Þjónusta Ríkisútvarpsins á Vesturlandi
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Flm. (Skúli Alexandersson) :
    Virðulegur forseti. Á þskj. 83 höfum við þingmenn Vesturl. flutt till. til þál. um aukna þjónustu Ríkisútvarpsins á Vesturlandi. Till. er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að hún hlutist til um að Ríkisútvarpið ráði til starfa fréttamann til öflunar frétta fyrir fréttastofu Ríkisútvarpsins og úrvinnslu á fréttatengdu efni frá Vesturlandi fyrir báðar rásir hljóðvarps. Fréttamaðurinn starfi með fréttariturum útvarps og sjónvarps á Vesturlandi þegar því verður við komið. Kannað verði hvort koma megi á fót hljóðstofum á Akranesi eða í Borgarnesi og á Snæfellsnesi og taka húsnæði á leigu eða kaupa til starfseminnar og þá í því augnamiði að síðar verði starfrækt reglulegt svæðisútvarp á Vesturlandi á vegum Ríkisútvarpsins.``
    Erfitt er að meta mikilvægi fréttaþjónustu til góðs eða ills eftir atvikum. Umsögn í fréttum um menn eða málefni hefur afgerandi áhrif. Áhrifin eru meiri eftir því hve öflugur fréttamiðillinn er. Ríkisútvarpið hefur í 60 ár flutt fréttir um menn og málefni líðandi stundar, jafnt innlendar sem erlendar. Á þessu tímabili hefur Ríkisútvarpið eða fréttastofa þess verið öflugasti fréttamiðill okkar Íslendinga. Fréttastofum útvarpsins hefur tekist vel í þessu mikilvæga starfi, kvartanir eða gagnrýni á starfsemi þeirra hefur verið mjög lítil. Allt fram á síðustu ár var meginhluta fréttanna safnað saman og þær unnar innan veggja fréttastofunnar. Með aukinni tækni og tilkomu sjónvarpsins varð á þessu mikil breyting. Í sumum tilfellum var frétt ekki boðleg í gegnum einhvern millilið sem sagði fréttamanni frá atburðum. Sá sem flutti fréttina í útvarpið þurfti sjálfur að hafa aflað fréttarinnar, helst verið eins nærstaddur atburði og mögulegt var.
    Þessi þróun hefur kallað á breytingar í starfsemi fréttastofu útvarps. Sú krafa hefur frá upphafi verið gerð til Ríkisútvarpsins að það væri útvarp allra landsmanna. Sú krafa er ekkert ný og ekki tilkomin eftir að fleiri útvarpsstöðvar hófu starfsemi. Ríkisútvarpið brást við nýjum kröfum í innlendri fréttaöflun með því að koma á fót útvarpsstöðvum á fleiri stöðum en í höfuðborginni, Reykjavík.
    Svæðisútvarp á vegum Ríkisútvarpsins er nú starfrækt á Vestfjörðum, Austfjörðum og á Akureyri. Útvarp frá þessum stöðum fyllir út í aðaldagskrá Ríkisútvarpsins, bæði með almennu útvarpsefni og fréttum eða fréttatengdum þáttum. Á því er enginn vafi að efnið frá svæðisútvarpsstöðvunum bætir mjög dagskrá útvarpsins jafnframt því sem efni dagskrárinnar höfðar betur til fleiri hlustenda vítt um allt land með landshlutatengdu efni frá fréttariturum frá svæðisstöðvunum.
    Ég sagði í upphafi að erfitt væri að meta mikilvægi fréttaþjónustu til góðs eða ills eftir atvikum. Nokkuð er undan því kvartað að fréttamat fréttamanna sé neikvætt, gert sé mikið úr neikvæðum fréttum en jákvæðum fréttum sé ekki haldið til haga. Ég held að því miður sé nokkuð til í þessu. Oft er hamrað á neikvæðum fréttum en sem betur fer verður slíkt oft broslegt og hefur ekki gildi sem frétt. Þannig er t.d. með Suðureyrarfréttirnar. Ef lagðar væru saman tölur um fjölda brottfluttra íbúa á Suðureyri við Súgandafjörð samkvæmt fréttum væri íbúatala þessarar byggðar komin þó nokkuð mikið í mínus. Samt er þar enn svipaður íbúafjöldi og verið hefur undanfarin ár. Broslegar voru líka síendurteknar fréttir af snjóþyngslum og kaffenni á Flateyri sl. vetur. Þannig mætti sjálfsagt nefna ýmislegt fleira.
    Öfgafréttir geta haft áhrif bæði á heimafólk og utanaðkomandi til vandræða fyrir viðkomandi byggð. Á sama hátt geta fréttir sem greina vel frá uppbyggingu, menningarviðburðum, atvinnulífi, hinu venjulega brauðstriti hvar sem er á landinu, haft mjög jákvæð áhrif. Sagan af áhrifum fréttaþjónustu fréttaritaranna frá tveimur byggðum á Austfjörðum sannar það. Fréttaritari í Austfjarðabyggð hafði í áraraðir sent Ríkisútvarpinu fréttapistla um það merkasta sem var að gerast í byggðinni, hafnargerð, vegabætur, skólabyggingar, heimsókn góðra gesta, skólasetningu og skólaslit og góðan námsárangur o.fl., o.fl. Í þeirri byggð hélt fólki áfram að fjölga ár frá ári og uppbygging var þar mikil. Í nágrannabyggðunum, þaðan sem útvarpið flutti engar fréttir, stóð mannfjöldinn nánast í stað og fólki jafnvel fækkaði. Þá tók sig til áhugamaður í einni byggðinni og fór að senda fréttir í svipuðum tón og sá fyrrnefndi. Það var ekki lengi að segja til sín. Strax á fyrsta ári varð veruleg fólksfjölgun og uppbygging á staðnum. Sú þróun stendur yfir enn. En sagan er ekki öll sögð. Fyrstnefndi fréttaritarinn flutti af staðnum, ungur maður nýfluttur í byggðina tók að sér fréttaþjónustuna. Nú komu fréttir um að sokkið hefði trilla í höfninni, vegur hefði farið í sundur í vatnavöxtum, fokið þak af prestshúsinu og jafnvel fóru snjóþyngsli að gerast mjög fréttnæm. Ósköpin dundu yfir, fólkinu í byggðinni tók að fækka. Svo gerist breyting á högum þessa nýja fréttamanns. Hann settist í sveitarstjórnina og um leið breyttist tónn fréttanna. Nú komu fréttir af skógrækt, gatnagerð, íþróttastarfsemi o.s.frv. Fólki tók aftur að fjölga í þeirri byggð og fjölgar enn.
    Ég nefni þessi dæmi til að undirstrika mikilvægi fréttaþjónustunnar. Ríkisútvarpinu hefur ekki enn tekist að halda uppi fréttaöflun af öllu landinu. Á þeim stöðum eða landshlutum þar sem svæðisútvörp eru verður varla krafist aukinnar uppbyggingar en vera má að breyta megi og bæta rekstur þeirra stöðva t.d. með því að skipuleggja samstarf starfsfólks svæðisútvarpanna við fréttaritara í viðkomandi landshluta betur en nú er gert. En það eru heilir landshlutar sem njóta ekki þjónustu svæðisútvarps og stundum fylgir það með að Ríkisútvarpið hefur ekki sinnt því að afla sér fréttaritara í þeim landshlutum þar sem svæðisútvarp er ekki starfrækt og fréttastofurnar hér í Reykjavík gleyma því að þeim ber að þjóna þessum landshlutum og fólkinu sem þar býr.
    Það fer ekki hjá því að viðskiptavinum Ríkisútvarpsins, hv. hlustendum í þeim landshlutum sem ekki hafa fengið svæðisútvarp, finnist þeir nokkuð afskiptir. Á þessu þyrfti að verða breyting. Ekki er þar með sagt að sú breyting þyrfti að vera í því fólgin að koma upp fleiri svæðisútvarpsstöðvum. Svo stóran áfanga þyrfti ekki að taka í fyrstu.
    Fyrir Vesturland, sem hefur verið afskipt á þessu sviði, væri það nokkur áfangi ef Ríkisútvarpið réði til starfa fréttamann með búsetu og starfsaðsetur í landshlutanum sem annaðist öflun frétta og úrvinnslu á fréttatengdu efni frá Vesturlandi fyrir báðar rásir hljóðvarps. Á Vesturlandi eru fréttaritarar útvarps og sjónvarps nokkuð víða. Þeir eru eins og annað fólk mismunandi áhugasamir í breytilegri stöðu til að fylgjast með fréttum og afla þeirra. Meira að segja er einn skráður fréttaritari sjónvarps nú orðinn bankastjóri í virðulegu bankaútibúi í Garðabæ. Fréttamaður útvarpsins á svæðinu gæti aðstoðað fréttaritara bæði útvarps og sjónvarps og því ekki aðeins bætt tengsl útvarpsins við Vesturland með beinni fréttamennsku heldur einnig styrkt þá starfsemi útvarpsins sem þegar er fyrir hendi.
    Í tillgr. er lagt er til, auk þess að fréttamaður verði fastráðinn í starf á Vesturlandi, að kannað verði hvort koma megi á fót hljóðstofum á tveimur stöðum á svæðinu. Þessi ábending er lögð til til að vekja athygli á því að koma þarf í veg fyrir að þessi starfsemi festist eða lokist af á takmörkuðu svæði í landshlutunum. Íbúar á Vesturlandi telja sig eiga rétt á að fá svipaða þjónustu frá hendi Ríkisútvarpsins og íbúar annarra landshluta. Nokkuð skortir á að dagskrá útvarpsins geti kallast dagskrá eða útvarp allra landsmanna meðan svipuð þjónusta í vinnslu frétta og dagskrárefnis sem víðast á landinu er ekki til staðar.
    Nú sem stundum fyrr er fjallað um það að jafna þurfi aðstöðu til búsetu. Till. er flutt fyrst og fremst í þeim tilgangi. Í 60 ár hefur Ríkisútvarpið átt stóran þátt í að tryggja að byggð haldist út um okkar dreifðu byggðir. Á fyrstu árum og áratugum starfseminnar var ekki erfitt að halda þannig á málum að ekki hallaðist á í þjónustu Ríkisútvarpsins milli landshluta. Með breyttri tækni og auknum kröfum er erfiðara að leysa þessi mál en varla er það svo kostnaðarsamt eða svo stórt í sniðum að hér þurfi mikið meira en viljann til að gera það sem lagt er til í þessari till. að gert verði.
    Vonandi er gagnkvæmur áhugi á þessu málefni. Dagskrár útvarpsins hafa á undanförnum árum, með auknu efni og aukinni þjónustu við landsbyggðina, styrkt þá von og jafnvel trú að Ríkisútvarpið sé og verði útvarp allra landsmanna. Fréttamenn í fullu starfi eins og hér er lagt til á fleiri stöðum á landinu en nú er mundu enn bæta þá ímynd og tiltrú.
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að till. verði vísað til síðari umr. og félmn.