Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Í till. þeirri til þál. sem hér liggur fyrir segir m.a. að Alþingi samþykki að fela forsetum Alþingis að afla lögfræðilegrar umsagnar og álitsgerðar hjá umboðsmanni Alþingis, samkvæmt heimild í 11. gr. laga nr. 13/1987, um hvort bráðabirgðalög um launamál brjóti í bága við grundvallarreglur um stjórnskipun lýðveldisins og stjórnarskrá þess.
    Tillöguna má skilja á þann hátt að í 11. gr. laga um umboðsmann Alþingis sé að finna heimild til handa forsetum Alþingis til þess að afla lögfræðilegra álitsgerða frá umboðsmanni Alþingis um lögfræðileg vandamál sem kunna að rísa.
    Í 11. gr. laganna um umboðsmann segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ef umboðsmaður verður þess var að meinbugir séu á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum skal hann tilkynna það Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn.``
    Greinin verður hins vegar ekki skilin öðruvísi en svo að umboðsmaður Alþingis hafi heimild til þess að benda á meinbugi í gildandi lögum svo framarlega sem slíkt samræmist hlutverki umboðsmanns ef hann telur ástæðu til. Umboðsmaður metur af sjálfsdáðum og án kvörtunar hvort ástæða sé til að benda á meinbugi í lögum verði hann var við slíkt. Hvergi er að finna í greininni skyldu umboðsmanns til þess að hlíta boði frá forsetum Alþingis né neinum öðrum um mat á því hvort meinbugir séu á gildandi lögum.
    Í 4. gr. laganna um umboðsmann segir:
    ,,Umboðsmaður er í störfum sínum óháður fyrirmælum frá öðrum, þar með töldu Alþingi.``
    Þessi grein er skýr og ótvíræð. Umboðsmaður Alþingis þarf ekki að hlíta boði Alþingis um að gera álitsgerð um form og efni laga.
    Um hlutverk umboðsmanns Alþingis segir m.a. í 2. gr. laga nr. 13/1987:
    ,,Hlutverk umboðsmanns er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum þessum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins.``
    Í þál. um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis, sem samþykkt var á Alþingi 2. maí 1988 og birt var í A-deild Stjórnartíðinda sem auglýsing nr. 82/1988, er hlutverk umboðsmanns enn frekar afmarkað. Í 1. tölul. 3. gr. reglnanna kemur m.a. fram að starfssvið umboðsmanns nái ekki til starfa Alþingis. Í 4. tölul. sömu greinar kemur einnig fram að starfssvið umboðsmanns nái ekki til dómstarfa. Með samþykkt þessara reglna hefur Alþingi kveðið upp úr með það að störf Alþingis og störf dómstóla séu ekki á starfssviði umboðsmanns Alþingis.
    Frv. til laga um launamál, 40. mál yfirstandandi þings, var lagt fram nú í haust í hv. Nd. í samræmi við ákvæði 28. gr. stjórnarskrárinnar og hefur málinu verið vísað til fjh.- og viðskn. og fjallar hún nú um málið.
    Fjh.- og viðskn. mun að lokinni umfjöllun gefa út

nál. um þetta frv. sem og önnur mál sem nefndin afgreiðir. Með samþykkt þáltill. þeirrar sem nú er til umfjöllunar sýnist sameinað þing vera að taka fram fyrir hendur þingnefndar þeirrar sem nú fjallar um málið í hv. Nd.
    BHMR hefur höfðað mál fyrir bæjarþingi Reykjavíkur þar sem reynir m.a. á gildi bráðabirgðalaga um launamál gagnvart stjórnarskránni. Umboðsmaður Alþingis lýsir þeirri stefnu sinni á bls. 9 í fyrstu starfsskýrslu sinni til Alþingis fyrir árið 1988 að hann muni ekki fjalla um atriði sem lagt hefur verið fyrir dómstóla og að hætta umfjöllun um kvörtun um leið og efni hennar hefur verið lagt fyrir dómstóla.
    Af þessu er ljóst í fyrsta lagi að forsetar Alþingis hafa enga heimild í lögum til þess að fela umboðsmanni Alþingis að semja lögfræðilegar álitsgerðir fyrir Alþingi, í öðru lagi að samþykkt þessarar till. til þál. bindur á engan hátt umboðsmann Alþingis, í þriðja lagi að frv. til laga um launamál er til eðlilegrar umfjöllunar í hv. Nd. og í fjórða lagi að mál hefur verið höfðað fyrir bæjarþingi Reykjavíkur þar sem reynir á gildi bráðabirgðalaga um launamál, nr. 89/1990.
    Með vísan til ofanritaðs og þess að umboðsmaður Alþingis gæti ekki orðið við þeirri áskorun, sem felst í tillögu þessari, af ástæðum sem ég hef nú þegar rakið, legg ég til að samþykkt verði að vísa þessu máli frá með rökstuddri dagskrá og tekið verði fyrir næsta mál á dagskrá.
    Ég afhendi hæstv. forseta tillögu um rökstudda dagskrá.