Flm. (Stefán Valgeirsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 116 hef ég leyft mér að leggja fram till. til þál. um að fela forsetum Alþingis að afla lögfræðilegs álits umboðsmanns Alþingis á bráðabirgðalögum nr. 89/1990, um launamál. Tillgr. er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi samþykkir að fela forsetum Alþingis að afla lögfræðilegrar umsagnar og álitsgerðar hjá umboðsmanni Alþingis, skv. heimild í 11. gr. laga nr. 13 frá 1987, um hvort bráðabirgðalög um launamál, nr. 89/1990, brjóti í bága við grundvallarreglur um stjórnskipun lýðveldisins og stjórnarskrá þess.
    Álitsgerð umboðsmanns skal kunngerð Alþingi fyrir næstu umræðu um frumvarp ríkisstjórnarinnar um staðfestingu á bráðabirgðalögunum.``
    Á Alþingi hefur nú verið lagt fram frumvarp ríkisstjórnarinnar um staðfestingu á bráðabirgðalögum um launamál, nr. 89/1990. Efasemdir hafa komið fram um stjórnskipulegt gildi bráðabirgðalaganna og hvort þau standist gagnvart grundvallarreglum stjórnarskrárinnar. Samkvæmt 47. gr. stjórnarskrárinnar skal hver alþingismaður vinna eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni. Slíkt heit var m.a. undirritað í fundarbyrjun hér á hv. Alþingi í dag.
    Lög samþykkt á Alþingi eru dauð og ómerk stangist þau á við grundvallarreglur stjórnskipunarréttar og ákvæði stjórnarskrár. Hvorki í ríkisstjórn né á Alþingi sitja nú menn sem getið hafa sér viðurkenningu á sviði lögvísinda eða í stjórnskipunarrétti.
    Lögvísindamenn hafa dregið í efa stjórnskipunarlegt gildi bráðabirgðalaganna með hliðsjón af ákvæðum stjórnarskrárinnar, þ.e. 2. gr., 28. gr., 67. gr. og 73. gr. Mál er nú til meðferðar fyrir bæjarþingi Reykjavíkur sem snýst um lögmæti bráðabirgðalagaútgáfunnar en vegna seinagangs í íslensku réttarfari og meðferðar mála fyrir dómstólum mun ekki að vænta niðurstöðu fyrir þann tíma þegar Alþingi verður að taka mál þetta til endanlegrar afgreiðslu.
    Ekki má það henda Alþingi Íslendinga að láta undir höfuð leggjast að leita eftir því að umboðsmaður Alþingis fái málið til umsagnar eða liggi fyrir álitsgerð frá þeim sérfræðingum í lögvísindum á þessu sviði sem til eru í landinu.
    Samkvæmt 11. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, er heimild til þess að afla álitsgerðar umboðsmanns um hvort meinbugir séu á gildandi lögum. Bráðabirgðalögin hafa verið gildandi síðan 3. ágúst 1990.
    Með hliðsjón af framangreindu er mjög brýnt fyrir alþingismenn, og skylda þeirra að öðru jöfnu, að afla sér lögfræðilegrar álitsgerðar og umsagnar hlutlauss aðila áður en frv. ríkisstjórnarinnar um staðfestingu á áðurgreindum bráðabirgðalögum verður tekin til frekari meðferðar á Alþingi.
    Flutningsmaður treystir sér ekki til að standa að samþykkt frv. fyrr en álitsgerð umboðsmanns Alþingis liggur fyrir og að niðurstaða hans verði sú að bráðabirgðalögin samræmist íslensku stjórnarskránni og hafi samkvæmt efni sínu og formi stjórnskipulegt

gildi.
    Ég vil taka það fram að umboðsmaður Alþingis er doktor í lögum og er því öðrum fremri að gera slíka álitsgerð enda heyrir það mál undir valdsvið hans en að vísu er í lögunum ákvæði um að það sé á hans valdi hvort hann gefi slíka skýrslu eða álitsgerð en þá liggur það fyrir að hann mundi vísa því frá.
    Þetta mál er hreint klúðursmál frá upphafi. Ríkisstjórn hefur gert samning við sína starfsmenn, síðan er gerð hin svonefnda þjóðarsátt og þá liggur þessi samningur fyrir og auðvitað hefði þá átt að taka á þessu máli eins og öðrum málum sem þjóðarsáttinni tengjast. Þetta var ekki gert. Það voru hin eðlilegu vinnubrögð. Síðan er farið með þetta mál á það æðsta dómstig sem er í þessum málum, félagsdóm, og félagsdómur fellur sinn úrskurð. Hver er hann? Og þá er gripið til þess af sömu mönnum sem skrifuðu undir að setja bráðabirgðalögin. ( Gripið fram í: Það þarf að fá ráðherrana í salinn.) Þeir eru nú yfirleitt annars staðar en í salnum.
    Það er enginn vafi á því að siðferðilega er þetta rangt og eftir því sem ég velti þessu meira fyrir mér, þó ég sé ekki neinn lögspekingur, þá hallast ég að því að þetta geti ekki staðist samkvæmt stjórnarskrá enda hafa komið raddir fram í mörgum fjölmiðlum og í þessum launþegasamtökum, enda nú þegar orðið dómsmál, að svo sé. Ég vil ekki láta það henda mig að greiða atkvæði frumvarpi sem ég hef miklar efasemdir um að standist gagnvart stjórnarskránni. Það kann að vera að ef svo færi, sem ég vil ekki trúa að óreyndu, að umboðsmaður Alþingis vísi þessu frá og vilji ekki láta neitt frá sér fara, þá kann að vera að það séu til í þessu landi hlutlausir vísindamenn á þessu sviði. Ég segi hlutlausir því þeir mega þá ekki vera í þessum samtökum sem stóðu að samningnum, að mínu mati, og ekki á vegum framkvæmdarvaldsins. En það er einmitt umboðsmaður Alþingis sem er í sjálfu sér engum háður samkvæmt lögunum. Ég vil alla vega flytja þetta mál. Svona vinnubrögð mega ekki koma fyrir, þau mega ekki endurtaka sig og það er alltaf hætt við því, ef þetta fer hljóðalaust í gegn, að meiri hluti hér á Alþingi skeyti því ekki hvort það kunni að verða álit dómstóla að þetta standist ekki gagnvart stjórnarskrá. Ég vil ekki vera í þeim hópi og ég vil gera grein fyrir mínu áliti í tíma.
    Þegar talað var við mig um þessa lagasetningu þá var ég með varnaðarorð. (Gripið fram í.) Það var gert. Og það eina sem ég vildi gangast inn á var að þessum greiðslum væri frestað á meðan verið væri að athuga og úrskurða hvort það væri hægt, hvort það væri löglegt stjórnskipulega séð að svipta þá þessum rétti samkvæmt samningi sem fjmrh. í umboði ríkisstjórnarinnar skrifaði undir.
    Að þessu sinni ætla ég að láta þetta duga, virðulegi forseti. Ég legg til að þessari till. verði vísað til síðari umr. og félmn.