Ferðamálastefna
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég vil færa hæstv. ráðherra þakkir fyrir að leggja þetta mál fram og jafnframt þeirri nefnd sem að þessu máli hefur unnið. Ég tel að hér liggi til grundvallar mikil vinna og það verður að segjast eins og er að hverjum sem hugleiðir þessi mál má ljóst vera að hér er stórmál á ferðinni.
    Samkvæmt skoðunum sérfræðinga Sameinuðu þjóðanna má gera ráð fyrir því að það muni ekki fjölga meira í nokkurri atvinnugrein til næstu aldamóta en þeirri sem hér er til umfjöllunar. Þetta leiðir hugann að því að sú mikla sókn sem hefur verið í aðsókn að landinu ef svo mætti komast að orði, þ.e. hin mikla fjölgun ferðamanna erlendra til Íslands er ekki séríslenskt fyrirbrigði í þeirri merkingu. Þróunin er sú að menn ferðast miklu meira í þessum heimi og þetta er þess vegna að hluta til spurningin um það hvort við getum haldið hlut okkar í þessari þróun og ef til vill bætt.
    Ég held aftur á móti að við stöndum frammi fyrir því að ekki verður undan því komist að leggja í verulegar fjárfestingar, bæði til að ofbjóða ekki landinu og eins til þess að við getum tekið sómasamlega á móti þeim sem hingað koma.
     Ég var á ráðstefnu uppi í Borgarnesi þar sem fjallað var um byggðamál. Þar talaði meðal annarra forstöðumaður Ferðaþjónustu bænda. Og ein setning í hans máli vakti verulega undrun mína en hann fullyrti að tveir af hverjum þremur sem væru að spyrja um ferðir til Íslands sem tengdust Ferðaþjónustu bænda hættu við þegar þeir fengju að vita um verð á bílaleigubílum á Íslandi. Þetta vakti undrun mína og ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að hæstv. samgrh. láti fara ofan í saumana á því hvort erlendir aðilar sem reka bílaleigur í sínu landi hafi einhverja aðstöðu fram yfir þá sem hér reka bílaleigubíla sem gerir þennan gífurlega mismun. En auðvitað er hin hliðin á þessu máli til staðar og þarf ekki rannsóknar við, hún blasir við hverjum manni, að okkar vegakerfi er því miður ekki í nægilega góðu standi.
    Ég vil taka sérstaklega undir það í máli hæstv. ráðherra að sé hugað að stöðu dreifbýlisins á Íslandi þá er það svo að sum þau svæði sem eiga við hvað mestan vanda að stríða vegna samgönguleysis og strjálbýlis eru einmitt ákjósanlegustu svæðin til þess að taka á móti auknum ferðamannastraumi. Þau hafa yfir náttúrufegurð að ráða. Ég get nefnt eitt dæmi um slíkt svæði sem ég er sannfærður um að óhemjufjöldi ferðamanna, bæði innlendra og erlendra, mundi heimsækja ef aðstæður væru betri. Það er Árneshreppur á Ströndum. Það blasir við að vegakerfið þangað norður eftir er í slíku ástandi að venjulegir fólksbílar komast ekki þá leið nema eiga á hættu stórskemmdir.
    Ég ætla líka að vekja athygli á því að það er mikil spurning hvort íslenskt atvinnulíf þarf ekki almennt að búa sig undir það að erlendir ferðamenn eigi einhverja
möguleika á að kynnast því. Ég minnist þess að þegar hvalveiðar voru stundaðar við Ísland var eitt af því

sem útlendingum var gjarnan sýnt starfsemin hjá þessari hvalveiðistöð. Ég hygg að áhugi erlendra ferðamanna á því t.d. að fá að skoða fiskverkun Íslendinga sé til staðar og veit reyndar að leitað hefur verið eftir því hvort menn eigi tök á að fá að skoða slíka starfsemi. Það er svo margt í þessum efnum sem þarf að taka til athugunar og endurskipulagningar.
    Ég ætla einnig að víkja talinu aftur að hálendinu á Íslandi. Ég held að við séum komnir á viss tímamót varðandi ferðalög um hálendið. Ég held að það sem verið hefur við lýði, að menn hafa lygilega frjálst fengið að ferðast um hálendi Íslands, gangi hreinlega ekki upp nema með stórauknu eftirliti. Og ég er sannfærður um að ef við þrjóskumst við að fylgja þessu eftir með eftirlitið mun skaðinn verða mikill á næstu árum.
    Einn er sá staður á Vestfjörðum sem að mínu viti hefur e.t.v. eitthvert mesta aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn af öllum stöðum í þessu landi og það er Látrabjarg. Það er eitt af þeim svæðum þar sem Náttúruverndarráð, Ferðamálaráð, heimamenn og önnur opinber stjórnvöld þurfa sérstaklega að gaumgæfa hvernig á að standa að málum í framtíðinni. Þar sem erlendir ferðamenn hafa verið látnir svara því hvar þeim hafi fundist athyglisverðast að koma hefur það komið í ljós að hafi Látrabjarg verið á þeim spurningalista, þ.e. að þeir hafi komið þangað, hafa mjög margir merkt við þann stað. Ég veit að það er ekki staður né stund til þess að fara hér í mikla upptalningu og það var ekki ætlun mín með því að koma hér í ræðustól heldur fyrst og fremst að færa þakkir fyrir framlagningu þessarar þáltill. sem ég vona að muni marka tímamót í ferðamálum á Íslandi þegar hún hefur verið samþykkt.