Jarðgöng milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Á síðasta þingi hafði Sverrir Sveinsson, varaþm. Framsfl., forgöngu um það að flutt yrði till. til þál. um könnun á gerð jarðganga og vegarlagningu milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar í framhaldi af opnun jarðganga um Ólafsfjarðarmúla. Við urðum flm. með honum að þessari tillögu Jón Sæmundur Sigurjónsson, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, Ragnar Arnalds, Árni Gunnarsson og Pálmi Jónsson og höfum nú endurflutt tillöguna. Ég hygg að ég fari rétt með að þessir þingmenn hafi einnig verið á tillögunni á sl. þingi.
    Ástæðan fyrir því að þessi tillaga er flutt er sú að það hefur smátt og smátt verið að koma í ljós með aukinni tækni hver hagkvæmni er að jarðgangagerð þar sem hún á við. Það er skoðun okkar flm. að Siglufjörður sé mjög einangrað byggðarlag miðað við nútímakröfur og við teljum brýnt að þetta bæjarfélag komist í náið samband við aðrar byggðir við Eyjafjörð. Ég vil minna á það að ekki eru nema 20 km frá Siglufirði til Ólafsfjarðar ef jarðgöng verða sprengd upp Árdal í Ólafsfirði, inn af Kleifum, yfir í Héðinsfjörð í svokallaðan Víkurdal. Slík jarðgöng yrðu 1,6 km á lengd. Hins vegar yrði vegur lagður niður Víkurdal og inn með Héðinsfjarðarvatni að vestan og þá kæmu göngu til Skútudals, um 2,6 km að lengd. Fyrri göngin yrðu í um 280 metra hæð yfir sjó en hin síðari kæmust upp í tæplega 200 metra hæð yfir sjó eins og hugmyndir liggja nú fyrir, en lausleg áætlun var gerð um slík jarðgöng af Hauki Tómassyni, forstjóra vatnsorkudeildar Orkustofnunar, og Birgi Jónssyni, formanni Jarðgangafélags Íslands, í október sl.
    Tillagan var send til allshn. á síðasta þingi sem sendi hana til umsagnar. Fékk hún jákvæðar undirtektir, bæði frá bæjarráði Siglufjarðar, sem mælir eindregið með samþykkt tillögunnar, og bæjarstjórn Ólafsfjarðar, sem fagnar öllum áföngum í samgöngumálum sem kæmu bæjarfélaginu í betra samband við næstu nágranna. Leggja þeir í bæjarstjórn Ólafsfjarðar áherslu á brýna nauðsyn bættra samgangna milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Sömuleiðis hefur Fjórðungssamband Norðlendinga tekið undir að þessi athugun verði gerð sem hér er gerð tillaga um.
    Það er auðvitað erfitt að gera sér grein fyrir hversu kostnaðarsöm slík vegtenging yrði milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Í lauslegri áætlun sem gerð hefur verið í Vegagerðinni er gert ráð fyrir því að jarðgöng yrðu um 4 km og gæti kostnaður numið um 1,2 milljörðum kr. Forskálar mundu kosta 300 millj., vegir, 12 km, um 180 millj. og annað, hönnun o.fl., um 320 millj. Samkvæmt þessari lauslegu áætlun er því gert ráð fyrir 2 milljarða kr. kostnaði. Ég vil minna á að í Siglufirði búa 1800 -- 1900 manns. Ef þetta svæði tengdist Eyjafjarðarbyggðum væri svo komið að á þessu svæði, frá Akureyri til Siglufjarðar, byggju nærfellt 10% þjóðarinnar. Það mætti koma við sameiginlegum vinnumarkaði á þessu svæði. Á fiskmarkaði, sem mundi eflast við slíka tengingu, yrði auðvelt að koma við margvíslegri verkaskiptingu í sambandi við

nýtingu sjávarafla sem mundi treysta innlendan fiskiðnað í þeirri hörðu samkeppni sem hann á í við lönd Evrópubandalagsins, en ferskfiskútflutningur þangað fer mjög vaxandi, og þannig mætti lengi telja.
    Einmitt um þessar mundir er í athugun gerð langtímaáætlunar í vegamálum. Það er eðlilegt að samhliða því fari fram athugun á hversu slíkum jarðgöngum yrði best komið fyrir og sá kostur borinn saman við aðra, bæði með hliðsjón af stofnkostnaði, notagildi, viðhaldskostnaði, byggðarþróun, félagslegum sjónarmiðum, samtengingu þéttbýlisstaða og styttingu vega, eins og segir í þáltill.
    Ég þarf ekki að hafa um þetta, hæstv. forseti, fleiri orð. Ef hugmyndin er sú og vilji þingsins stendur til þess að reyna að efla Siglufjörð, byggðina þar, sem óneitanlega hefur staðið höllum fæti, er nauðsynlegt að treysta samgöngur á landi. Siglufirði verður ekki betur komið í samband við aðra þéttbýlisstaði og þá þjónustu sem þar er að fá en með því að tengja Siglufjörð byggðum Eyjafjarðar með jarðgöngum um Héðinsfjörð. Það mundi, eins og ég segi, valda því að þar gæti orðið sameiginlegur vinnumarkaður, sameiginleg hagnýting sjávarafla og þjónusta yrði sótt gagnkvæmt milli þeirra þéttbýlisstaða sem við fjörðinn standa.
    Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri en legg til að tillögunni verði vísað til síðari umr. og allshn.