Ábyrgðadeild fiskeldislána
Miðvikudaginn 21. nóvember 1990


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Það er öllum þingdeildarmönnum kunnugt að miklir erfiðleikar steðja að fiskeldisfyrirtækjum. Fyrir því eru margvíslegar ástæður. M.a. hafa markaðir fyrir eldislax reynst ótryggir og verð staðið í stað og jafnvel fallið verulega á erlendum mörkuðum. Á hinn bóginn hafa ýmsir rekstrarerfiðleikar steðjað að fiskeldisfyrirtækjum. Eldið sjálft hefur reynst erfiðara en menn áttu von á og greinilegt er að við Íslendingar vorum ekki jafnvel búnir undir þennan atvinnurekstur og við vildum sjálfir telja okkur trú um. Við hér á Alþingi höfum tvívegis staðið frammi fyrir því að ríkisstjórnin hefur viljað koma myndarlega til móts við fiskeldisfyrirtækin með því að veita ríkisábyrgð á afurðalánum til fiskeldisstöðva. Í bæði skiptin hefur legið mjög mikið á því að afgreiða slík mál gegnum þingið, verið talað um að menn séu að tefja fyrir nauðsynlegri lagasetningu og þar fram eftir götunum, en síðan hefur lengi staðið á þeim ráðherra sem málið hefur heyrt undir að gefa út nauðsynlegar reglugerðir eða koma í framkvæmd þeim lagabókstaf sem hér hefur verið hlaupið til og greidd atkvæði með. Við þekkjum þetta og við vitum að þetta hefur valdið ómældu tjóni, röskun í þessari atvinnugrein og almennu tjóni í þjóðfélaginu. Af þessari ástæðu var það að ég óskaði eftir því í stjórn Byggðastofnunar að forsrh. yrði skrifað bréf og vakin athygli hans á þeim erfiðleikum sem fiskeldisfyrirtæki stæðu frammi fyrir um leið og honum væri gerð grein fyrir því að sá kostnaður sem því fylgir að eiga viðskipti við ábyrgðadeild fiskeldislána er svo gífurlegur að fyrirtæki hafa nánast ekki ráð á að þiggja þá tryggingu sem sjóðurinn veitir.
    Það kom fram á fundi Byggðastofnunar í gær að forstjóri sjóðsins, Guðmundur Malmquist, hefði rætt þessi mál við forsrh. og í framhaldi af því var hann fullvissaður um að skipuð yrði ráðherranefnd til að kynna sér þessi mál og fjalla sérstaklega um það með hvaða hætti sé hægt að tryggja það sæmilega að fiskeldisfyrirtæki fái nauðsynleg bankaviðskipti til afurðalána, afurðalánaviðskipti, án þess að á viðkomandi fiskeldisfyrirtæki séu lagðar svo þungar klyfjar að fyrirtækin geti með engum hætti risið undir slíku.
    Það gerðist á fundi stjórnar Byggðastofnunar nú í haust að meiri hluti stjórnarinnar samþykkti að veita rekstrarlán eða afurðalán til tveggja fyrirtækja. Þetta var hugsað sem skammtímaráðstöfun í ljósi þess að einstakir stjórnarmenn í Byggðastofnun töldu fiskeldisfyrirtæki sæta slíkum afarkostum í ábyrgðadeild fiskeldislána að nauðsynlegt væri að reyna að koma betri skipan á þau mál. Ég vil taka það alveg sérstaklega fram að við fulltrúar Sjálfstfl. vorum þessu andvígir, töldum að Byggðastofnun ætti ekki að fara inn á þessa braut, en fulltrúar ríkisstjórnarinnar í stjórn Byggðastofnunar töldu nauðsynlegt að fara þessa leið og þá til bráðabirgða í trausti þess að ríkisstjórnin mundi bregðast við og greiða svo fyrir viðskiptum fiskeldisfyrirtækja við ábyrgðadeild fiskeldislána að hægt væri að búast við því að einstök fiskeldisfyrirtæki gætu átt eðlileg viðskipti við deildina.
    Nú er auðvitað gott tækifæri til þess að spyrja hæstv. sjútvrh. hvað þessu máli líði. Mér skilst að hann sé, ég veit ekki hvort ég á að segja formaður ráðherranefndarinnar eða sá maður sem eigi a.m.k. að knýja ráðherranefndina áfram. Þessi mál heyra beint undir sjútvrh. í ríkisstjórninni, þessari óformlegu ráðherranefnd. Ef ég hef haft réttar upplýsingar tel ég nauðsynlegt að spyrja hæstv. sjútvrh. hvaða hugmyndir séu uppi í ríkisstjórninni varðandi þetta atriði, hvort hafi komið til tals að einhver opinber sjóður, Framkvæmdasjóður, Byggðasjóður eða einhver annar sjóður, kannski Fiskveiðasjóður, taki almennt að sér að veita afurðalán til fiskeldisfyrirtækja og þá á öðrum forsendum en ábyrgðadeild fiskeldislána hefur starfað á eða hvort það sé mat ráðherrans að þessi viðskipti gangi fyrir sig með eðlilegum hætti og það hafi því verið misskilningur hjá meiri hluta stjórnar Byggðasjóðs að veita þá afurðalánafyrirgreiðslu sem einstökum fyrirtækjum var veitt á sl. hausti.