Fræðsla í fjármálaumsýslu í skólum
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegur forseti. Ég vil í upphafi lýsa fyllsta stuðningi við þessa góðu þáltill. sem hv. 9. þm. Reykn. flytur hér. Hún er sannarlega tímabær. En það er rétt sem kom fram hjá hv. 13. þm. Reykv. að hér hefur ríkt á undanförnum árum og kannski áratugum nokkur ruglandi og óreiða í fjármálum. Af hverju skyldi það vera? Það er af því að í tjái og tundri verðbólgunnar er erfitt að henda reiður á fjármálum jafnt heimila sem hins opinbera.
    En 1. nóv. s.l. ætti í raun og veru að vera prentaður með rauðu í almanaki íslenskra efnahagsmála því þann dag var í fyrsta sinn frá árinu 1972 tólf mánaða breyting vísitölu framfærslukostnaðar undir 10%. Þetta er vitnisburður um að það hafi náðst hér verulegur árangur í efnahagsmálum gagnstætt því sem maður skyldi ætla af því sem hv. 11. þm. Reykn. sagði hér áðan.
    En ég verð að segja það eins og er að sumt af því sem kom fram í máli hv. 13. þm. Reykv. um forsjá his opinbera á fjármálum fjölskyldna held ég að sé ekki rétta leiðin. Það er hins vegar tímabært að það frv. um greiðslukortastarfsemi sem liggur fyrir hv. Ed. verði að lögum. Það var lagt hér fyrir þingið í fyrra, fékk þá ítarlega meðferð en náði ekki fram að ganga. Með þeim tillögum eru settar skipulegar leikreglur fyrir þennan mikilvæga þríhyrning í greiðsluviðskiptum heimilanna, milli korthafans, kortafyrirtækisins og þess sem selur vöru eða þjónustu.
    Það er rétt sem fram kom hjá hv. 13. þm. Reykv. að ábyrgð korthafa og kortaútgáfufyrirtækja á viðskiptunum hefur ekki verið nægilega skýr. Það hefur allt of mikið tíðkast að út hafi verið gefnir opnir tryggingarvíxlar af þriðja aðila. Það er ekki skynsamleg leið. Það er nauðsynlegt að kortin séu útgefin á gjaldtraust, á greiðslutraust þeirra sem kortin nota og að ábyrgð beri þeir einir á þeim. Þetta er kannski mikilvægasta breytingin. En það er líka í þessu frv. tillaga um að jafna sanngjarnlega niður kostnaðinum af þessari greiðslumiðlun þannig að hann lendi á þeim sem kortin nota en ekki hinum sem greiða út í hönd. En mikilvægast af öllu er þó að um þennan mikilvæga greiðslufarveg í landslagi viðskiptanna, þar sem kannski 70% af daglegum greiðslum fjölskyldna fara um þessa leið, er nauðsynlegt að setja reglur, ekki til þess að bjóða eða banna heldur til þess að mönnum sé ljóst að hverju þeir ganga. Ég á von á því að það ásamt fræðslu um fjármálaumsýslu, eins og tillagan gengur út á, muni geta bætt bæði hag heimilanna og þjóðarinnar. Það er alveg rétt sem fram hefur komið hér í máli fyrri ræðumanna, einkum hv. 1. þm. Suðurl., að það að auka kennslu í hagfræðigreinum í framhaldsskólum landsins held ég að væri mjög þarft. En ég held að sú ábending sem þáltill. felur í sér, að beina athyglinni ekki síst að hagfræði heimilanna, muni verða árangursríkast. Og þess vegna er þetta mjög tímabært. Þetta er framfaramál á grundvelli þess efnahagslega stöðugleika em við höfum náð. Þess vegna er tillagan tímabær, þess vegna er hún þörf,

þess vegna á hún að fá skjóta og góða meðferð.