Fræðsla um réttindi og skyldur á vinnumarkaði
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Sú fyrirspurn sem hér er lögð fram er í þremur þáttum.
    ,,1. Er fyrirhugað að taka upp fræðslu um réttindi og skyldur á vinnumarkaði í efsta bekk grunnskóla og framhaldsskólum?``
    Svarið er já. Það er ætlunin að gera það og það hefur reyndar verið í undirbúningi lengi því að það er um það bil eitt og hálft ár síðan ég skipaði nefnd sem á að móta stefnu í námsráðgjöf og starfsfræðslu. Nefndin er að vinna að skýrslu með stefnumörkun í þessum málum og sú skýrsla verður tilbúin í vor. Auk þess höfum við bætt inn á grunnskólann og framhaldsskólann dálitlum upphæðum til þess að efla námsráðgjöf og starfsfræðslu sem er að nokkru leyti kannski líka svar við þeim ábendingum sem fram komu hér undir síðasta dagskrárlið hjá hv. 18. þm. Reykv.
    Í öðru lagi er spurt: ,,Hefur nefnd sú, er mótar stefnu í námsráðgjöf og starfsfræðslu á vegum menntmrn., komið með tillögur um slíka fræðslu, sbr. rökstuðning í nál. á þskj. 1160 á síðasta þingi er þáltill. um réttindi og skyldur á vinnumarkaði var vísað til ríkisstjórnarinnar?`` Eins og ég sagði áðan þá hefur þessi nefnd verið að störfum og hún mun skila áliti. Auk þess höfum við þegar aukið við verulega námsráðgjöf og starfsfræðslu í öllum framhaldsskólum með því að tvöfalda kvótann til námsráðgjafar í framhaldsskólunum. Það gerðum við frá og með haustinu 1989. Í haust er um það að ræða að í fjárlagafrv. fyrir árið 1991 er gert ráð fyrir námsráðgjöf í grunnskólum sem ekki hefur áður verið og tilgangurinn er auðvitað sá að opna, í tengslum við grunnskólana, aukinn skilning á tengslum þeirra við atvinnulífið í landinu.
    Í þriðja lagi er spurt: ,,Er fyrirhugað að leita samstarfs við Félagsmálaskóla alþýðu og MFA um fræðslu í skólum um réttindi og skyldur á vinnumarkaði?`` Því er til að svara að það er raunar þegar hafið samstarf við MFA um þessi mál í starfskynningarnámskeiðum sem tveir kennarar í Æfingadeild Kennaraháskóla Íslands, Hannes Sveinbjörnsson og Páll Ólafsson, hafa staðið fyrir. Þessi námskeið eru kostuð af menntmrn. og nokkrum fyrirtækjum og stofnunum. Þar hefur MFA m.a. staðið fyrir námskeiði um réttindi og skyldur launamanna, unnið námsefni í samvinnu við stjórnendur og séð um kennslu þess fyrir bekki í síðasta árgangi grunnskóla. Það námsefni mun geta nýst sem stofn í námsefni fyrir skólana almennt.
     Loks er þess að geta að ég hef beitt mér fyrir sérstökum fundum með sjútvrn. um sjávarútvegsfræðslu, bæði í grunnskóla og framhaldsskóla og skólastigunum yfirleitt. Það má því segja að þau mál, sem hér er spurt um, eru öll á nokkurri hreyfingu. Spurningin er hins vegar auðvitað fyrst og fremst um það hversu miklir fjármunir eru til á hverjum tíma til þess að vinna þessi verkefni, en þar held ég að hafi verið aukið talsvert við frá því sem áður var.
    Að lokum vil ég segja það, virðulegi forseti, að eitt af brýnustu verkefnum menntamálayfirvalda í landinu

er að efla og auka skilning milli atvinnulífs og skóla. Ég hef orðið var við það, bæði af hálfu atvinnurekenda og verkalýðssamtaka, að á því er skilningur af þeirra hálfu líka og vaxandi í seinni tíð. Ég tel að það sé nauðsynlegt að treysta þann skilning enn frekar til þess að rjúfa einangrun skólanna frá atvinnulífinu eða atvinnulífsins frá skólunum, hvernig sem menn vilja orða það. Þess vegna hef ég sett fram hugmynd um það við aðila vinnumarkaðarins og sérstaklega fulltrúa Alþýðusambands Íslands að það verði til fastanefnd menntmrn. og aðila vinnumarkaðarins til þess að fara yfir þau mál sem upp kunna að koma á hverjum tíma í samskiptum því að það getur oft orðið til misskilningur og vandamál, auk þess sem svona fastanefnd gæti orðið farvegur fyrir nýjungar og nýjar áherslur í skólum og atvinnulífi, báðum aðilum til góða.