Læknalög
Þriðjudaginn 20. nóvember 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á læknalögum nr. 53/1988, með breytingu nr. 50/1990, sem flutt er á þskj. 165 og er 153. mál deildarinnar.
    Frv. þetta sem ég mæli hér fyrir um, breytingu á læknalögunum með síðari breytingum, er að hluta til endurflutningur á frv. sem lagt var fram hér á Alþingi í mars sl. og aðeins hlaut afgreiðslu að hluta til. Í áliti heilbr. - og trn. Nd. við afgreiðslu frv. sl. vor kom fram að of skammur tími hafi verið til umfjöllunar um fyrstu þrjár greinar frv. Með vísun til þessa var ákveðið að leggja frv. fram á ný með hliðsjón af þremur fyrstu greinum þess auk þess sem ákveðið var að leggja til breytingar á ákvæðum um afhendingarskyldu, sem reyndar var breytt í vor, þannig að þau standi ekki í vegi fyrir því að landlækni og öðrum opinberum aðilum sem samkvæmt lögum er falið að athuga kærur vegna læknismeðferðar verði afhentar sjúkraskrár sem færðar voru fyrir gildistöku læknalaganna nr. 53/1988 sem var 1. júlí það ár.
    Þau atriði sem frv. þetta fjallar um snerta í fyrsta lagi fjölgun tillöguaðila um viðbótarnám læknakandídata til að öðlast lækningaleyfi og um nám sérfræðinga. Í öðru lagi breytta meðferð umsókna um lækningaleyfi og sérfræðileyfi og að tillit verði tekið til samnings um gagnkvæm starfsréttindi innan heilbrigðisþjónustunnar á Norðurlöndum, sem Ísland hefur verið aðili að varðandi lækna frá árinu 1982. Í þriðja lagi er lagt til að 2. mgr. 16. gr. læknalaga, eins og henni var breytt með 2. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1990, verði breytt þannig að hún standi ekki í vegi fyrir því að landlæknir og aðrir opinberir aðilar sem samkvæmt lögum er falið að athuga kærur vegna læknismeðferðar verði afhentar sjúkraskrár sem færðar voru fyrir gildistöku laganna nr. 53/1988. Vil ég hér á eftir gera nánari grein fyrir þessum þáttum.
    Með þeim breytingum sem koma fram í 1. og 3. gr. frv. er ætlunin að fjölga þeim aðilum sem gera eiga tillögur til heilbrrh. um reglur um viðbótarnám á heilbrigðisstofnunum til þess að geta hlotið lækningaleyfi og sérfræðileyfi. Samkvæmt gildandi lögum er þetta eingöngu hlutverk læknadeildar Háskóla Íslands en gerð er tillaga um að bæði landlæknir og Læknafélag Íslands geri einnig tillögur hér að lútandi. Ráðuneytið telur öll rök mæla með því að landlæknir, sem er faglegur eftirlitsaðili með læknum, hafi þennan tillögurétt og jafnframt fagfélag lækna, Læknafélag Íslands.
    Enn fremur eru gerðar tillögur um breytta meðferð umsókna um almennt lækningaleyfi. Samkvæmt gildandi ákvæðum skal þriggja manna nefnd skoða umsóknir um almennt lækningaleyfi en langflestir umsækjenda hafa lokið námi frá læknadeild Háskóla Íslands. Í nefndinni er einn fulltrúi læknadeildar Háskólans, einn fulltrúi landlæknis og einn fulltrúi Læknafélags Íslands.
    Það sem skoða þarf vegna umsóknar um lækningaleyfi er hvort umsækjandi hafi lokið viðbótarnáminu, þ.e. kandídatsári, í samræmi við settar reglur. Ráðuneytið er þeirrar skoðunar að gildandi fyrirkomulag sé óþarflega tafsamt því það sem eingöngu þarf að kanna eru skilyrðin um viðbótarnám en þau liggja yfirleitt fyrir. Gerir því ráðuneytið tillögu um það að læknadeildin ásamt landlækni geri tillögu um afgreiðslu þessara umsókna í staðinn. Hins vegar þykir ráðuneytinu rétt sbr. 3. gr. frv. að fela þriggja manna nefnd, skipaðri landlækni sem formanni og fulltrúum tilnefndum af Háskóla Íslands og Læknafélagi Íslands, að meta umsóknir um sérfræðileyfi. Eins og kunnugt er stunda íslenskir læknar sérfræðinám víða um heim og er því eðlilegt að sérstök nefnd kanni gaumgæfilega umsóknir þeirra um sérfræðiviðurkenningu. Með því að gera landlækni að formanni nefndarinnar er umsagnarferillinn einfaldaður. Eins og fyrirkomulagið er í dag fara allar umsóknir um sérfræðileyfi fyrst til ráðuneytisins, þaðan til landlæknis og til læknadeildar frá landlækni og síðan sömu leið til baka. Ráðuneytinu þykir eðlilegt að fulltrúi Læknafélags Íslands eigi aðild að þessari nefnd, líkt og á sér stað um önnur fagfélög heilbrigðisstétta þegar um er að ræða sambærilegar leyfisveitingar.
    Ísland hefur um nokkurt skeið verið aðili að norrænum samningi um viðurkenningu á starfsréttindum innan heilbrigðisþjónustunnar og dýralæknaþjónustunnar hvað snertir lækna og lyfjafræðinga. Samkvæmt þessu hefur Ísland skuldbundið sig til að viðurkenna lækningaleyfi og sérfræðileyfi sem gefin eru út annars staðar á Norðurlöndum. Þetta þýðir í raun að íslenskur læknir sem stundað hefur framhaldsnám í einhverju Norðurlandanna og fengið sérfræðiviðurkenningu þar getur í krafti samningsins fengið sams konar leyfi hér á landi jafnvel þótt einhver munur kunni að vera á milli landanna á námsfyrirkomulagi í viðkomandi grein, en yfirvöld Norðurlandanna eru sammála um að hér sé um sambærilega menntun að ræða. Læknadeild Háskóla Íslands hefur túlkað ákvæði samningsins svo að þrátt fyrir sérfræðiviðurkenningu frá einhverju Norðurlandanna skuli deildin leggja sjálfstætt mat á það hvort veita eigi viðkomandi íslenskt sérfræðileyfi. Og vegna þess að oft er einhver munur á milli landanna á námsfyrirkomulagi í einstökum greinum og lengd námsins ekki alltaf sú sama hefur læknadeild í nokkrum tilvikum synjað íslenskum læknum um meðmæli þótt þeir hafi þegar fengið sérfræðiviðurkenningu á hinum Norðurlöndunum, sérstaklega í Svíþjóð.
    Samkvæmt læknalögum er krafist meðmæla læknadeildar. Nú standa mál þannig, eftir kæru íslensks læknis sem synjað var um leyfi samkvæmt ofanrituðu, að heilbr. - og trmrn. er sakað um að hafa brotið gegn samningnum. Hefur þeim tilmælum verið beint til ráðuneytisins að málið verði endurskoðað og sérfræðileyfið veitt. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir ráðuneytisins til þess að leysa málið hefur það strandað á því ákvæði læknalaga sem gefur læknadeild Háskólans algert vald um veitingu sérfræðileyfa og um setningu reglna um nám sérfræðinga. Ráðuneytið hefur farið þess á leit, til þess að sleppa við kæru, að hin Norðurlöndin bíði átekta og sjái hverju fram vindur um lagabreytingar. Það er skoðun ráðuneytisins að náist ekki fram þær breytingar sem hér eru lagðar til varðandi norræna samninginn sé ekki um annað að ræða en að taka hann til gagngerðrar endurskoðunar eða jafnvel að segja honum upp. Með því er viðbúið að íslenskum læknum sem fara í framhaldsnám til hinna Norðurlandanna, sérstaklega Svíþjóðar, verði gert að starfa við heilsugæslu í strjálbýli þar í allt að ár til þess að fá læknaleyfi, en starfstíma við heilsugæslu í strjálbýli hér á landi hefur ekki verið krafist frá árinu 1985. Þannig er viðbótarnám hér á landi styttra en á hinum Norðurlöndunum. Sér hver sem sjá vill að með þessu yrði framhaldsnámi íslenskra lækna á Norðurlöndunum stefnt í hættu, það gert tafsamara. Það er því mikilvægt að lausn fáist á því máli sem hér er rætt um því að það varðar jafnt þá lækna sem fara til Norðurlandanna í framhaldsnám sem og íslenska lækna sem fara í sérfræðinám þangað.
    Í 4. gr. frv. er gerð tillaga um breytingu á nýsamþykktri 2. mgr. 3. gr. læknalaga, sbr. það sem ég sagði hér áður um afhendingarskyldu á sjúkraskrám. Í vor var ákveðið að hún skyldi miðast við gildistöku læknalaga sem var 1. júlí 1988. Þar er jafnframt kveðið á um að sama gildi gagnvart opinberum aðilum sem lögum samkvæmt ber að athuga kæru sjúklings eða umboðsmanns vegna læknismeðferðar. Landlækni hefur verið neitað um afhendingu sjúkraskráa með stoð í þessu fortakslausa ákvæði um afturvirkni. Það liggur ljóst fyrir að landlækni og reyndar öðrum opinberum aðilum sem hér eiga hlut að máli er fyrirmunað að sinna eftirlitshlutverki sínu verði lögunum ekki breytt. Er því lagt til að ákvæði um afturvirkni gildi ekki um opinbera aðila eins og landlækni, þannig að þeir geti krafist sjúkraskráa óháð hinum takmarkandi ákvæðum um afturvirknina. Að öðru leyti er ekki gert ráð fyrir breytingu á lögunum miðað við þær breytingar sem þingið gerði í fyrra um afhendingu sjúkraskráa aftur í tímann til einstaklinga eða umboðsmanna þeirra.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að fara um frv. þetta fleiri orðum en legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og heilbr.- og trn. með beiðni um að afgreiðslu þess verði hraðað sem mest enda brýnt að fá úr því skorið hvort ráðuneytið geti starfað samkvæmt áðurnefndum samningi um gagnkvæm starfsréttindi lækna eða hvort grípa þurfi til annarra ráða, jafnvel uppsagnar. Enn fremur að landlæknir og aðrir opinberir aðilar geti rækt störf sín samkvæmt lögum.