Skráningarkerfi bifreiða
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Eiður Guðnason :
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Það er auðvitað fráleitt hjá hv. 4. þm. Vesturl. að gera því skóna að þó svo að mönnum gæfist kostur á að kaupa sér eða velja sér ákveðið númer gegn einhverju gjaldi, þá sé verið að koma á einhverri stórfelldri mismunun. Það er grundvallarmisskilningur. Það er verið að gefa mönnum kost á að þjóna sínum duttlungum með því að greiða svolítið viðbótargjald. Ég held að það væri mjög skynsamlegt að gera þetta og nota þær tekjur sem þessi tekjustofn gæfi til þess að bæta þjónustu Bifreiðaskoðunar Íslands við bifreiðaeigendur á landsbyggðinni.