Búminjasafn á Hvanneyri
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson) :
    Hæstv. forseti. Á 111. löggjafarþinginu lögðum við þrír þm. Vesturl. fram þáltill. um að stofnsetja búminjasafn á Hvanneyri. Þingmennirnir sem fluttu málið með mér voru þau Skúli Alexandersson og Danfríður Skarphéðinsdóttir. Hugmyndin að baki þeirri tillögu var að í tilefni af 100 ára afmæli Bændaskólans á Hvanneyri, sem var 1989, yrði gefið loforð um að setja upp búminjasafn á Hvanneyri.
    Það var klofningur í þingmannahópi Vesturlands um þetta. Tveir af þingmönnum kjördæmisins gátu ekki sætt sig við þessa aðferð og lögðu fram frv. um sama mál og má segja að með þeirri framlagningu hafi þeir eyðilagt málið fyrir þessum þrem þingmönnum sem lögðu fram þáltill.
    Um það stendur reyndar enn þá deila hvort til þess þurfi að koma að setja sérstaka löggjöf um slíkt safn. Við höfum talið að það þyrfti ekki og þetta félli undir þjóðminjalögin nýju. Reyndar kom það fram í máli hv. 1. þm. Vesturl. um daginn að með því að þessari þáltill., sem við fluttum hér fyrir tveim árum, var vísað til ríkisstjórnarinnar væri þar með verið að svæfa málið. Það var hans skilningur á því hvað yrði um mál sem væri vísað til ríkisstjórnarinnar. Það kemur væntanlega í ljós hér í svari hæstv. ráðherra á eftir.
    Fyrirspurnin er svohljóðandi: ,,Hvað líður athugun stjórnvalda og þjóðminjaráðs skv. samþykkt Alþingis frá 5. maí 1989 á stofnun búminjasafns á Hvanneyri?``