Skráningarkerfi bifreiða
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Flm. (Jón Sæmundur Sigurjónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég flyt hér till. til þál. um skráningarkerfi bifreiða sem hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá um að þjónusta við skráningu bifreiða verði aukin þannig að hinir gömlu einkennisbókstafir skráningarsvæða verði innleiddir að nýju án þess að afnema kosti hins nýja fastnúmerakerfis.``
    Þetta er ekki fyrsta till. þessa eðlis á Alþingi Íslendinga. Tvær aðrar till. svipaðs eðlis hafa verið fluttar, annars vegar af þáverandi hv. 1. þm. Suðurl. Árna Johnsen og hins vegar af hv. 1. þm. Norðurl. v. Páli Péturssyni. Þær voru báðar fluttar á síðasta þingi.
    Víða um land má heyra raddir fólks sem saknar gömlu staðarmerkinganna í skráningarkerfi bifreiða. Menn vilja gjarnan bera þau kennsl á vegfarandann að vita hvaðan hann kemur. Það má vera að hér sé fyrst og fremst um tilfinningalegar ástæður að ræða, en hiklaust má finna margar þarfar ástæður fyrir því að bifreiðar verði aftur skráðar eftir svæðum.
    Nú eru vissulega margir góðir kostir því samfara að hafa föst skráningarnúmer bifreiða og er óþarfi að telja þá upp. Það er heldur ekki lagt til að það kerfi verði lagt niður, þvert á móti. Í fyrrgreindum till. sem fluttar hafa verið hefur það hins vegar verið lagt til. Í grg. með till. hv. 1. þm. Suðurl. Árna Johnsens segir að hið gamla skráningarkerfi bifreiða, sem var lagt af með núgildandi kerfi, hafi verið fyrirkomulag sem hafi áunnið sér sess í íslensku þjóðlífi á persónulegum grunni. Bæði miðaði gamla kerfið við staðarmerkingu að ákveðnu marki og bíleigendur áttu sitt númer svo lengi sem þeir vildu. Þetta fyrirkomulag gerði bílaflota landsmanna persónulegri því menn sáu á bílnúmerum líkur fyrir því hver væri á ferð. Þetta eru mjög svipaðar röksemdir og ég hef fært fyrir þeirri þáltill. sem ég flyt hér.
    Þá segir enn fremur í grg. hv. 1. þm. Suðurl. að tillagan um einkarétt og íslenskt sérkenni á skráningarkerfi bifreiða miði að því að þó að bókhaldsleg skráning núverandi kerfis verði áfram við lýði geti bíleigendur, ef þeir vilja greiða fyrir þá þjónustu, keypt sér fast númer með staðarmerkingu og númeri í stíl við gamla kerfið, t.d. við nafnskráningu. Sagt er að gamla númerakerfið sé persónulegt og auka þurfi þjónustu til þess að hjálpa mönnum að halda slíku við. Í Bandaríkjunum og í Svíþjóð geti menn notið slíkrar þjónustu ef þeir vilja kaupa hana. Flm. sagði líka að hlaupið hefði verið allharkalega í breytingar til núverandi kerfis og full ástæða sé til þess að bjóða upp á meiri möguleika í stíl við hefðir íslensks samfélags.
    Í minni þáltill. hef ég ekki lagt til að þessir möguleikar verði í boði en ég vil mjög eindregið beina því til viðkomandi nefndar, væntanlega allshn., að þeir kostir séu athugaðir að menn eigi kost á því að kaupa sér það númer sem þeir kæra sig um, kannski gegn hærra gjaldi, líkt og Árni Johnsen sagði í grg. með sinni tillögu. Ég er eindregið fylgjandi því fyrirkomulagi að slíkir möguleikar séu í boði.

    Svipuð rök notar hv. 1. þm. Norðurl. v. í sinni grg. með þeirri tillögu sem hann lagði fram. Þar segir að mörgum bifreiðaeigendum sé eftirsjá að gamla númerakerfinu enda sé það gleggra og þjóðlegra en hin erlenda eftiröpun.
    Ég get ekki tekið undir það að það sé endilega þjóðlegra því ég þekki mörg skráningarkerfi í öðrum löndum sem eru mjög svipuð því gamla númerakerfi sem við Íslendingar höfðum. Séu þau þjóðleg, og okkar þá líka þjóðlegt, má segja að þau séu öll alþjóðleg, því a.m.k. eru þau mjög svipuð og er þá spurning hvaða númerakerfi sé þjóðlegra en annað. Ég held að það sem flm. hafi átt við sé að við erum orðin vön okkar gamla kerfi og þess vegna hafi honum fundist það þjóðlegt.
    Báðar þessar tillögur sem ég minntist á frá hv. þm. Árna Johnsen og Páli Péturssyni miða að því að taka aftur upp gamla kerfið. Ég sagði áðan að sú tillaga sem ég flyt miði ekki að því heldur þvert á móti. Ég benti á að á hinum nýju fastnúmerum bifreiða er fyrsta sætið autt. Það er ætlað fyrir skjaldarmerki eða sýslumerki. Þá koma tveir bókstafir og síðan þrír tölustafir, t.d. BC-123. Tilfellið er að þetta auða fyrsta sæti er langsjaldnast notað af nokkrum bifreiðareiganda þannig að flestir vegfarendur sjá aðeins eyðuna. Á örfáum bifreiðum sést eitthvað lítið merki sem varla má greina hvað er. Þar er þá að ræða um viðkomandi skjaldarmerki sem enginn, eins og ég sagði, getur greint hvað er eða hvaðan það kemur.
    Samkvæmt þeirri hugmynd sem ég hef hér lagt til væri auða sætið notað fyrir einkennisbókstaf svæðis sem við þekkjum frá gömlu skráningarnúmerunum, t.d. fyrir bifreiðar frá Akureyri með númeri sem ég minntist á hér áðan, BC-123, væri fyrsta sætið notað fyrir einkennisstafinn A sem væri fyrir Akureyrarsvæðið og Eyjafjörð, númerið yrði þá ABC-123, þ.e. þrír bókstafir og þrír tölustafir þar sem fyrsti bókstafurinn sýndi ávallt af hvaða svæði bifreiðin kæmi. Einkennisbókstafinn mætti líma á númersplötuna líkt og gert er með skoðunarmerkið í dag. Ef bifreið er seld milli skráningarsvæða heldur hún fasta númerinu en límmerkið gamla er rifið af og annað sett í staðinn með hinum nýja einkennisbókstaf. Ef bifreiðin frá Akureyri, ABC-123, er t.d. seld til Reykjavíkur yrði hið nýja númer RBC-123. Þetta fyrirkomulag er til þess fallið að mínu áliti að sameina kosti hins gamla og nýja skráningarkerfis bifreiða og miðar því ekki að því, eins og tillögur þær sem ég minntist á áðan frá hv. þm. Árna Johnsen annars vegar og Páli Péturssyni hins vegar, að leggja niður hið nýja kerfi og taka aftur upp hið gamla, heldur að sameina kosti beggja kerfanna. Þó er margt athyglisvert í tillögum þeirra félaga, eins og ég sagði áðan, t.d. að menn hafi möguleika gegn eitthvað hærra gjaldi að kaupa sér það númer sem þeir helst vildu hafa á sinni bifreið ef tölvan hjá Bifreiðaeftirliti Íslands leyfir slíkt.
    Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til síðari umr. og allshn.