Framleiðsla vetnis
Mánudaginn 26. nóvember 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Þessi till. til þál. um framleiðslu vetnis gefur mér tilefni til nokkurra athugasemda og ábendinga um það athyglisverða mál sem þar er hreyft.
    Það er vissulega rétt að samhliða aukinni stóriðju gæti í framtíðinni orðið skynsamlegt að nýta raforku til þess að framleiða vélaeldsneyti, ekki síst vegna flutninga og sjávarútvegs á Íslandi en reyndar einnig til útflutnings. Hvort af þessu verður ræðst m.a. af tækniþróun sem við Íslendingar ráðum ekki en getum e.t.v. haft einhver áhrif á. Ég tel mikilvægt að við fylgjumst náið með framvindu mála á þessu sviði og mig langar til að benda á að í iðnrn. og stofnunum þess hefur að undanförnu verið fylgst mjög vandlega með möguleikum á þessu sviði auk þess sem rætt hefur verið við erlenda aðila um samstarf í þessu efni.
    Fyrir milligöngu iðnrn. og að þess frumkvæði komu hingað til lands í júlí á þessu ári fulltrúar frá þýsku fyrirtækjasamtökunum Dechema og frá Evrópubandalaginu og Hamborgarkaupstað til þess að ræða hugsanlegt samstarf við Íslendinga um athuganir á hagkvæmni vetnisframleiðslu á Íslandi. Vegna þess sem 1. flm. þessarar þáltill. sagði hér áðan um samstarf Þjóðverja og Kanadamanna vil ég taka fram nokkur atriði um það samstarf því að mér finnst að sú lýsing sem fram kemur í greinargerð þáltill. og í máli 1. flm., hv. 6. þm. Reykv., sé ekki rétt.
    Nokkur orð um þetta, virðulegur forseti. Þessi fyrirtækjasamtök, Dechema, hafa stjórnað fyrsta verkþætti í samvinnuverkefni milli framkvæmdastjórnar Efnahagsbandalags Evrópu og stjórnar Québec-fylkis í Kanada um vetnismál. Þetta verkefni byggir á hugmynd sem upphaflega kom fram og var þróuð í rannsóknastofnunum Evrópubandalagsins. Verkefnið er unnið í 20 fyrirtækjum og stofnunum í Evrópu og átta í Québec. Það er gert ráð fyrir að þetta verkefni verði unnið í fjórum þáttum eða áföngum. Hinn fyrsti var frumáætlun sem lauk í mars 1987. Annar var nánari skilgreining verkefnisins og verk - og kostnaðaráætlun fyrir það, en það er einmitt sá þáttur sem nú er í framkvæmd og það er áætlað að þeim áfanga ljúki í mars á næsta ári. Þriðji áfanginn er svo verkfræðileg hönnun og gerð útboðsgagna. Gert er ráð fyrir að sá áfangi taki a.m.k. 1 -- 2 ár. Fjórði og síðasti áfanginn í þessu samstarfsverkefni Evrópubandalagsins og Québec - fylkisstjórnar í Kanada er framkvæmdirnar sjálfar og gert er ráð fyrir að þær taki 4 -- 5 ár.
    Kostnaður við annan verkþáttinn, þann sem nú stendur yfir, var áætlaður um 3 millj. evrópskra mynteininga, ECU, eða um 230 millj. kr. sem skiptist jafnt á Efnahagsbandalagið, Québec og fyrirtækin sem taka þátt í verkefninu. Kostnaður við verkþætti 3 og 4, sem ég nefndi áðan, þ.e. verkhönnun og framkvæmdir, er hins vegar talinn verða um hálfur milljarður ECU sem jafngildir um 38 milljörðum íslenskra króna. Og það er einmitt þarna sem enn eru óleyst mál því að fjármögnun þessara verkþátta er enn alls óráðin. Það er gert ráð fyrir að helmingur þeirrar fjárhæðar þurfi að koma frá iðnfyrirtækjunum sjálfum þannig að hinir opinberu aðilar, landið Hamborg í Sambandslýðveldinu Þýskalandi, Sambandsstjórnin í Þýskalandi og Evrópubandalagið, væru fúsir til að leggja fé á móti.
    Það er rétt að benda á að verkefnið snýst að verulegu leyti um það að sýna fram á að hægt sé að framleiða, flytja, geyma og dreifa vetni og nota það til þess að framleiða raforku, til þess að framleiða varma og í stað eldsneytis á ýmiss konar flutninga - og samgöngutæki. Auðvitað er framleiðsla á vetni með rafgreiningu í sjálfri sér ákaflega vel þekkt, Áburðarverksmiðjan í Gufunesi hefur t.d. framleitt vetni með þeirri aðferð í áratugi. En það eru þessir aðrir þættir sem ég nefndi sem nauðsynlegt er að taka á ef á að gera þetta að framkvæmanlegum hlut.
    Ég tel líka alveg nauðsynlegt, virðulegur forseti, að benda á að það er ekki rétt sem kemur fram í greinargerð með tillögunni, að samið hafi verið um kaup á 100 megavöttum af raforku í Kanada til að framleiða vetni. Slíkur samningur hefur ekki verið gerður, hvað þá að samið hafi verið um orkuverð eins og þar er gefið í skyn og 1. flm., hv. 6. þm. Reykv., endurtók héðan úr ræðustólnum áðan. Allur samanburður við íslenskt orkuverð er því alveg út í hött og allsendis ótímabær.
    Það er líka rétt vegna tímaáætlana í þessu máli að benda á að í heimsókn fulltrúa iðnrn., Háskólans og fleiri íslenskra aðila til Airbus-fyrirtækisins í Hamborg
í lok októbermánaðar sl. kom fram að fyrirtækið telur unnt að flugvél knúin vetni gæti hafið sig til flugs eftir tíu til fimmtán ár, en ekki í síðasta lagi árið 1996 eins og fram kemur í grg. Þetta er byggt á beinum viðtölum við þá menn sem vinna nú að því að hanna þennan farkost, þessa vetnisflugvél.
    Í ágúst sl. kom einn framkvæmdastjóra Evrópubandalagsins, Martin Bangemann, í opinbera heimsókn til Íslands. Honum voru kynntir möguleikar til þess að nýta innlendar orkulindir, m.a. til þess að framleiða vetni. Ég ræddi þá ítarlega við hann um möguleika á samstarfi Íslendinga og Evrópubandalagsins á þessu sviði. Það var ákveðið að stefna að því að koma á fót samstarfsverkefnum milli íslenskra stjórnvalda og Evrópubandalagsins, m.a. hvað varðar tilraunaframleiðslu á eldsneyti. Í framhaldi af þessu fóru svo fulltrúar frá iðnrn., Landsvirkjun, Iðntæknistofnun, Járnblendifélaginu og Háskóla Íslands á fund í vetnisfélaginu í Hamborg, sem er félag fyrirtækja og áhugamanna um nýtingu vetnis í orkubúskap Þjóðverja, til þess að kynna sér stöðu rannsókna á nýtingu vetnis sem eldsneytis og möguleika á að nýta orkulindir Íslands til að framleiða vetni. Þar var reyndar skrifað undir sameiginlegt minnisblað um samstarf við þetta vetnisfélag, Gesellschaft zur Förderung der Wasserstoffswirtschaft, um möguleika á framleiðslu vetnis á Íslandi.
    Nú er verið að vinna að gerð áætlunar um verkefni sem í verður ráðist í þessu sambandi með þátttöku ýmissa innlendra aðila. Það er gert ráð fyrir því

að markaðsskrifstofa iðnrn. og Landsvirkjunar og iðnrn. muni verja fé til verkefna á þessu sviði á næsta ári, eins og raunar kemur fram í fjárlagafrv. fyrir næsta ár þar sem nefnd er fjárhæðin 4,4 millj. kr., til athugana á möguleikum á framleiðslu vetnis, eins og hv. 6. þm. Reykv. nefndi hér áðan.
    Notkun vetnis sem eldsneytis er a.m.k. enn sem komið er óhagkvæm fjárhagslega í samanburði við hefðbundið eldsneyti. En auðvitað er það líka rétt að þá eru ekki metnir þeir eðliskostir vetnisins að það er mengunarlaust þegar það er nýtt í sprengihreyflum. Þá er líka rétt að hafa í huga, sem ég hef ekki séð í því efni sem fylgir þessari þáltill., að enn sem komið er fylgir því veruleg sprengihætta við geymslu og átöppun á efninu á farkostina.
    Við verðum líka jafnan að hafa það í huga að vetnið er orkuberi eins og raforkan, en ekki orkulind eins og vatnsorkan og olían. Það er óljóst hvaða aðferðir yrðu notaðar til að framleiða vetni í framtíðinni ef það á að koma í stað olíu og kola sem eldsneyti framtíðarinnar. Ég leyfi mér að benda á að þar eru aðrar leiðir til athugunar og rannsókna en rafgreining sem hér er aðallega rætt um.
    Það er rétt að benda á að Evrópubandalagið vinnur að fleiri verkefnum á þessu sviði en þessu kanadísk- evrópska samstarfsverkefni. M.a. má ég nefna þar framleiðslu vetnis með sólarorku í Norður-Afríku. Það er líka rétt að benda á að geysimikla orku þyrfti til að framleiða vetni ef það ætti að koma í verulegum mæli í stað notkunar jarðefnaeldsneytis, t.d. kola, olíu og jarðgass. Það er talið að framleiða mætti með allri tæknilega nýtanlegri vatnsorku í heiminum vetni sem gæti komið í stað e.t.v. 10% af áætlaðri þörf fyrir það sem ég kalla jarðefnaeldsneyti árið 2020.
    Það er auðvitað rétt, eins og fram kemur í tillögunni, að það er mjög mikilvægt að Íslendingar fylgist náið með og stundi rannsóknir á aðferðum til að framleiða eldsneyti með nýtingu innlendra orkulinda fyrir augum. En ég leyfi mér að benda á að það er unnið skipulega að þessu máli. Það er stefnt að samstarfi við erlenda aðila, einkum Evrópubandalagið, í þessu skyni.
    Eins og ég sagði áðan, og hv. flm. tók fram, þá er hér gert ráð fyrir nokkru fé til athugunar á möguleikum til framleiðslu á vetni, auk þess sem stofnanir þær sem að jafnaði fást við orkurannsóknir og við það að markaðssetja orku á erlendum vettvangi munu að sjálfsögðu sinna því.
    Varðandi athuganir sem lúta að nauðsynlegum breytingum á vélum til að brenna vetni verðum við að sjálfsögðu að leggja aðaláherslu á að fylgjast með, enda þarf sterkan, öflugan og þróaðan iðnað að bakhjarli eigi að ná verulegum árangri með slíkum rannsóknum.
    Virðulegi forseti. Þetta athyglisverða mál gefur mér tilefni til þess að benda á að nýtingu okkar Íslendinga á okkar eigin orkulindum, okkar orkubúskap, má í aðalatriðum skipta í þrjá áfanga eða tímabil. Á fyrsta tímabilinu var höfuðáherslan lögð á rafvæðingu landsins, lagningu hitaveitna á þéttbýlisstöðum þar sem

auðvelt og ódýrt var að virkja jarðvarma. Á næsta tímabili var farið að nýta orkulindirnar til þess að treysta undirstöðu þjóðarbúsins með því að virkja, einkum vatnsorkuna, til stóriðju. Þetta stig stendur enn. Á þriðja tímabilinu í kjölfar olíukreppunnar 1973 -- 1974 var dregið úr þýðingu olíunnar í orkubúskapnum með því að nýta innlendar orkulindir, fyrst og fremst jarðvarma og vatnsorku, í stað innfluttrar olíu. Nú er svo komið að innlendar orkulindir hafa svo til algjörlega komið í staðinn fyrir olíu í húshitun og um 90% af olíunotkuninni er í dag vegna samgangna og fiskveiða. Það er einmitt þess vegna sem við þurfum að búa okkur undir nýtt tímabil, fjórða tímabilið, sem gæti einkennst af framleiðslu vélaeldsneytis. Ég tel eðlilegt að þessari tillögu verði sinnt í hv. atvmn. en efast um að önnur afgreiðsla en sú að vísa henni til ríkisstjórnarinnar sé skynsamleg.