Búminjasafn á Hvanneyri
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör hans sem voru sjálfsagt eins greinargóð og þau geta verið í þessari stöðu eins og málin eru í dag. Ég tel að ég hafi fengið það upplýst, sem var kannski meginpunkturinn í þessari fyrirspurn, að fá það fram hvort til þyrfti að koma löggjöf eða ekki. Það kemur fram í máli ráðherra að það þarf ekki. Þess vegna tel ég alveg einsýnt, sérstaklega þegar þessi mál og þetta búminjasafn er nú ekki á leiðinni upp eftir svari ráðherra að dæma, að nú geti þingmenn í friði sameinast um þáltill. um stofnun búminjasafns á Hvanneyri og því ber að fagna sérstaklega.
    Ég ætla hins vegar ekki að fara að ræða þjóðminjalögin eða framkvæmd þeirra sérstaklega við ráðherrann og heldur ekki það sem allir gerðu sér grein fyrir, að hlutirnir kosta peninga. Hjá því verður ekki komist. En hér er náttúrlega um slíkt stórmál að ræða í raun og veru, þ.e. verndun búminja og sögu byggðarinnar í landinu, að menn ættu nú ekki að horfa of mikið í þá aura miðað við þær upphæðir sem sóað er í alls konar vitleysu og óhóf í þjóðfélaginu í dag.