Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég sé ekki ástæðu til að standa hér og karpa um form þeirrar þáltill. sem hér er til umræðu. Það er ljóst að nú þegar hafa margir lögfræðingar tjáð sig um málið. Þó svo að við bættist álit umboðsmanns Alþingis yrði þar auðvitað ekki um dóm að ræða. En eins og fram hefur komið í umræðunni er mál þetta nú fyrir dómi hér í Reykjavík.
    Öll rök hníga að því að setning bráðabirgðalaganna sé ekki bara siðlaus, eins og hér hefur komið fram, heldur það sem alvarlegra er að hér er um brot á a.m.k. tveimur greinum stjórnarskrár lýðveldisins að ræða. Það hlýtur að vera okkur alvarlegt umhugsunarefni hvort Íslendingar þurfi að treysta á það að sækja rétt sinn stöðugt til meginlands Evrópu.
    Það var mikið fát á ríkisstjórninni í sumar þegar hún setti þessi lög. Hæstv. ráðherrar voru fljótir að skipta um skoðun, það sést ef lesin eru dagblöð frá þessum tíma, en það virðist ganga eitthvað hægar að koma því inn hjá hæstv. ríkisstjórn að hér er auðvitað um alger mistök að ræða.
    Þetta mál er nú til meðferðar hjá hv. fjh. - og viðskn. Nd. Ég vil nota tækifærið hér til að skora á hv. þm. sem þar eiga sæti að knýja þetta mál áfram þannig að það komi til atkvæðagreiðslu hér í þinginu. Ég treysti því að hv. þm., hvort sem er í stjórn eða stjórnarandstöðu, skoði hug sinn vel. Og ég vil ekki trúa því fyrr en ég sé það gerast hér, þá í hv. Nd. væntanlega, að hv. þm. treysti sér til þess að standa að afgreiðslu þessara bráðabirgðalaga með því að greiða þeim atkvæði sitt, þ.e. hvorki stjórnarliðar né stjórnarandstæðingar. Ég tel brýnt, til þess að þetta mál verði leiðrétt og þessi mistök, bráðabirgðalögin, verði felld úr gildi, að þetta mál komi sem allra fyrst til afgreiðslu hér í Nd.