Læknalög
Þriðjudaginn 20. nóvember 1990


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. 13. þm. Reykv. fyrir ágætar athugasemdir. Það var að vísu ekki það sem knúði mig til að koma hér í stólinn í dag. Þó ég eigi og muni hafa tækifæri til þess að fjalla um þetta mál í nefnd og mun því ekki hafa mörg orð um það sem mér liggur á hjarta nú vil ég aðeins gera athugasemdir varðandi þær greinar sem fjalla um sérfræðiréttindi og mat á þeim. Miklar umræður urðu í hv. heilbr.- og trn. Nd. á síðasta þingi vegna þessa máls. Þá lágu fyrir þær upplýsingar sem hér eru lagðar til grundvallar, sá málarekstur sem hafði verið út af einstöku tilfelli. Ég sé ekki að neitt nýtt hafi komið í þessari umræðu og ítreka að hv. heilbr.- og trn. treysti sér ekki til að afgreiða þetta úr nefnd miðað við þær aðstæður og þær upplýsingar sem þá lágu fyrir.
    Nú skal ég ekki leggja dóm á hvað ítarleg umfjöllun innan nefndar mun hafa í för með sér. En ég legg áherslu á að það var hv. nefnd sem treysti sér ekki til þess að taka ákvörðun í þessu máli á síðasta þingi. Ég tel að þetta mál hafi ekki verið útrætt innan nefndarinnar og þar af leiðandi hafi ekki verið grundvöllur fyrir því að afgreiða það. Þetta mál mun þurfa ítarlega umfjöllun í viðbót innan nefndarinnar. Hér er greinilega um mikið álitamál að ræða og sú er ástæðan fyrir því að þetta mál fékk ekki afgreiðslu. Því vara ég við því ef ætlunin er að þetta mál hljóti skjóta umfjöllun innan nefndarinnar, það var ekki að ástæðulausu að þær miklu umræður sem urðu á síðasta þingi voru og ég vonast til þess að hv. nefnd fjalli á faglegan hátt og afli sér mikilla upplýsinga áður en ákvörðun verður tekin í þessu máli.