Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um fíkniefni og skynvilluefni sem haldin var í Vínarborg 25. nóv. 1988 var gerður samningur milli aðildarríkjanna um aðgerðir gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni. Má segja að þarna hafi fulltrúar þjóða heims saman leitað leiða til að afstýra því að fíkniefni komist á markað, afstýra því að vágesturinn komist á götuna. Tilgangur samningsins er að stuðla að samvinnu aðilanna svo þeir fái beitt sér með áhrifaríkari hætti að hinum ýmsu þáttum er varða ólöglega verslun með þessi efni. Framkvæmd skuldbindinga samkvæmt samningnum felur m.a. í sér ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu. Samningurinn er ítarlegur, fjallar m.a. um afbrot og viðurlög, refsivald, upptöku, framsal, gagnkvæma dómsmálaaðstoð, samvinnu og þjálfun.
    5. gr. samningsins fjallar um upptöku og m.a. heimild til að gera upptækan ávinning, sem leiddur er af refsiverðum brotum, eða eign, sem að verðmæti svarar til slíks ávinnings.
    Hér á landi er t.d. ekki til löggjöf um þetta efni en sérstök löggjöf hefur verið sett víða um lönd. Bretar gerðu svo mikið fjármagn upptækt á fyrstu árum sinnar löggjafar að það fjármagnaði að stórum hluta vinnuna við fíkniefnamálin hjá þeim.
    Í grein eftir Arnar Jensson lögreglufulltrúa hefur komið fram að talið er að markaður fíkniefna á Íslandi velti ekki minni upphæð en 350 millj. árlega. Að fíkniefnaviðskipti hafi orðið skipulagðari síðustu ár hér á landi og því erfiðari viðfangs. Á sama tíma hefur þrengt að löggæslu. Í skýrslunni ,,Ungir fíkniefnaneytendur, hvaðan koma þeir og hvert fara þeir?`` sem unnin var að frumkvæði landlæknis kemur fram að allt að 500 unglingar 13 -- 19 ára séu djúpt sokknir í fíkniefnaneyslu og að ástandið hafi versnað mjög hin síðustu ár.
    Virðulegi forseti. Fjölmargir aðilar eru að leggja sitt af mörkum til forvarnarstarfa en skýr löggjöf og aukið fjármagn þarf að koma til. Með aðild að samningi Sameinuðu þjóðanna felst skuldbinding um lagasetningu og aðrar framkvæmdir. Því er spurt hvort það sé ætlun íslenskra stjórnvalda að staðfesta samning Sameinuðu þjóðanna og þá hvenær megi vænta þess að tillögur þar um verði lagðar fyrir Alþingi.