Læknalög
Þriðjudaginn 20. nóvember 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Herra forseti. Fyrst aðeins út af orðum hv. 10. þm. Reykn., þá er ég þingmanninum alveg sammála um það að ég vonast til þess að heilbr.- og trn. fari ítarlega yfir þetta mál og skoði það gaumgæfilega. Til þess er að sjálfsögðu ætlast um öll lagafrv. og það er einmitt ástæðan fyrir því að þetta mál er nú flutt aftur í upphafi þessa þings þó það næði ekki afgreiðslu í lok seinasta þings og nefndin hafi vísað þessum tilteknu lagagreinum frá. Hún gerði það með því fororði að of skammur tími hafi verið til umfjöllunar um fyrstu þrjár greinar þess frv., sem eru jafnframt fyrstu þrjár greinar þessa frv. Það kom ekki fram í nál. að nefndin hafi verið á móti málinu eða hafnað því þess vegna, heldur vegna þess að hún taldi sig þurfa meiri og betri tíma til þess að vinna það. Ég undirstrika það að ég ætlast til þess og vonast til þess að nefndin geri það, en vil gjarnan að hún geri það fljótt og vel. En hún verður auðvitað að taka sinn tíma til þess, það er mér ljóst og ég skil það en bið menn, og þá sérstaklega nefndarmenn, að hafa í huga að ákveðin mál liggja óafgreidd þangað til í ljós kemur hvort Alþingi treystir sér til að gera nauðsynlegar lagabreytingar, lagabreytingar sem ég og þeir sem hafa undirbúið frv. í heilbrrn. telja nauðsynlegar. Því finnst mér frekar liggja á málinu en hitt en ekki svo að ég ætlist ekki til þess að það fái ítarlega umfjöllun.
    Varðandi 4. gr. frv. sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir, 13. þm. Reykv., gerði að aðalumtalsefni og fór ítarlega yfir, þá þakka ég henni fyrir þá sögu sem hún rakti og gerði grein fyrir því sem á undan hefði gengið í málinu.
    Þó langar mig að gera það enn ítarlegra eða alveg ljóst að í frv. sem ég lagði fram í fyrravor, eða seint á seinasta þingi, þá var það afstaða mín og ráðuneytisstarfsfólksins sem hafði unnið að málinu og var reyndar líka samhljóða áliti umboðsmanns Alþingis, ekki það að ég er algerlega sammála hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að umboðsmaður Alþingis segir Alþingi að sjálfsögðu ekki fyrir verkum heldur kemur með ábendingar, og það hef ég nú þegar látið í ljósi í umræðum við fjölmiðla út af þessu máli sem hafa verið í gangi í dag, en okkar skoðun var sú að það ætti að kveða ótvírætt á um það að afhending sjúkraskráa væri afturvirk og ekki ætti að setja á þetta þá takmörkun sem Alþingi síðan komst að niðurstöðu um að skyldi verða.
    Aðalatriði í mínu máli á síðasta þingi var reyndar að fá það alveg skýrt hvort heldur ætti að vera. Að það væri ekki óljóst eins og í gömlu lögunum, eða í lögunum frá 1988, þar sem segir: ,,Lækni er skylt að afhenda sjúkraskrá, alla eða að hluta, sjúklingi eða forráðamanni ef það þjónar ótvíræðum hagsmunum sjúklings.`` Síðan var ekkert kveðið á um það hvenær eða frá hvaða tíma það skyldi gert.
    Ráðuneytið lenti strax í deilu við aðila í þjóðfélaginu um það hvernig bæri að túlka þessa grein og þess vegna varð að taka af tvímæli. Og það var það

sem Alþingi gerði í fyrra þó að það væri ekki samhljóða því sem frv. gerði ráð fyrir og þeim tillögum sem ég lagði hér fyrir heldur alveg hið gagnstæða.
    Niðurstaða heilbr. - og trn. þá og þingsins síðan varð sú að þetta skyldi ekki vera afturvirkt, ekki lengra en til gildistöku laganna frá miðju ári 1988. En þá fer þessi breyting þannig fram að ekki er gætt nægjanlega vel að því að landlæknisembættið og opinberir aðilar sem þurfa að rannsaka mál hafi til þess ótvíræða heimild.
    Það hefur nú þegar komið í ljós frá samþykkt laganna í fyrravor að landlæknisembættið á í erfiðleikum með að fá aðgang að sjúkraskrám. Þess vegna töldum við nauðsynlegt að gera breytingu á lögunum hvað þetta varðaði til þess að það væri þá alveg skýrt einnig og tekin af öll tvímæli í því sambandi. Ég vona að Alþingi verði mér sammála um það núna að frv. fari fram eins og hér er lagt til að þessu sinni, enda ekki breytt þeirri ákvörðun eða gerð nein tillaga um það að breyta þeirri ákvörðun sem Alþingi tók í fyrra um það að afturvirkni skyldi ekki vera gagnvart einstaklingnum og/eða umboðsmönnum hans nema til gildistöku laganna frá miðju ári 1988.
    Vona ég, herra forseti, að þetta sé nokkuð ljóst öllum aðilum og skoðun mín á málinu.