Fyrirspyrjandi (Guðrún J. Halldórsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. greinargóð svör hans. Það er augljóst að hann skilur vel vanda þessara ungmenna og ég átti nú raunar von á því. Þó það væru ekki nema tíu vegalaus börn á skólaskyldualdri, en ég hef grun um að þau séu kannski fleiri, er það hræðilegt í þessu litla landi okkar.
    Ég fagna því að sá framkvæmdahópur sem hann nefndi er kominn á laggirnar. Það er stutt síðan ég lagði fram þáltill. ásamt nokkuð mörgum öðrum hv. þm., þingmönnum úr öllum flokkum raunar, um álíka hóp, en hugmyndin er sem sagt sú sama og hans. Ég vissi ekki að hann væri með þetta í undirbúningi þegar við lögðum þáltill. fram. En ég geri ráð fyrir að það sé mjög líkt sem þessi framkvæmdahópur hefur á sinni könnu og það sem við höfðum hugsað okkur að sá samstarfshópur sem við vorum að stinga upp á hefði að hluta til.
    Það er mjög gott að koma upp skilvirkara skráningarkerfi og er í rauninni nauðsynlegt. En ég veit að það er ekki nóg að hafa gott skráningarkerfi. Það sem skiptir öllu máli er að hafa góð viðbrögð við því sem skráningarkerfið sýnir okkur.
    Framhaldsskóli fyrir alla er kjörorð sem við heyrum núna oft. Það er líka markmið sem bæði ég og sjálfsagt allir hér inni vilja stefna að. Við í menntamálanefndum þingsins heyrðum frá því sagt í Menntaskólanum við Sund í gær að inn í þann skóla kæmu 300 nemendur ár hvert og 100 þeirra hefðu ekki erindi sem erfiði, þeir hyrfu frá skólanum strax á fyrsta ári. Síðan hyrfu nú ekki margir á næstu árum þar á eftir. En það að einn þriðji hluti nemenda komi inn í menntaskóla án þess að eiga þangað erindi segir okkur að ráðgjöf og leiðbeining á grunnskólastigi er ekki eins og vera skyldi. Því þarf að efla þá ráðgjöf þannig að nemendur gangi ekki út úr skólakerfinu á fyrsta ári eftir grunnskóla með brotið sverð og rofinn skjöld, eins og hann sagði, sá ágæti kennari sem sagði okkur frá þessu inni í Menntaskólanum við Sund. Það þarf augljóslega líka að auka leiðbeiningar og leiðsögn inni í grunnskólakerfinu til mikilla muna.
    Það er augljóst að ábyrgð menntmrh. og skólafólks er stór. Þessir aðilar verða að leggja sig alla fram í átökunum um sálarheill og fararheill ungmenna í lífinu. En þess ber líka að minnast rækilega, eins og raunar hæstv. menntmrh. benti á, að samfélagið í heild ber stóra ábyrgð á því hvernig komið er, brotin heimili, óhóflega langur vinnudagur foreldra og ungmennanna sem í skólunum eru. Áhyggjur og öryggisleysi ungra sem eldri eiga stóran hlut að þessu. Því þarf ekki bara nýja skólastefnu, sem er allra góðra gjalda verð, heldur nýja þjóðfélagslega stefnu sem setur hin mikilvægu, mannlegu gildi í öndvegi.