Kvóti Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum
Miðvikudaginn 21. nóvember 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um heimild til hækkunar á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Frv. er á þskj. 122 og það kemur frá hv. Ed. Í frv. er óskað eftir heimild til að hækka kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum úr 59,6 millj. sérstakra dráttarréttinda, SDR, sem er að jafnvirði 4.688 millj. kr. þegar miðað er við gengið í byrjun október sl., í 85,3 millj. SDR, sem er að jafnvirði 6.709 millj. miðað við sama gengi. Þá er Seðlabankanum falið að leggja fram það fé sem nauðsynlegt kann að vera til þess að framkvæma þessa hækkun.
    Starfsfé Alþjóðagjaldeyrissjóðsins byggist fyrst og fremst á framlögum, kvótum aðildarríkja hans sem eru ákveðnir með hliðsjón af þjóðartekjum viðkomandi ríkis, umfangi utanríkisviðskipta þess og örfáum þáttum öðrum sem varða greiðsluviðskipti þess. Heildarkvótar sjóðsins hafa verið auknir átta sinnum frá því að sjóðurinn var stofnaður með almennri kvótahækkun eða úr innan við 10 milljörðum SDR á fyrstu starfsárunum í núverandi umfang sem svarar 90,1 milljarði SDR. Með þeirri kvótahækkun sem nú hefur verið ákveðin og leitað er staðfestingar á, níundu kvótahækkuninni, er ætlunin að auka kvótana í heild í 135,2 milljarða SDR. Þessi hækkun miðast við aukna efnahagsstarfsemi og umsvif í alþjóðaviðskiptum í heiminum frá því áttunda almenna kvótahækkunin var ákveðin árið 1983 og fjárhagsstöðu sjóðsins, áætlanir um starfsemi hans og nauðsyn þess að auka ráðstöfunarfé hans á komandi árum.
    Þessi hækkun á ráðstöfunarfé Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kemur nú á afar heppilegum tíma, ef samþykkt verður, því ljóst er að olíuverðshækkun í kjölfar Persaflóabardagans og deilna sem af honum hafa hlotist kemur harkalega niður á olíuinnflutningsríkjunum, einkum hinum fátækustu ríkjum í Afríku og ríkjum Austur-Evrópu, og auka þörf þessara ríkja fyrir lán og fyrirgreiðslu hjá sjóðnum til þess að mæta greiðsluerfiðleikum í utanríkisviðskiptum sínum.
    Þá er þess að geta að atkvæðavægi aðildarríkjanna í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fer fyrst og fremst eftir framlögum þeirra eða kvóta. Þar hafa Bandaríkin stærstan hlut, 20,08% af heild, þar á eftir koma Bretar með 6,94%, Vestur-Þjóðverjar, nú Þjóðverjar, 6,06%, Frakkland 5,02%, Japan 4,73% og svo Saudi-Arabar með 3,59%. Eftir níundu kvótahækkunina og sérstakt samkomulag sem gert var í tengslum við hana um breytingu á atkvæðavægi fimm stærstu ríkjanna mun hlutur Bandaríkjanna af heildinni lækka lítillega eða verða 19,6%, Japan verður með 6,1%, Vestur-Þýskaland með 6,1%, Bretar með 5,5%, sömuleiðis Frakkar, og Saudi-Arabar með 3,8%. Öll þessi ríki hafa nú hvert sinn fulltrúa af samtals 22 í stjórn sjóðsins. Norðurlöndin ráða nú saman yfir 3,48% af heildarkvóta í sjóðnum. Sá hlutur verður 3,5% eftir níundu kvótahækkunina. Hlutur Íslands sérstaklega er 0,07%, verður lítillega lægri, 0,06% eftir níundu kvótahækkunina. Norðurlöndin hafa sameiginlega einn fulltrúa í stjórn sjóðsins, skiptast á um að skipa hann.

    Eins og ég nefndi áðan mun kvóti Íslands hækka úr 59,6 millj. SDR í 83,5 millj., sem er að jafnvirði 6.709 millj. kr. miðað við gengið í októberbyrjun, ef þetta frv. verður að lögum.
    Skv. 23. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, er bankinn fyrir ríkisins hönd fjárhagslegur aðili að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og mun hann því leggja fram það fé sem þarf vegna þátttöku Íslands í þessari kvótahækun. Í samræmi við ákvæði í stofnskrá sjóðsins er fjórðungur hækkunarinnar greiddur í sérstökum dráttarréttindum, eða sem svarar rúmlega 500 millj. kr., en 3 / 4 hlutar í íslenskum krónum. Í rauninni verður ekki um neinar eiginlegar peningagreiðslur að ræða frá Íslandi, því sá hluti kvótahækkunarinnar sem greiddur er í SDR er tekinn af gjaldeyrisforða Seðlabankans og fluttur til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þar sem greiðslan myndar sérstaka gjaldeyrisinnstæðu hjá sjóðnum og telst áfram hluti af gjaldeyrisforða Íslands. Er því í rauninni einungis um að ræða breytingu á samsetningu gjaldeyrisforðans. 3 / 4 hlutar kvótahækkunarinnar, eða tæplega 1.500 millj. kr., verða ekki af hendi reiddar í reiðufé, heldur eignast Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn innstæðu sem nemur þessari fjárhæð í Seðlabankanum.
    Ávinningur Íslands af því að taka þátt í þessari almennu kvótahækkun er einkum þrenns konar:
    Í fyrsta lagi geta aðildarríki átt kost á aðgangi að fjármagni sjóðsins, tekið hagstæð lán hjá honum úr ýmsum lánaflokkum til þess að bregðast við greiðsluvandræðum, og miðast þá lánsfjárhæðirnar, eða rétturinn til aðgangs að lánsfénu, við tiltekið margfeldi eða hlutfall af kvóta hvers ríkis, sem er reyndar breytilegt frá einum lánaflokki til annars.
    Ísland hefur nokkrum sinnum tekið slík lán hjá sjóðnum. Í fyrsta sinn árið 1960 í tengslum við efnahagsaðgerðir sem þá var gripið til. Næst var svo tekið lán hjá sjóðnum þegar síldin hvarf skyndilega af miðunum 1967 -- 1968 og svo loks þegar olíuverðshækkanir dundu yfir á áttunda áratugnum og allra síðast þegar loðnubrestur varð árið 1982. Öll þessi lán hafa verið að fullu endurgreidd og er Ísland skuldlaust við sjóðinn. Þá er þess líka að geta að með því að taka þátt í þessari kvótaaukningu heldur Ísland hlut sínum í atkvæðavægi í sjóðnum og sæti sínu, í þátttöku með Norðurlandaþjóðum, í stjórn hans. Loks er líka ástæða til að geta þess að með því að taka þátt í þessari kvótaaukningu eru Íslendingar að leggja sinn skerf til þess að greiða fyrir lausn á vandræðum skuldugustu ríkjanna, ekki síst nú þegar olíuverðshækkun hefur enn dunið yfir.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frv. og legg til að því verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.