því frv. sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir að starfslaunasjóðir verði þrír, þ.e. Launasjóður rithöfunda, Launasjóður myndlistarmanna og Tónskáldasjóður sem er nýr sjóður. Fjórði sjóðurinn yrði svokallaður Listasjóður eins og hann heitir samkvæmt frv. en honum er ætlað að veita auk starfsstyrkja verkefnastyrki, náms - og ferðastyrki og jafnframt styrki til listamanna sem notið hafa listamannalauna undanfarin ár.
    Í frv. er gert ráð fyrir að starfsstyrkir og laun miðist við 840 mánaðarlaun. Árið 1989 voru veitt starfslaun sem námu 764 mánaðarlaunum og hækkun fjárframlags sem samkvæmt frv. mun vera um 15 millj. kr. eða hækka í um 60 millj. kr. úr 45 millj. kr. eins og þetta var á síðasta ári. Síðan er gert ráð fyrir að um reglubundna hækkun verði að ræða árlega í fimm ár en að lögin verði síðan endurskoðuð að loknum fimm árum frá gildistöku þeirra.
    Í frv. er gert ráð fyrir að skipuð verði þriggja manna stjórn. Henni er ætlað að annast vörslu sjóðanna og sjá um bókhald þeirra. Sérstakar úthlutunarnefndir veita fé úr sérgreindu sjóðunum en stjórnin úthlutar fé úr Listasjóði. Bandalag ísl. listamanna og Háskóli Íslands tilnefna aðila í stjórn en einn er skipaður af ráðherra án tilnefningar.
    Varðandi heiðurslaun listamanna er gert ráð fyrir því í frv. að þau verði áfram veitt af Alþingi en í frv. er miðað við að nýir heiðurslaunaþegar verði að hafa náð 65 ára aldri er þeir hefja töku heiðurslauna.
    Það ber að taka það fram að mjög mikið af tillögum og öðrum gögnum bárust þeirri nefnd sem undirbjó frv. Nefndin leitaði sjálf upplýsinga um á hvern hátt væri farið með þessi mál í ýmsum löndum, m.a. á Norðurlöndunum. Einnig var höfð hliðsjón af tillögum sem Bandalag ísl. listamanna hafði lagt fram fyrir nokkrum árum og tillögur nefndarinnar voru áður en þær voru frágengnar sendar ýmsum aðilum og kynntar í félögum og samtökum listamanna.
    Í starfi sínu tók nefndin sérstaklega mið, tel ég vera, af þeim umræðum sem fram hafa farið um langt árabil innan Bandalags ísl. listamanna og það ber að geta þess að Tónskáldafélag Íslands hafði barist fyrir stofnun sérstaks tónskáldasjóðs allt frá árinu 1982 og lagt fram tillögur að lagafrv. og greinargerð þar að lútandi. Þess vegna var mikið af gögnum og tillögum og vinnu sem lá fyrir þessari nefnd um launa - og styrkjakerfi í þágu listamanna.
    Eins og ég sagði var leitað upplýsinga um fyrirkomulag þessara mála á Norðurlöndum en sömuleiðis í Hollandi og Frakklandi og víðar og nefndin komst að þeirri niðurstöðu að þær reglur sem gilda um þessi mál í Finnlandi mætti einna helst hafa til hliðsjónar við gerð þessa frv. og var það gert.
    Ég tel ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, að fara ítarlega yfir einstök ákvæði frv. umfram það sem ég hef þegar gert. Það er gert ráð fyrir því í 1. gr. að það sé Alþingi sem veitir fé á fjárlögum til listamannalauna, að Alþingi veiti listamönnum heiðurslaun og þeir skulu hafa náð 65 ára aldri, í 3. gr. að sjóðirnir séu fjórir, rithöfunda, myndlistarmanna, tónskálda og svo Listasjóður sem er almennur sjóður sem auk starfslauna veiti verkefnastyrki til ýmissa listgreina, enn fremur aðra styrki og framlög sbr. 10. gr. frv. Þar er m.a. mikilvægt ákvæði þar sem segir: ,,Listasjóður veitir einnig verkefnastyrki, náms - og ferðastyrki og jafnframt sérstök framlög til listamanna, m.a. til þeirra sem notið hafa listamannalauna undanfarin ár og náð hafa 60 ára aldri. Í 4. gr. er svo ákvæði um stjórnkerfið, í 5. gr. er ákvæði um launin, þ.e. við hvað starfslaunin skuli miðast, og gerð grein fyrir því í greinargerð frv. Gert er ráð fyrir að starfslaun verði miðuð við tiltekin lektorslaun við Háskóla Íslands og með því mundu mánaðarlaunin hækka úr 70.950 kr. á mánuði í 77.922 kr. á mánuði samkvæmt þeim töxtum sem nú er unnið eftir.
    Þá er einnig gert ráð fyrir að ýmsir styrkþegar sem ekki eru félagar í lífeyrissjóði geti öðlast lífeyrisréttindi í Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda.
    Í 12. gr. er ákvæði þar sem segir: ,,Stjórn listamannalauna skal vinna markvisst að því að sveitarfélög og fyrirtæki veiti listamönnum starfslaun eða leggi fram fé í Listasjóð.`` Þetta tel ég að sé mikilvægt ákvæði, að fela stjórninni að sinna þessu verkefni að reyna að fjármagna þessa sjóði sérstaklega og loks er auðvitað gert ráð fyrir að um leið og þetta frv. yrði að lögum, ef samþykkt verður, falli úr gildi þau lög sem nú eru í gildi um listamannalaun, frá árinu 1967, og svo lög nr. 29 frá 20. maí 1975, um Launasjóð rithöfunda.
    Hér er um að ræða stórt mál sem snertir ekki aðeins hag listamanna heldur má segja menningarlegan hag þjóðarinnar allrar og ég vænti þess að hv. menntmn. taki frv. vel og hið virðulega Alþingi sýni þessum málaflokki fullan sóma. Ég legg til, virðulegi forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.