Fyrirspyrjandi (Jóhann Einvarðsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir greinargóð svör við fsp. minni. Ég ítreka að ég tel að að ýmsu leyti hafi verið staðið vel að þessu hjá sveitarfélögunum átta að reyna að ná samstöðu og reyna að koma sorpeyðingarmálum í betra horf en þau hafa verið á þessu svæði sem víðar á landinu í langan tíma. En ég legg áherslu á að það er út af fyrir sig óheppilegt að framkvæmdir skuli vera vel á veg komnar áður en starfsleyfið er gefið út. Ef ég skildi ráðherrann rétt þá verður starfsleyfið ekki gefið út fyrr en í byrjun næsta árs og þá verður búið að framkvæma stóran hluta af því verki sem þarna stendur til að framkvæma.
    Í öðru lagi tek ég undir með hv. 10. þm. Reykn. að það er náttúrlega nauðsynlegt að gæta grenndarsjónarmiða í þessu og að bæjarstjórn Mosfellsbæjar fái öll gögn um þetta mál, t.d. um þá rannsókn sem núna fer fram á vegum umhvrh. og fái að tjá sig um niðurstöður hennar áður en endanlegt starfsleyfi verði gefið út. Það tel ég brýnt að gera á þessu stigi þó ég að öðru leyti taki undir og fallist á rök starfshópsins sem ráðherrann minntist á í staðarvalinu. En áður en framkvæmdir hefjast þarf starfsleyfið að sjálfsögðu að liggja fyrir og það er náttúrlega útilokað, alveg gjörsamlega útilokað af ástæðum sem eru vegna lagabreytinga, að þetta heyri undir tvo ráðherra. En það breytist um næstu áramót. Það verður þá að óska eftir því að hæstv. umhvrh. hafi náið samráð við félmrh. áður en gengið verður endanlega frá þessu starfsleyfi.