Umboðsmaður barna
Miðvikudaginn 21. nóvember 1990


     Árni Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er ekki ofsögum sagt af því að málefni barna koma mjög sjaldan til umræðu á hinu háa Alþingi og það er fátt um þingmenn í sölum þingsins þegar að því kemur. Ég minnist þess þegar ég árið 1978 flutti till. til þál. um málefni barna, að þá var líkt farið og nú. Þá voru fáir þingmenn í þingsal og það voru ekki margir sem tóku til máls. Sú þáltill. náði þó til miklu fleiri atriða en umboðsmanns barna. Hún var upptalning á einum 14 eða 15 atriðum um málefni sem gætu horft til betri vegar fyrir börn í þessu landi.
    Ég minnist þess að í þessari tillögu var gert ráð fyrir að ríkisstjórnin beitti sér fyrir banni á innflutningi leikfanga sem minntu á vopn og stríðstól. Þetta þótti sumum þingmönnum ákaflega fyndið. Í tillögunni var líka ráð fyrir því gert að ríkisstjórnin beindi kröftum sínum að því að lækka eða fella niður aðflutningsgjöld af barnamat og ýmsu því sem þarf til þegar umönnun ungbarna er annars vegar.
    Kannski segir þetta áhugaleysi okkur nokkra sögu um það gildismat sem ríkir í íslensku þjóðfélagi, gildismat sem hefur verið að taka þvílíkum breytingum á síðustu árum á umbrotatímum sem þessi þjóð hefur lifað að með ólíkindum er. Þetta gildismat hefur breyst í þá veru að við höfum litið á lífsgæðastuðulinn sem hið endanlega markmið í allri okkar tilveru. Hið dæmafáa strit og þrældómur sem fólk í nútímasamfélagi hefur orðið að leggja á sig til að halda uppi þessum lífsgæðastuðli hefur komið niður á börnunum. Það hefur í raun dæmt fjöldamörg börn til útlegðar frá heimilum sínum. Þessi hópur á sér ekki marga málsvara. Þessi hópur kýs sér ekki fulltrúa á þing. Þessi hópur fær að vera nokkuð í friði í þjóðfélaginu. Við höfum hins vegar á stundum, til þess að friða samvisku okkar, horft til þess sem ég stundum kalla stofnanapólitík og við viljum láta leysa þau vandamál sem við höfum skapað með þessari óstjórnlegu hagvaxtarkröfu sem í raun er að keyra hér allt í strand með tilliti til fjölskyldu, fjölskyldulífs og allra mannlegra samskipta. Stórfjölskyldan er horfin, stofnanir hafa tekið við ungum og öldnum og þeim sem ekki geta staðið í hinu daglega striti.
    Við verðum að spyrja okkur: Er þetta rétt stefna? Þessi spurning vaknar í mínum huga iðulega þegar verið er að fjalla um vandamál barna og unglinga í þessu þjóðfélagi. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort við erum í raun ekki að stika stórhættulega braut, ekki bara vegna barnanna okkar heldur umhverfis okkar alls og þeirrar kröfu að auka látlaust hagvöxtinn á kostnað náttúrunnar sem við erum farnir að blóðmjólka og á kostnað alls þess sem í raun skiptir máli og viðheldur lífi.
    Ég vildi varpa þessu fram því að eitthvað í þessum dúr talaði ég árið 1979 þegar ég flutti þáltill. um umbætur í málefnum barna. Hún var ekki mikið rædd og hún varð ekki afgreidd frá hinu háa Alþingi af því, að ég hygg, að það var allt of lítill áhugi fyrir málefnum barna þá og ég spyr sjálfan mig: Hefur áhuginn aukist og hefur hann aukist svo að þetta frv., sem ég tel spor í rétta átt, nái fram að ganga?