Greiðsla sérfræðiþjónustu fyrir fatlað fólk
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Hv. 7. þm. Norðurl. e. hefur beint til mín fsp. á þskj. 155 sem hv. þm. hefur nú gert grein fyrir. Fsp. er í tveimur liðum og er fyrri liðurinn svohljóðandi: ,,Hver er ástæða þess að fötluðu fólki innan 16 ára aldurs er gert að greiða hærri fjárhæð fyrir viðtal við sérfræðing heldur en fatlað fólk 16 ára og eldra?``
    Samkvæmt reglugerð nr. 62/1990, sbr. breytingu nr. 187/1990, um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í læknishjálp o.fl., samkvæmt ákvæðum almannatryggingalaga, skulu sjúkratryggðir, aðrir en elli- og örorkulífeyrisþegar, greiða fullt gjald fyrir sérfræðiþjónustu. Þetta gjald er nú 900 kr. eins og hv. þm. greindi frá. Reglugerðin undanskilur hins vegar, eins og fram kom, ellilífeyrisþega, þ.e. þá sem eru 67 ára eða eldri, og örorkulífeyrisþega, þ.e. þá sem eru á aldrinum 16 -- 67 ára og metnir hafa verið til 75% örorku eða meira, og skulu þeir greiða lægra gjald, 300 kr. Sömuleiðis skulu þessir aðilar aldrei greiða meira en 3.000 kr. samtals á hverju almanaksári vegna heimsókna til sérfræðinga, rannsókna og röntgengreininga. Það er sem sagt sett þak á greiðslu þessara einstaklinga.
    Með reglugerð nr. 187/1990 var sett þak á þann kostnað sem sjúkratryggðir, aðrir en elli- og örorkulífeyrisþegarnir, skulu á ári hverju greiða vegna sérfræðilæknishjálpar, rannsókna og röntgengreininga. Samkvæmt reglugerðinni skal kostnaður vegna þessa aldrei verða meiri en 12.000 kr. á ári. Það er sem sagt mismunurinn á þaki þeirra sem greiða lægra gjaldið, 300 kr. Þeir greiða mest 3.000 kr. innan almanaksársins og þeir sem greiða 900 kr., fullt gjald, greiða þó aldrei meira en 12.000 kr. Þar er einnig hámarksupphæð. Einstaklinga undir 16 ára aldri er ekki unnt að meta til fullrar örorku en heimilt er að greiða örorkustyrk vegna bæklunar eða vanþroska barns innan 16 ára aldurs og er það skýringin á því að þessir einstaklingar, 16 ára og yngri, greiða hærra gjaldið en ekki hið lægra, af því að þeir hafa ekki verið metnir 75% öryrkjar. Einstaklinga yfir 16 ára aldri er hins vegar unnt að meta til örorku og er þar að finna skýringuna.
    Fatlaður einstaklingur, eldri en 16 ára, sem borgar lægra gjald hefur verið metinn 75% öryrki en sá sem yngri er en 16 ára fær aðeins örorkustyrkinn.
    Auðvitað má spyrja hvort hér sé ekki misrétti eða ósamræmi á ferðinni, en þegar þessi reglugerð var samin var talið að þeir sem eru orðnir 16 ára og bera þá
meiri ábyrgð en hinir yngri þeir ættu að njóta þessa lægra gjalds en börnin eru væntanlega á framfæri foreldra eða aðstandenda sem vonandi eru fullfrískir og fullfærir um að taka þátt í þessum kostnaði en þó með þessu þaki sem ég hef nú greint frá.
    Seinni liður fyrirspurnarinnar var: ,,Hver er ástæða þess að sjúkraþjálfun fatlaðra barna er ekki metin sem sérfræðiþjónusta?``

    Hér mun vera átt við það af hverju sjúkraþjálfun fatlaðra barna sé ekki metin sem sérfræðiþjónusta vegna reglna um endurgreiðslu ferðakostnaðar.
    Í 1. gr. reglna um ferðakostnað sjúklinga innan lands, reglugerð nr. 70/1982, segir að taka skuli þátt í ferðakostnaði þurfi sjúklingur ítrekað að takast ferð á hendur til þess að njóta óhjákvæmilegrar sérfræðilegrar meðferðar eða eftirlits hjá lækni eða í sjúkrahúsi.
    Í 2. gr. reglnanna eru talin upp nokkur dæmi um meðferð og eftirlit sem endurgreiðslan nái til. Það kemur skýrt fram í 2. gr. að upptalningin sem þar er er ekki tæmandi því heimilað er að endurgreiða vegna annarra sambærilegra tilfella.
    Ráðuneytið lítur svo á að sjúkraþjálfun falli undir orðalag reglnanna um ,,óhjákvæmilega sérfræðilega meðferð`` sem greint er frá eftir upptalningu í þessari tilvitnuðu grein og sé sambærileg við þau dæmi sem þar eru talin upp. Ráðuneytið telur því að ferðakostnað vegna óhjákvæmilegrar sjúkraþjálfunar beri að greiða eftir reglum um ferðakostnað sjúklinga innan lands.
    Nú eru til umfjöllunar í ráðuneytinu nýjar tillögur tryggingaráðs um greiðslu ferðakostnaðar sjúklinga innan lands. Er þess að vænta að þessar nýju og skýrari reglur liggi fyrir eigi síðar en í byrjun næsta árs. Ég mun einnig gera tryggingaráði grein fyrir afstöðu ráðuneytisins varðandi hina gildandi reglugerð en vonandi lítur ný reglugerð, og þá nýjar reglur, um meðferð þessa ferðakostnaðar ljós hið fyrsta.