Neyðaráætlun vegna olíuleka
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. umhvrh. um viðbrögð við olíuleka á sjó og landi. Tilefni þessarar fsp. ætti að vera öllum ljóst. Mikill olíuleki var við Laugarnes í september í haust.
Eftirlit virðist allsendis ófullnægjandi. Jafnvel nýjar olíuleiðslur, aðeins tveggja ára gamlar, virðast geta farið að leka án þess að nokkur hafi andvara á sér og viðbrögð eru að því er virðist ekki markviss, ekki samkvæmt fyrirframgerðri áætlun. Ég vil leyfa mér að vitna til orða Eyjólfs Magnússonar, fulltrúa í mengunardeild Siglingamálastofnunar, í Þjóðviljanum 28. sept. sl., en þar segir hann orðrétt ,,að mikið vanti upp á að á Íslandi sé búnaður til þess að bregðast við olíuslysum af stærri gerðinni``: ,,Til þess vantar fjárveitingar fyrir tækjakaupum upp á tugi ef ekki hundruð milljóna króna. Fyrir því hefur ekki verið vilji hingað til, enda þótt líta megi á nauðsyn þessa búnaðar svipuðum augum og nauðsyn þess að hafa slökkvilið ávallt í viðbragðsstöðu. Fáar þjóðir eru eins viðkvæmar og Íslendingar fyrir mengunarslysum á hafinu.`` Enn fremur er í sama blaði haft eftir Hannesi Valdimarssyni, hafnarmálastjóra í Reykjavík: ,,Verði alvarlegt slys við strendur landsins er engin von til þess að yfirvöld geti brugðist rétt við, hvorki til þess að hindra útbreiðslu olíunnar né til þess að ná henni upp. Einhver tími mun ávallt líða þar til aðstoð berst frá öðrum löndum, en fyrstu viðbrögðin eru mikilvægust og þau eru á ábyrgð Íslendinga sjálfra.``
    Afleiðingar alvarlegrar olíumengunar á sjó eða landi eru öllum ljósar. Það kom fram í umræðunni nú í haust að þegar alvarlegri slys en þessi hafa orðið hafa tugþúsundir fugla orðið fórnarlömb þeirra. Er þar skemmst að minnast þess að mikill fugladauði varð er breskur togari strandaði við Mánáreyjar árið 1968. Þá sem nú höfðu yfirvöld ekki til neinnar áætlunar að grípa.
    Fugladauði er alvarlegur í sjálfu sér. Auk þess er þarna er um að ræða rof í lífkeðju og mikla ábyrgð gagnvart lífi fugla og ímynd landsins. Og ég vil bara minna á það að við eigum ekki síður alvarleg tilvik í sambandi við olíumengun á landi og vísa þá til nýjustu dæmanna um olíuleka við Gunnólfsvíkurfjall, Bolafjall og hve mikil hætta er á mengun í sambandi við vatnsból Suðurnesja.