Árni Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Vegna þeirrar fyrirspurnar sem hér er til umræðu tel ég ástæðu til að fram komi upplýsingar sem mér hafa borist frá meðferðarstöðinni á Vogi og varða þetta mál mjög. Þar kemur m.a. fram að á fjórum árum, 1984 -- 1987, komu 1155 einstaklingar á Vog sem misnotað höfðu kannabisefni og 689 sem höfðu misnotað amfetamín. En neysla þessara tveggja efna fer oft saman. Um stöðu þessara mála segir Þórarinn Tyrfingsson læknir m.a., með leyfi forseta, og mun ég verða stuttorður:
    ,,Mikil stökkbreyting varð á því hversu miklu fleiri leituðu sér meðferðar í fyrsta sinn vegna áfengissýki eða annarrar vímuefnamisnotkunar á Íslandi með tilkomu sjúkrastöðvar SÁÁ 1978. Þá hljóp tala þeirra skyndilega upp fyrir 600 á ári. Í fyrstu var ekki óeðlilegt að álykta sem svo að við aukna möguleika á að komast í meðferð væri þetta tímabundin sveifla sem mundi draga úr. En það hefur farið á annan veg því nú 13 árum seinna er talan 650 og hefur verið það öll þessi ár. Tölur um nýgengi hafa þannig verið stöðugar og þær tölur sem nú fást verða að teljast nokkuð ábyggilegar. Á þessu tímabili, 1978 -- 1990, er hægt að áætla að um 8000 manns hafi leitað sér meðferðar í fyrsta sinn.
    Það sem hefur gert það að verkum að talan helst stöðug er einkum tvennt: Í fyrsta lagi aukinn fjöldi kvenna sem leita sér meðferðar. Í öðru lagi að vímuefnaneysla önnur en áfengisneysla hrekur nú mun fleiri til meðferðar á ungum aldri.
    Meðalaldur hefur því lækkað um tvö ár hjá körlum eða úr 37 árum í 35. Konum hefur fjölgað í hópi nýliða og eru nú 27% en voru 22% árið 1978.``
    Virðulegi forseti. Ég taldi ástæðu til að þessar upplýsingar kæmu fram.