Læknalög
Þriðjudaginn 20. nóvember 1990


     Jón Sæmundur Sigurjónsson :
    Virðulegi forseti. Ég stend hér aðeins upp til þess að taka undir orð hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur. Ég vil lýsa furðu minni á því ef það hefur komið fram í fréttum útvarpsins í dag í hádeginu, sem ég heyrði ekki, að Alþingi hafi orðið á mistök vegna þess að það hafi ekki farið eftir tilmælum umboðsmanns Alþingis. Ég held að það hljóti að vera algerlega skýrt og verði að vera fréttamönnum útvarpsins einnig ljóst hverjir það eru hér í þessu landi sem setja lög. Það er vissulega ekki umboðsmaður Alþingis heldur hið háa Alþingi Íslendinga og þeir þingmenn sem það sitja.
    Hvað þetta mál sérstaklega varðar, þ.e. afhendingu sjúkraskráa eða meðferð upplýsinga í sjúkraskrám, eins og það hét nú eftir meðferð heilbr. - og trn. á þessu máli, þá komu fram tilmæli eða túlkun umboðsmanns Alþingis varðandi þau lög sem þá voru í gildi og viss viljayfirlýsing ráðuneytis þess efnis að óskýr lög skyldu breytast á þann hátt að allur vafi skyldi tekinn af því að réttur sjúklinga væri ótvíræður til að athuga sínar sjúkraskrár aftur í tímann. Enginn nefndarmanna í heilbr. - og trn. tók undir þetta sjónarmið á sínum tíma þannig að niðurstaðan var ljós frá nefndarinnar hálfu. Hún gerði tillögu um það til Alþingis að sjúklingum skyldi einungis vera heimilt að leita til sinna sjúkraskráa frá og með gildistöku laganna en ekki fyrir þann tíma. Ástæður nefndarinnar voru ljósar. Þær voru þær að læknar höfðu fært þessar skýrslur í trausti þess að þær yrðu ekki opnar fyrir aðstandendum sjúklinga eða sjúklingum sjálfum nema eftir mjög erfitt ferli í gegnum landlækni og annað slíkt. Nefndin var ekki þeirrar skoðunar að skoðun sjúkraskráa skyldi gerð afturvirk að þessu leyti. Alþingi tók síðan afstöðu með nál. heilbr. - og trn. þannig að atriði varðandi þetta eru ljós. Hið háa Alþingi skar upp úr með það hvernig skuli fara með upplýsingar í sjúkraskrám.
    Hvað snertir viðurkenningu á sérfræðiréttindum þá er það rétt sem komið hefur fram í máli talsmanna hér á undan, hæstv. ráðherra og hv. annarra þm., að heilbr. - og trn. treysti sér ekki til þess að skera úr um þetta mál á þeim tíma sem henni var veittur til afgreiðslu málsins á sl. vori. Það höfðu farið fram ítarlegar umræður en menn voru ekki tilbúnir, voru ekki í stakk búnir til að taka ákvörðun á því stigi. Þetta mál kemur nú aftur fyrir nefndina og ég er fullviss um að það kemur þar til ítarlegrar umfjöllunar og ég vonast til að það hljóti þá afgreiðslu sem það á skilið eftir mínu áliti, þ.e. að við göngum eftir þeim samningum sem við höfum gert við aðrar Norðurlandaþjóðir og viðurkennum sérfræðiréttindi á Íslandi sem menn hafa öðlast þar.