Skráningarkerfi bifreiða
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil koma hér til að lýsa yfir stuðningi við þessa tillögu. Það er ljóst að margir sakna þess að geta ekki séð hvaðan vegfarendur koma, hvort þeir eru eigin landsmenn og úr hvaða sýslu eða héraði þeir koma. Sérstaklega saknar maður þess við akstur úti á landi. Mér sýnist að þarna sé komin ágætis tillaga sem getur sameinað bæði kosti gamla kerfisins og nýja kerfisins. Ég vil líka taka undir það að einhver leið verði fundin til þess að aðgreina þennan bókstaf frá sjálfu númeri bílsins. Ég er ekki svo kunnug þessum nýju bílnúmerum að ég geti sagt hvar er autt pláss eða hvar ætti að setja slíka merkingu. Ég treysti fróðari mönnum en mér til þess að finna út úr því. Kannski verður nefndarfundur haldinn úti á plani til þess að athuga hvernig þessu skyldi best háttað.
    En hér segir hv. flm. að fyrir óskum um að breyta númerakerfinu aftur liggi fyrst og fremst tilfinningaleg rök. Síðan virðist hann örlítið feiminn við það að viðurkenna það sem gild rök og segir: ,,... hiklaust má finna margar þarfar ástæður fyrir því að bifreiðar verði aftur skráðar eftir svæðum.`` Mér finnst engin skömm að því að nota í þessu tilviki tilfinningaleg rök og ég held að þau ein gildi hér að flestir Íslendingar bara sakni gamla kerfisins og við skulum alveg vera óhrædd við að viðurkenna það. En það geta verið fleiri hliðar á þessu. Mínar tilfinningar eru t.d. blendnar vegna þess að ég saknaði gamla kerfisins en um leið losaði nýja kerfið mig undan áráttu sem ég hef barist við árangurslaust frá því að ég var barn sem lýsti sér þannig, og var mér alltaf sjálfri óskiljanleg, að ég þurfti að lesa hvert einasta bílnúmer sem fram hjá mér fór, helst að ná að leggja það saman, finna þversummuna eða eitthvert kerfi í hverju einasta númeri. Mér var þetta algerlega óskiljanlegt þar sem ég hef engan áhuga á bílum umfram notagildi þeirra, að komast frá einum stað til annars. Nú er ég algerlega laus við þessa áráttu því nýju bílnúmerin vekja hana ekki hjá mér. Ég er sem frelsuð manneskja þegar ég keyri núna um vegi landsins og hlýt að vera miklu betri bílstjóri þar sem athygli mín er ekki sífellt bundin við bílnúmer. Þess vegna vildi ég eindregið vara hv. þm. Skúla Alexandersson við því að vera að óska aftur eftir kerfi þar sem hann og ég, af mismunandi ástæðum kannski, mænum sífellt á bílnúmer. Honum ætti t.d. að nægja að vita hverjir eru á ferð úr hans kjördæmi en ekki endilega hver það er og hvort það er atkvæði eða ekki atkvæði.
    Ég vil sem sagt þakka fyrir það að nýtt kerfi hefur losað mig undan þessum veikleika og ónáttúru sem ég hef aldrei skilið, en jafnframt þakka ég fyrir þessa tillögu sem getur sameinað bæði kosti og galla.