Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn
Miðvikudaginn 21. nóvember 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd breytingar á og viðauka við stofnskrá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Frv. þetta sem kemur frá hv. Ed. er á þskj. 121. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, á ensku The International Monetary Fund, var stofnaður skömmu eftir lok síðari heimsstyrjaldar og Ísland var einn af stofnaðilum hans. Nú eru 154 ríki aðilar að þessum sjóði. Mongólía og Sviss hafa nýlega sótt um aðild að sjóðnum og þess er vænst að þau og Sovétríkin bætist í hóp aðildarríkja áður en langt um líður.
    Starfsemi sjóðsins hefur tekið ýmsum breytingum frá því hann var stofnaður. Í fyrstu beindust kraftar hans að því að útrýma hömlum á gjaldeyrisviðskiptum milli þjóða, einkum venjulegum greiðslum fyrir vörur og þjónustu. Góður árangur á því sviði ásamt farsælu samstarfi margra þjóða um tollalækkun og afnám ýmissa viðskiptahafta og samstarf iðnríkjanna í Efnahags- og framfarastofnuninni, OECD, allt þetta starf hefur án efa örvað milliríkjaviðskipti og átt sinn þátt í örum efnahagsframförum á áratugunum eftir síðari heimsstyrjöld. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er mikilvægur hluti af því alþjóðaviðskiptakerfi sem hefur reynst lýðræðisríkjunum farsælt. Þessi þróun hefur ekki síst komið smáum ríkjum eins og Íslandi til góða sem byggja velferð sína að miklu leyti á utanríkisviðskiptum. Þegar fastgengisfyrirkomulagið leið undir lok árið 1971 varð nokkur breyting á starfsemi sjóðsins þar sem hann lék ekki lengur aðalhlutverk í ríkjandi gengisfyrirkomulagi en áður hafði hann verið akkeri fyrir fastgengisstefnu sem ríkti um stærstan hluta jarðar. En svo varð önnur veigamikil breyting á verkefnum sjóðsins þegar skuldakreppa í fjölmörgum þróunarríkjum, einkum ríkjum rómönsku Ameríku og í nokkrum ríkjum Austur-Evrópu, reið yfir á árinu 1982.
    Sjóðurinn hefur gegnt lykilhlutverki í aðgerðum til þess að létta skuldabyrði þessara ríkja, finna leiðir til að örva hagvöxt og auka útflutningstekjur þeirra, þannig að þau fái staðið undir afborgunum og vöxtum af erlendum lánum. Oft og tíðum hafa frumkvæði og þátttaka sjóðsins í aðgerðum til hjálpar skuldugum þjóðum verið forsenda þess að aðrar fjölþjóðlegar fjármálastofnanir, einstök ríki og einkaaðilar væru tilbúin að leggja einnig hönd á plóg. Þannig hefur sjóðurinn verkað sem hvati til fjárhagslegrar endurskipulagningar hjá mörgum ríkjum.
    Tillagan sem hér er flutt á sér þá sögu að sjóðsráð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins samþykkti 28. júní sl. að breyta stofnskránni. Sú breyting er hin þriðja frá því að sjóðurinn var stofnaður. Þessi breyting tekur gildi þegar 3 / 5 hlutar aðildarríkjanna, sem til samans ráða 85% af heildaratkvæðamagni í sjóðnum, hafa samþykkt hana. Það er gert ráð fyrir því að það verði eigi síðar en í byrjun næsta árs.
    Breytingin á stofnskránni er birt í heild sem fskj. með frv. og ég vísa til þessa skjals um orðalag á einstökum greinum. Ég vil þó fara hér örfáum orðum um

meginefnið en það er að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, líkt og Alþjóðabankinn, getur nú gripið til þeirra ráða að svipta aðildarríki sem kann að brjóta gegn ákvæðum stofnskrárinnar réttinum til að nota fjármagn sjóðsins. Bæti aðildarríkið ekki ráð sitt er svo heimilt að vísa því alfarið úr sjóðnum. En ólíkt Alþjóðabankanum getur sjóðurinn hins vegar ekki gengið mildilegar fram, gengið skrefi skemur og eingöngu svipt aðildarríki tímabundið atkvæðisrétti án þess að vísa því úr samtökunum. Breytingin á stofnskránni, sem hér er gerð tillaga um að samþykkt verði, felur í sér heimild einmitt af þessu tagi. Meginástæða þess að talin er þörf á slíkri breytingu á stofnskránni nú er að nokkur aðildarríki hafa ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart sjóðnum og látið hjá líða að endurgreiða lán sem þau hafa fengið frá honum. Þessar vanskilaskuldir fara nú vaxandi og nokkur af þessum skuldugu aðildarríkjum hafa hafnað því að eiga skipulegt samstarf við sjóðinn til þess að finna leiðir til að þau geti staðið í skilum. Vanskilaskuldir við sjóðinn veikja að sjálfsögðu fjárhagsstöðu hans, hækka vexti af lánum til annarra aðildarríkja og gera honum yfirleitt erfiðara um vik að standa við skuldbindingar sínar gagnvart öðrum aðildarríkjum.
    Ég vil að síðustu, virðulegur forseti, geta þess að fyrir þinginu liggur annað frv. til laga um málefni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, nefnilega frv. til laga um heimild ríkisstjórnarinnar til að semja um hækkun á kvóta Íslands hjá sjóðnum. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh- og viðskn.