Ferðamálastefna
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Skúli Alexandersson :
     Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur verið sagt í sambandi við þakkir til hæstv. samgrh. , ferðamálaráðherra, og þeirrar nefndar sem hefur undirbúið og unnið þessa þáltill. fyrir það mikla verk sem greinilega liggur á bak við till.
    Ef aðeins er litið á fyrstu síðuna og aðra opnuna þar sem taldar eru upp leiðir sem till. gerir ráð fyrir til að ná þeim markmiðum sem þar hafa verið nefnd, þá er það um þróun og fjármögnun ferðaþjónustu, rannsóknir og markaðsstörf, umhverfisvernd, viðskiptajöfnuð, byggðaþróun og ferðaþjónustu, jafnrétti og neytendavernd, fræðslu og menntun. Hér er um svo yfirgripsmikið mál að ræða og lagt í svo mikið að það er erfitt að finna nafn á þessa till. sem maður getur fellt sig við. Mér finnst hálfleiðinlegt að kalla slíka stefnu opinbera stefnu, einhverja ríkisstefnu eða þess háttar, heldur er þetta ein allsherjarstefna þeirra sem hafa áhuga á ferðamálum og vilja stuðla að uppbyggingu þeirrar atvinnugreinar. Vitaskuld þarf hún að koma þessa leið hér inn í gegnum hv. Alþingi og vera unnin á þann veg sem mér virðist þessi till. hafa verið unnin á. Ég vil sem sagt endurtaka þakklæti fyrir það að þetta mikla plagg er komið hér enn á ný til umræðu.
    Það sem kom mér til þess að biðja um orðið við upphaf umræðna um þetta mál var umfjöllunin um byggðaþróun og ferðaþjónustu. Ég tel að ferðaþjónustan sé mjög mikilsvert mál í sambandi við byggðaþróun og í sambandi við viðhald byggðar á landinu. En eins og stendur í dag er alls ekki bjart þar yfir, það er langt í frá. Fjöldi ferðamanna kemur tiltölulega lítið út um hinar dreifðu byggðir landsins. Honum er fyrst og fremst þjónað hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu og Akureyrar- og Mývatnssvæðinu. Aðalferðarúntur ferðaskrifstofanna með ferðamenn er Reykjavík-Gullfoss-Geysir, stundum Þingvellir með, og Reykjavíkurferðaþjónustan sinnir þessu fyrst og fremst á þennan máta. Það eru kannski ákveðin rök fyrir því að þannig er staðið að. Það er erfitt að fara út frá þessu svæði með ferðamenn sem eru vanir því að ferðast á malbikuðum vegum, vegum með bundnu slitlagi. Og það er eðlilegt að ferðaþjónustumenn óttist það að fara t.d. með ferðalanginn sinn eða ferðahópinn norður á það svæði sem hv. 2. þm. Vestf. nefndi hér áðan, t.d. norður í Árneshrepp, og taka það trúanlegt að inn í þá sveit og inn í þá byggð sé vegur í einhverri líkingu við það sem ferðakortin benda á. Þar sé sæmilega akfær vegur fyrir hvaða farartæki sem er. Eða þá fara vestur á Snæfellsnes, vestur fyrir jökul, um það dýrðarsvæði og hossast á þeim vegum sem þar eru.
    Einmitt í sambandi við umræðu og skoðun þessarar till. þá er sjálfsagt gott og blessað að hugsa til framtíðar eins og meginhluti till. hér gerir. En við verðum líka að líta á nútíðina og eftir því sem við vinnum í nútíðinni þá getum við haldið á málum með einhverri vissu til framtíðar. Ef við ætlum að fjölga mjög mikið ferðamönnum hér á Íslandi á næstu árum

og standa að uppbyggingu samgöngukerfisins á þann máta sem nú blasir við þá líst mér ekki á framhaldið. Ef við eigum að halda áfram að fara með ferðalangana sem koma til Íslands fyrst og fremst leiðina Gullfoss-Geysir-Þingvellir og ekki treysta okkur til þess að fara með þá mikið út á þau svæði sem ég var að nefna hér eða önnur lík, þá held ég að við ættum að draga úr því að fleiri komi til Íslands.
    Þetta tengist því að það þýðir lítið að vera að tala hér um uppbyggingu aukinnar ferðaþjónustu ef við tökum ekki um leið á samgöngunum í landinu. Núna er skv. fjárlagafrv. skerðing á framlögum til vegagerðar um hátt í milljarð miðað við það sem langtímaáætlun gerir ráð fyrir, a.m.k. rúman hálfan milljarð. Ef þannig á að halda á málum, bæði gagnvart almennri atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni og gagnvart þessum eina og sérstaka þætti, þá tel ég að þau markmið sem eru sett hér fram í þessu ágæta plaggi þjóni tiltölulega litlum tilgangi.
    Það eru ýmsir aðrir þættir sem vitaskuld þarf að hugsa um í sambandi við byggðaþróunina og ferðaþjónustuna. En ég tel að þetta sé grundvallarþáttur. Ég gæti haft nokkuð fleiri orð um það en ég heyri að minn ræðutími er svo gott sem búinn. Þess vegna vil ég aðeins undirstrika það, sem hv. 2. þm. Vestf. nefndi hér áðan, hvað bílaleigubílar væru dýrir á Íslandi. Það gæti nú verið ef bílaleigubílar væru með skikkanlegri verðlagningu að einn og einn ferðamaður mundi trúa því að það væri sæmilegur vegur í kringum Snæfellsnes og norður í Árneshrepp eða út á Langanes og ef þessi farartæki væru verðlögð á svipaðan máta og þessi þjónusta fæst fyrir í nágrannalöndunum þá gæti verið að hægt væri að vega pínulítið upp á móti því sem er að gerast í uppbyggingu vegakerfisins. En því miður hefur þetta ekki verið þannig á undanförnum árum. Eftir því sem ferðaþjónustumenn úti á landsbyggðinni segja mér þá kemur einmitt það hvað bílaleigubílar eru dýrir hér, eins og hv. 2. þm. Vestf. sagði, iðulega í veg fyrir að ferðamaður komi til Íslands.
    Ég vil svo endurtaka það að ég þakka fyrir þessa till. og vænti þess að hún fái góða umfjöllun bæði hér í hv. Sþ. og svo í þeirri nefnd sem henni verður vísað til.