Framleiðsla vetnis
Mánudaginn 26. nóvember 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegur forseti. Örfá orð um stöðu þessa samstarfsverkefnis sem flm. þáltill. hafa mjög vitnað til. Þetta er samstarfsverkefni Evrópubandalagsins og fylkisstjórnarinnar í Québec í Kanada. Aðalþátttakandi frá þeirri hlið er helsta raforkufyrirtæki fylkisins, Hydro Québec.
    Ég hef átt þess kost að ræða við báða aðila málsins, bæði fulltrúa Evrópubandalagsins og fulltrúa Kanadastjórnar, og málið stendur, eins og ég lýsti hér áðan, enn á undirbúningsstigi. Það hafa ekki verið gerðir neinir efnahagslega bindandi samningar, einfaldlega af því að fjármögnun verkhönnunar og framkvæmda er enn óleyst. Það er ekki búið að finna þá aðila sem vilja leggja fram helminginn af kostnaðinum við þetta mikla verk, sem kannski er af stærðargráðunni 500 millj. ECU, án þess að eiga nokkurn tímann von á að fá þetta til baka. Spurningin er sú hvort svo rausnarlegur aðili finnst. Það er þá helst verið að hugsa til Evrópubandalagsins og Sambandslýðveldisins Þýskalands, og Hamborgar, en þá þarf iðnaðurinn að koma á móti og það hefur iðnaðurinn enn ekki viljað gera upp við sig. Þess vegna er ekki hægt að lýsa þessu á þann hátt sem hér er gert.
    En auðvitað er það líka rétt að margir aðilarnir að þessu verkefni, sem taka náttúrlega þátt í því af því að þeir eru rannsóknarmenn og hafa áhuga á því, líta fyrst og fremst til Íslands sem möguleika af því að þeir hafa hugmynd um að ýmsir viðskiptaaðilarnir í verkinu hefðu frekar áhuga á því. Þetta gildir án alls efa um Hamborgarstað sem hefur frá fornu fari samband við Ísland og hefur kannski meiri áhuga á því að leysa verkið í samstarfi við Íslendinga, auk þess sem Ísland liggur miklu nær meginlandi Evrópu en Kanada. Þetta á allt eftir að koma í ljós. Þannig vilja sumir Þjóðverjanna líta á þetta sem valkost við þetta kanadíska samstarf. Aðrir segja að íslenskt verkefni geti verið framhald eða viðbót. Þetta er allt saman óráðið en auðvitað er það rétt að það væri ákaflega hagstætt ef sú tækni finnst og þau efnahagsskilyrði verða að það sé hægt að nýta innlenda orkugjafa sem orkubera í samgöngum og sjávarútvegi. En það er hins vegar ekki rétt að gefa í skyn að það sé handan við hornið. Það er heldur ekki rétt að gefa í skyn að við getum, jafnvel með rausnarlegum fjárveitingum, fengið því framgengt að þetta yrði. Þetta þýðir hins vegar alls ekki að við leggjum árar í bát. Það sýnir allt okkar starf á þessu ári. Það sýnir tillagan í fjárlagafrv. Þess vegna er þessi tillaga sem hér liggur fyrir fyrst og fremst þörf sem umræðugrundvöllur um það sem verið er að gera og að því leyti ástæða til að þakka fyrir hana.