Fræðsla í fjármálaumsýslu í skólum
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Þorsteinn Pálsson :
    Frú forseti. Ég hygg að hér sé á ferðinni mjög þörf till. til þál. og flm. hafi hreyft mjög markverðu máli sem full ástæða er til að Alþingi taki til meðferðar. Ég fyrir mitt leyti hvet til þess að málið fái hér ítarlega skoðun og verði sem fyrst afgreitt frá þinginu svo að undirbúningur geti hafist að þeirri fræðslustarfsemi sem hér er lagt til að tekin verði upp í skólum landsins.
    Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þau neikvæðu viðhorf sem hv. 13. þm. Reykv. hafði hér í frammi. Ég skildi ræðu hans helst á þá leið að helsta ráðið til þess að koma á góðri skipan í þjóðfélaginu væri að koma á sem mestum boðum og bönnum og sem mestri forsjá í málefnum einstaklinga af opinberri hálfu. Ég held að það sé ekki leiðin og þau viðhorf leiði ekki til farsællar skipunar, hvorki í heimilishaldi né þjóðarbúskap. Það er að sönnu rétt að hver einasta fjölskylda í landinu þarf að sýsla um fjármuni í stórum og smáum stíl, ekki síst varðandi húsakaup, varðandi kaup á bílum og heimilistækjum af ýmsu tagi. Og það er í fyllsta máta eðlilegt að skólakerfið veiti fólki fræðslu um þessi efni og má furðu gegna að það skuli ekki hafa verið gert fyrr, svo ríkur þáttur sem fjármálaumsýsla er í daglegu lífi hverrar einustu fjölskyldu í landinu.
    En ég er þeirrar skoðunar að fræðslustarfsemi af þessu tagi þurfi að vera víðtækari og vildi beina því til hv. flm. og þeirrar hv. nefndar sem fær málið til meðferðar að taka það til athugunar að færa tillögu þessa nokkuð út og gera þá fræðslustarfsemi víðtækari sem hér er verið að tala um. Ég er þeirrar skoðunar að auk almennrar grundvallarþekkingar um fjármálaumsýslu eins og hér er verið að leggja til þurfi skólakerfið að veita almenna fræðslu um undirstöðuatriði í almennri þjóðhagfræði.
    Mjög verulegur hluti af allri þjóðmálaumræðu snýst um efnahagsmál, úrræði í efnahagsmálum og mismunandi leiðir í þeim efnum. Þegar kjósendur taka ákvarðanir í kosningum er það að verulegu leyti með tilliti til þess sem stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn hafa fram að færa um úrræði í efnahagsmálum og úrræði í þeim efnum eru jafnan undirstaða þess að menn geti tekið á á ýmsum öðrum sviðum í þjóðfélaginu, félags - og menningarlegum efnum. En um þessi efni er afar lítil fræðsla í skólakerfinu. Það eru tiltölulega mjög fáir nemendur sem ljúka skólanámi og hafa fengið fræðslu um undirstöðuatriði í almennri þjóðhagfræði. Ég tel að á þessu þurfi að gera bragarbót. Fyrir allmörgum árum var hvatt til þessa í forustugreinum tveggja dagblaða, Morgunblaðsins og Vísis, án þess að það megnaði nokkru að lyfta hjá yfirvöldum menntamála en því fremur er ástæða til þess að fagna að nú skuli hafa verið flutt um þetta efni þáltill. hér á hinu háa Alþingi. Ég vil hvetja flm. og nefnd til þess að fjalla með jákvæðum hætti um efni tillögunnar og færa hana út þannig að sú ályktun sem Alþingi kemur til með að gera í þessu efni taki einnig til fræðslu um undirstöðuatriði í almennri þjóðhagfræði. Ég hygg að það skipti mjög miklu máli fyrir þjóðfélagsumræðu og lýðræðisþróun í landinu að fólkið í landinu taki ákvarðanir á grundvelli þekkingar og skólakerfið er réttur vettvangur til að veita þá þekkingu.
    Sjónvarpið gerði fyrir þó nokkuð mörgum árum tilraun til alþýðufræðslu á þessu sviði sem þeir önnuðust, Ásmundur Stefánsson og dr. Þráinn Eggertsson prófessor. Það var jákvæð viðleitni en úr því varð ekki annað en nokkurra þátta röð í sjónvarpi.
    Niðurstaða mín er sem sagt þessi að hér sé hreyft mjög merku máli og ég vil hvetja til þess að um það skapist samstaða á Alþingi, það verði afgreitt sem fyrst, þannig að raunverulegur undirbúningur að því fræðslustarfi sem hér er verið að tala um geti hafist.