Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Um leið og ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir það að vekja athygli á þessu máli hér í fyrirspurnatíma vil ég leyfa mér að þakka fyrir þær umræður sem fram hafa farið hér á hinu virðulega Alþingi um málefni barna að undanförnu, bæði varðandi barnaumboðsmann og fleiri þætti sem lúta að kjörum barna. Það er mikilvægt að Alþingi ræði þessi mál og enn þá mikilvægara væri nú ef menn kæmust síðan að niðurstöðu og tækju ákvarðanir sem gætu haft veruleg áhrif á kjör barna. Til þess gefst enn frekara tækifæri núna næstu daga í hv. Nd. þegar frv. til grunnskólalaga kemur til umræðu.
    Varðandi það mál sem hér er spurt um er fyrirspurnin tvíþætt:
 ,,1. Hvaða ráðstafanir hafa yfirvöld menntamála gert til að aðstoða þá nemendur á skólaskyldualdri sem flosnað hafa upp úr skólakerfinu?
    2. Eru uppi áætlanir um frekari ráðstafanir? Ef svo er, þá hverjar?``
    Það er auðvitað ljóst að margvíslegar ráðstafanir hafa verið gerðar fyrir þá nemendur sem flosna upp úr skólakerfinu. Það á við um þá starfsemi sem þegar er rekin á vegum Unglingaheimilis ríkisins af ýmsu tagi þar sem er meðferðarheimili, skóli og fleiri þættir sem eru á vegum Unglingaheimilisins.
    Í öðru lagi er það ljóst að ráðgjafar - og sálfræðiþjónusta grunnskólans á að sinna þessum verkefnum. Fræðsluskrifstofurnar eiga að sinna þessum verkefnum. Skólastjórum er skylt að hafa eftirlit með því að þau börn sem skólana eiga að sækja skili sér þangað. Ef þau gera það ekki, þá leiti skólastjórarnir upplýsinga um af hverju það stafar.
    Fyrir utan þessar ráðstafanir sem gerðar hafa verið eru ýmsar fleiri á döfinni og hafa verið á döfinni um langt skeið. Það sem ég ætla að nefna í þessum stutta fyrirspurnatíma, virðulegi forseti, er eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi liggur það fyrir að hér á landi eru mörg börn, sennilega a.m.k. tíu talsins að jafnaði, sem eru vegalaus, börn sem enginn getur haft eða enginn vill hafa. Það hefur verið fjallað um það á vettvangi ríkisstjórnarinnar núna um nokkurt skeið að komið verði upp sérstöku heimili fyrir vegalaus börn. Kostnaður við stofnun þess yrði 20 -- 30 millj. kr. og áætlaður rekstrarkostnaður um 15 millj. kr. samkvæmt þeim áætlunum sem unnar hafa verið á vegum menntmrn., félmrn. og fleiri aðila. Þetta mál er, eins og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga er háttað núna, í raun og veru sveitarfélagamál og hefur þess vegna átt að vera og verið á forsjá félmrh. en málið hefur verið unnið að talsvert miklu leyti í menntmrn.
    Í öðru lagi höfum við tekið sérstaklega á vanda þeirra barna sem hér um ræðir á þéttbýlissvæðinu og myndað framkvæmdahóp um málefni barna og unglinga. Fulltrúar í þeim hópi koma frá dómsmrn., félmrn., heilbrrn., menntmrn., félagsmálayfirvöldum og æskulýðsyfirvöldum sveitarfélaga. Markmið þessa hóps er að hafa yfirsýn yfir ástandið í málaflokknum, safna upplýsingum, miðla þeim og styðja rannsóknaverkefni, að stuðla að samræmdri stefnumörkun í málefnum barna og unglinga, benda á og vinna að mótun nýrra úrræða og fylgjast með þróun þessara mála í grannlöndum okkar. Ástæða þess að hópurinn hefur orðið til er auðvitað sú að vandamál barna spyrja ekki um ráðuneyti, þau hólfast ekki niður eftir stjórnkerfi. Þau eru víðar. Þau ganga þvert á ráðuneyti. Þess vegna töldum við í menntmrn. mikilvægt að svona hópur yrði til. Hann er farinn af stað og ég tel mikilvægt að hann starfi áfram með þeim hætti sem ákveðinn hefur verið.
    Í þriðja lagi hef ég núna nýlega --- og reyndar hefur það gerst oftar en einu sinni í minni tíð í menntmrn. að ég hef sagt við fræðslustjórana: Þið eigið að fylgjast með þessu. Þið eigið að hafa samband við skólana og skólastjórana og skólastjórarnir eiga að passa upp á þessa hluti. Ég tel að það hafi ekki verið nægilega vel gert. Þess vegna höfum við ákveðið fyrir nokkru að reynt verði að koma upp skilvirkara skráningarkerfi þeirra sem eru í skóla, þeirra sem fara úr skóla á hverjum stað og síðan verði í raun leitað skýringa á því af hverju þetta og þetta barnið skilar sér ekki inn í grunnskólann. Það er auðvitað hneyksli, að ekki sé fastar að orði kveðið, að það skuli geta gerst í þessu litla þjóðfélagi, tiltölulega opna og lýðræðislega þjóðfélagi, að fólk týnist. Það er fyrir neðan allar hellur að það skuli gerast í landi sem státar af tiltölulega góðu velferðarkerfi, og hefur í raun og veru að mörgu leyti gott velferðarkerfi og gott menntakerfi, að í þessu landi skuli það vera þannig að börn týnist út úr skóla þar sem þau eiga að vera samkvæmt lögum. Þess vegna tel ég að það sé mjög mikilvægt að þessu skilvirkara skráningarkerfi verði komið upp.
    Loks er svo að nefna nýju lögin um framhaldsskóla sem auðvelda að halda utan um þessi mál. Veruleg breyting er fyrirhuguð á innra starfi framhaldsskólans frá því sem verið hefur. Loks er svo auðvitað grunnskólinn og skólastefna til nokkurra ára sem við munum ræða hér eftir nokkra daga.
    Eins og hv. fyrirspyrjandi gat um eru þær tölur sem fram hafa komið í þessum efnum ekki mjög nákvæmar. Í raun og veru er það þannig að um er að ræða mismun á tveimur stórum tölum, annars vegar fjölda í árgangi samkvæmt þjóðskrá og hins vegar fjölda þeirra sem skráðir eru í lokaárgangi hvers grunnskóla. Hér er um að ræða mjög óskilgreindar tölur sem þarna ber á milli. Þeir sem þarna er um að ræða eru nemendur hæfingar - og þjálfunarskóla sem eru ekki skráðir í nemendaskrá eins og hún hefur verið. Þarna er um að ræða þó nokkra nemendur sem af einhverjum ástæðum hefur seinkað um bekk. Þarna er um að ræða nemendur sem hafa flutt úr landi. Þarna er um að ræða nemendur sem hafa fengið frest til að ljúka skólaskyldu, skv. 8. gr. grunnskólalaga og þarna er um að ræða margs konar mistök í skráningu og vinnslu gagna. Engu að síður er það ljóst að þarna er um að ræða nokkra einstaklinga. Það er ekki ljóst hversu margir fá ekki þá þjónustu sem þeir eiga að fá samkvæmt lögum, eiga rétt á og sem skólum og líka

foreldrum og aðstandendum er í raun og veru skylt að tryggja þessu fólki.
    Ég vænti þess, virðulegi forseti, að ég hafi svarað þessari fsp. hv. þm. Guðrúnar Halldórsdóttur.