Grunnskóli
Þriðjudaginn 27. nóvember 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir :
    Virðulegur forseti. Frv. um grunnskóla var lagt fram á síðasta þingi þegar komið var undir vor og fékk þá allítarlega umræðu. En raunin varð svo sú að einungis var tekið eitt ákvæði út úr því frv. og samþykkt í vor, þ.e. að lögfesta skólaskyldu sex ára barna og nú hefur frv. verið lagt aftur fram með nokkrum breytingum. Af því sem ráða má af fyrstu yfirferð yfir þetta frv., þá virðast þær vera til bóta og að talsvert tillit hafi verið tekið til ýmissa athugasemda sem komu fram við umræður í fyrra.
    Það er alveg ástæða til þess að nefna það að það hefur verið mjög mikil vinna í menntmrn. um málefni skóla undanfarið, ekki bara grunnskóla heldur annarra skóla, og nægir að nefna í því efni ráðstefnuna þar sem drögin um menntastefnu til ársins 2000 voru kynnt. Það er auðvitað mjög ánægjulegt að svona mikil einbeiting, mikill áhugi sé á því að bæta skólakerfið eins mikið og unnt er.
    Ég ætla ekki að staldra mikið við einstakar greinar í þessu frv. Það gerði ég mikið í fyrra og mun gera það í nefndinni þar sem ég tel ástæðu til, en ég ætla fyrst að víkja að því sem hæstv. menntmrh. gerði að umræðuefni í upphafi sinnar ræðu er hann var að lýsa því að við öll sem sætum á Alþingi hefðum þetta sameiginlega baráttumál, að stefna að einsetnum grunnskóla þar sem skóladagur verði ekki sundurslitinn. Hann vitnaði til stefnu flokka í þessum málum og m.a. gerði hann að umræðuefni að nokkrir hefðu tilgreint í þessu sambandi um einsetna, samfellda skóla að samræma þyrfti vinnudag nemenda og foreldra.
    Nú er það svo að jafnvel þó að svo hafi það verið orðað í stefnuskrá Kvennalistans árið 1987, þá er nú svo komið að ég hef vissar efasemdir um þetta orðalag. Það virðist ekkert benda til þess að vinnuáþján aflétti hér á landi í nánustu framtíð og því má leiða að því rök að það geti verið varasamt að orða þetta svona því að sannarlega býst ég við að ekkert okkar vildi sjá nemendur sitja á skólabekk 10 -- 12 klukkustundir á dag. Betra væri e.t.v. að taka upp orðalagið ,,að samræma vinnudag foreldra veru nemenda í skólum`` og það væri verðugt stefnumál fyrir okkur öll að sameinast líka um það þegar við stefnum að einsetnum, samfelldum skóla.
    Í grg. eru tíunduð ýmis frumvörp sem fram hafa komið um sama mál, þ.e. um málefni grunnskóla, og enn eru nokkur atriði sem voru í frv. sem þingkonur Kvennalistans í Ed., Guðrún Agnarsdóttir og Danfríður Skarphéðinsdóttir, fluttu sem ég hefði kosið að sjá í þessu frv. Svo að ég taki það lauslega eftir þeirri röð sem það kemur hér fyrir, þá lögðu kvennalistakonur áherslu á það að takmarka stærð skóla, að stefna að því að nemendafjöldi í hverjum skóla fari ekki yfir 400 og í skólum fyrir yngri nemendur fari fjöldi ekki yfir 300. Að vísu er svo stefnt að því í þessu frv. að allir skólar skuli vera það sem hér er kallað heildstæðir og vil ég nú leyfa mér að efast um að það sé endilega hin rétta stefna að allir aldurshópar skuli vera í sama skóla. Það getur bæði háttað mismunandi til í byggðarlögum og svo sannarlega æskilegt að sérstaklega yngri nemendur eigi sem styst að fara þó að það geri kannski eldri nemendum minna til þó að vegalengdir séu meiri. En það má líka leiða hugann að ýmsum vandamálum sem koma upp í skóla þar sem allir aldurshópar eru saman. Það hefur verið mjög til umræðu undanfarið vaxandi ofbeldi í skólum og á skólalóðum og eru það þá yfirleitt elstu nemendurnir sem herja á þá yngri. Auðvitað er hin endanlega lausn vandamálsins ekki sú að skilja aldurshópana að. Aðrar lausnir væru betri en fyrst og fremst þarf kannski að reyna að grafast fyrir um orsök vandans og taka á þessum vanda með ýmsu móti, en samkvæmt ýmsum upplýsingum sem komið hafa fram, m.a. um einelti í skólum og annað slíkt, þá er ljóst að það er oft yngri nemendum til mikillar hrellingar að vera innan um svo stóra krakka eða þessa eldri nemendur. En aðstæður eiga auðvitað fyrst og fremst að ráða þessu, en það þarf ekki að vera ófrávíkjanleg stefna. Að vísu skal tekið fram að hér er aðeins sagt ,,stefnt skal að``.
    Við kváðum fastar að orði um ýmsa aðstöðu nemenda heldur en gert er í þessu frv. og ég gerði einmitt hér að umtalsefni í fyrra stærð kennslustofa, hvort nóg væri hugað að því að hver nemandi hefði visst svigrúm inni í kennslustofum. Á það er líka lögð áhersla í frv. kvennalistakvennanna að gert skuli ráð fyrir aðstöðu til að njóta málsverðar og hvíldar. Og þar er reyndar kveðið á um að það skuli komið upp mötuneytum í hverjum skóla og ráðið starfsfólk til þess. Og þó að það komi fram í þessu frv. að vilji sé nú til þess að stefna að því að taka upp skólamáltíðir, þá hefði verið stoð að því að hafa skýrari ákvæði um aðstöðu til þess inni í skólunum.
    Sú lenging skóladagsins sem er til í þessu frv. nær ekki lengra en að vikulegur kennslutími á hvern nemanda skuli vera frá 1000 mínútum upp í 1400 mínútur. Við kvennalistakonur höfðum gert ráð fyrir heldur hærra hlutfalli, að stefnt yrði að 1200 mínútum fyrir þá yngstu og síðan stighækkandi upp í 1440 til 1480 mínútur fyrir þá elstu. Sú viðmiðun, sem er í frv. menntmrh., gerir sem sagt ráð fyrir 25 kennslustundum á viku fyrir yngstu börnin og um 36 stundum fyrir þau elstu, en við gerðum ráð fyrir 30 stundum á viku fyrir þau yngstu, en 36 til 37 fyrir þau elstu og með tilliti til þess að það er sífellt verið að fjölga greinum í skólum og gera meiri kröfur til skólanna, bæði að þar séu fleiri námsgreinar og ýmsu uppeldisstarfi sé líka sinnt þar, þá hvarflar það að manni að þetta hlutfall sem hér er lagt til reynist of lágt þegar til kemur.
    Sama máli gegnir um fjölda nemenda í bekkjum. Í þessu frv., sem hér liggur frammi, er gert ráð fyrir að hámarksfjöldi nemenda verði þegar þetta hefur náð fram að ganga 22 og 28 í efri bekkjum. Sérstaklega veldur þetta áhyggjum í yngri bekkjunum, bæði með tilliti til þess að gert er ráð fyrir blöndun í bekki og líka með tilliti til þeirra umskipta sem verða í lífi barns þegar það fer t.d. úr leikskóla og í grunnskóla. Það eru miklu, miklu færri börn sem gert er ráð fyrir að séu í umsjón hverrar fóstru í leikskólanum heldur en þarna er gert ráð fyrir að verði í skólunum. Og það er spurning hvort þessi aðlögunartími ætti ekki að vera mýkri og hvort ekki ætti að taka þetta í fleiri áföngum.
    Hvað blöndun viðkemur þá hygg ég að flestir séu sammála þeirri hugmyndafræði sem að baki blöndun liggur en það hefur auðvitað margkomið fram, og kom mjög skýrt fram á títtræddri ráðstefnu um drög að menntastefnu um daginn, að mjög margir sem starfa að skólamálum töldu að í þeim málum hefði lítið annað gerst heldur en eins og einhver orðaði það: Það var blandað og svo var ekkert annað gert. Því að forsenda blöndunar var að það yrði veruleg fækkun í bekkjum og að kennarar réðu við að hafa í sinni umsjón nemendur á mismunandi stigum, bæði hvað varðaði þroska og námsgetu, og kom greinilega fram að skólafólk telur upp til hópa að þessu markmiði hafi ekki verið náð og því hafi í rauninni blöndunin ekki náð sínum tilgangi. Þess vegna er e.t.v. umhugsunarefni hvort hugmyndafræðin nægir þarna ein þegar svona skortir á framkvæmd. Og þegar ljóst er að ekki á að fækka meira í bekkjum en hér kemur fram, þá verða efasemdirnar enn sterkari um það að blöndunin nái tilgangi.
    Ég sagði hér áðan að ég ætlaði lítið að fjalla um einstakar greinar og ég ætla að standa við það en gera þó einstaka athugasemd hér og þar. Þegar verið er að ræða um stærð skóla og nemendafjölda í bekkjum, þá er kveðið svo á í 17. gr. að íbúar í hverju skólahverfi skuli að jafnaði ekki vera fleiri en 15 þús. Við hefðum kosið að sjá þarna töluna 10 þús. í staðinn.
    Í IV. kaflanum, um starfslið grunnskóla, þar sem kveðið er á um ráðningu skólastjóra, þá vil ég aftur varpa því fram sem ég gerði hér í fyrra hvort ekki væri ástæða til þess að huga að takmörkuðum ráðningartíma skólastjóra við grunnskóla. Í síauknum mæli hefur verið ráðið í ýmsar stjórnunarstöður takmarkað, það hefur gilt fjögurra ára regla og heimild til endurráðningar einu sinni, í einhverjum tilfellum eru það fimm ár og heimild til endurráðningar, og það er íhugunar virði hvort ekki er ástæða til þess a.m.k. að athuga þetta varðandi skólastjóra. Þá má haga því með mörgu móti, t.d. að enginn væri skólastjóri lengur en einhvern ákveðinn tiltekinn tíma í hverjum skóla þannig að sífellt sé viss endurnýjun í skólastjórninni og mönnum gefist ekki tími til að setjast í hægan sess og e.t.v. staðna. Bara það að skipta um skóla, koma í nýtt umhverfi með nýju samstarfsfólki, er örvandi og það væri e.t.v. hægt að hugsa sér það sem fyrsta skref í þessa átt.
    Ég vil aftur minna aðeins á það sem nú er 40. gr. þar sem kveðið er á um hvenær kennsluskylda minnkar. Ég ætla ekki að tíunda það en hér er tekið fram að til þess að öðlast þennan rétt þurfi tíu ára kennsluferil. Þetta er ákvæði sem kemur konum sérstaklega til góða vegna þess að eins og við vitum, þá hefja þær oft seint sinn starfsferil og nokkuð oft er hann sundurslitinn svo að það er gott til þess að vita að þær geti áunnið sér þessi réttindi með þessum hætti sem

nú er kveðið á um hér.
    Hæstv. ráðherra gerði að umtalsefni innihald 50. gr. Nú eru tekin af öll tvímæli um það hver skal greiða fyrir hvað og vonandi koma ekki upp deilur af þeim toga sem gerðist nú í haust um útgjöld foreldra skólabarna.
    Í 51. gr., sem var 43. gr. ef ég man rétt, þar sem kveðið er á um tómstunda - og félagsstarf, hefði ég vissulega kosið að sjá einhver merki frv. sem ég var fyrsti flm. að, en meðflm. voru reyndar úr öllum þingflokkum, og flutt var bæði í fyrra og hittiðfyrra um samstarf skóla og listastofnana. Ég veit að eitthvað í þá veru er komið í framkvæmd, þó í litlum mæli sé, á vegum Bandalags ísl. listamanna en ég hefði kosið að sjá það neglt aðeins betur niður í lögum að þessi starfsemi skuli fara fram.
    Í VIII. kafla er kveðið á um kennsluráðgjöf og sálfræðiþjónustu. Ég held að í þessum ákvæðum um kennsluráðgjöf og faglega umsjón og eftirlit felist engin niðurlæging
fyrir kennara. Ég held að það hljóti einmitt að vera til bóta að starf þeirra sé sett undir mæliker öðru hvoru og vil minna á fund sem haldinn var í Háskóla Íslands í gær fyrir menntmn. þingsins en þar var einmitt verið að lýsa starfsmati eða mati á kennurum sem nemendur standa að. Ég er nú ekki að segja að nemendur í grunnskóla séu til jafns færir um það og nemendur í háskóla, en þegar viðkomandi starfsmaður Háskólans var að lýsa árangri þessa mats þá er greinilegt að þetta er mjög gott aðhald og er mjög örvandi fyrir kennara að fá eitthvert viðlíka mat á sín störf, ekki bara til að benda á þá kennara sem e.t.v. standa sig ekki nógu vel eða eitthvað misferst, heldur ekki síður fyrir þá sem vinna störf sín vel og af miklum áhuga. Það er líka gott fyrir þá að fá sönnun þess öðru hvoru að eftir því sé tekið og það sé einhvers metið. Um þá þróun sem m.a. getur falist í einhverju slíku mati þarf ekki að fjölyrða, það verður aldrei fundið upp endanlegt skólakerfi eða kennsluaðferðir og því er sjálfsagt að hafa þar alltaf opin augun.
    Í ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir því að að fimm árum liðnum frá gildistöku þessara laga skuli menntmrh. gera Alþingi grein fyrir framkvæmd og undirbúningi þeirra bráðabirgðaákvæða sem hér eru talin.
    Ég gerði það að umtalsefni í fyrra og mun gera það aftur nú að ég tel að þetta ætti að vera oftar sem menntmrh. gerði grein fyrir stöðu mála vegna þess að ef í ljós kemur að helmingur tímans sem ætlaður er til þessara breytinga, þ.e. 10 ár, er liðinn áður en við hér á Alþingi fáum tækifæri til þess að kynnast því hvaða árangur hefur náðst, þá er e.t.v. of seint að grípa í taumana. Það getur vel verið að það valdi vissu vantrausti að svipuð áætlun var gerð í sambandi við dagvistun hér um 1980. Það átti líka að vera 10 ára áætlun og hún stóðst aldrei og það er langt í frá að þau markmið sem þá voru sett hafi náðst enn þá. Aðhald við menntmrn. og fjárveitingavaldið er vissulega nauðsynlegt í þessum efnum og ég held það væri ekki ofverk, hvorki ráðherra né þingmanna, að fá

þessa greinargerð oftar.
    Í grg. er vikið að helstu breytingum þessa frv. frá því frv. sem lagt var fram í fyrra. Þar er m.a. kveðið á um aukið hlutverk samstarfsnefndar menntmrn. og Sambands ísl. sveitarfélaga og er það vel. Þar kemur fram að þessari nefnd er einkum ætlað að gera áætlun um hvernig markmiðum um einsetinn skóla, lengri og samfelldari skóladag og skólamáltíðir og fleira verði náð.
    Þessi mál hafa verið svo lengi á döfinni og verið áhugamál svo margra að ef vel væri þá ætti auðvitað þessi áætlun að liggja fyrir en það má auðvitað segja að betra er seint en aldrei. En því skýrari sem markmiðin eru sem keppt er að og því skýrari sem leiðirnar eru sem á að fara, þeim mun meiri líkur eru á því að markmið náist. Vona ég svo sannarlega að þessi nefnd vinni bæði fljótt og vel þannig að það liggi von bráðar fyrir hvernig unnið skuli að þessu ásamt kostnaðaráætlun og öllu því sem tilheyrir.
    Ég vil líka varpa fram í því sambandi þeirri hugmynd hvort ekki er ástæða til að gera sérstaka áætlun og setja þá á stofn einhvers konar samstarfsnefnd sem skyldi vinna að slíkri áætlun, þ.e. hvernig á að ná þeim markmiðum sem sett eru um stóraukna kennslu og stóraukna áherslu á list- og verkmenntagreinar. Ég held að þar sé ástandið svo slæmt að það þurfi að gera séráætlun um þau mál. Ég vil minna á skýrslu sem tekin var saman af menntmrn. fyrir nokkrum árum, reyndar að beiðni minni og annarra þingmanna, um stöðu list- og verkmenntagreina. Þar kom svo greinilega fram að ástandið er verulega slæmt og þess vegna þarf auðvitað sérátak þar ef þessi markmið eiga að nást og ég held að það væri til bóta ef einhverri sérstakri nefnd eða einhverjum sérstökum hópi væri falin einhvers konar áætlunargerð, sérstök drög að menntastefnu í list- og verkmenntagreinum. Það hafa auðvitað fjölmargar tillögur verið lagðar fram um ýmis mál sem það varðar en það er ljóst að bæði er skortur á aðstöðu fyrir þessar greinar og skortur á kennurum í þessum greinum og ekki nógu ljóst hvernig standa skal að menntun þeirra eða hverjir skuli kenna þessi fög og því full þörf að taka fast á því. Ég minni t.d. á tillögu um samræmingu og samhæfingu tónlistarskóla og tónmenntakennslu í skólum sem samþykkt var hér og mér skilst að nefnd sem sett var í framhaldi af því hafi skilað niðurstöðu. Það hlýtur t.d. að vera gott veganesti í svona vinnu.
    Að lokum vil ég aðeins nefna hér námsráðgjafa en ákvæði um þá er nýtt í þessum lögum og er það vel að námsráðgjafar skuli nú starfa lögum samkvæmt í grunnskólum. Hæstv. menntmrh. sagði hér áðan að það væri ætlaður einn námsráðgjafi á hverja 650 nemendur, ef ég hef skilið hann rétt. Ljóst er að það er mikil þörf á þessu starfi í skólunum.
    Fyrir nokkrum dögum fóru einmitt menntamálanefndir Alþingis í heimsókn í Menntaskólann við Sund og þar kom ýmislegt markvert fram, m.a. það að af hverjum 300 nemendum sem hefja nám í þeim skóla hætta 100, þ.e. einn þriðji nemenda fellur brott á fyrsta ári. Hluti skýringar á þessu brottfalli virðist

vera sú að nemendum er ekki ljóst í hvers konar nám þeir eru að fara þegar þeir fara t.d. inn í menntaskóla eða kannski er þeim ekki ljóst hvert þeir vilja stefna með sínu námi og m.a. þess vegna er það brýnt að námsráðgjöf komi til á lægri skólastigum. Eins mundi námsráðgjöf eflaust draga úr ýmsum öðrum vandamálum sem gera vart við sig, t.d. námsleiða, slæmum námsárangri af ýmsum ástæðum og ýmislegu þess háttar sem mætti eflaust úr bæta ef einhver hefði það á sinni könnu að grafast virkilega fyrir um orsakir og reyna að bæta úr.
    Það kom líka fram á þessum fundi að í þessum skóla töldu skólamenn að um 10% nemenda sem kæmu til náms í þeim skóla --- ég veit ekki hvort það er orðað svo --- þjáðust af ólæsi. Og þar var auðvitað líka komin önnur skýring á þessu mikla brottfalli. Nú er auðvitað alveg ljóst að það getur ekki verið að svo hátt hlutfall nemenda í grunnskóla hafi ekki til þess getu að læra að lesa. Til þess liggja auðvitað ýmsar aðrar orsakir og námsráðgjafar gætu eflaust verið m.a. liður í því að bæta þarna úr og reyna að kanna hvernig stendur á þessu.
    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég enn gera að umræðuefni þessi ákvæði til bráðabirgða um hvaða markmiðum skuli ná á tíu árum, þ.e. markmiðið einsetinn skóli með samfelldum skóladegi, skuli nást á tíu árum. Ég lýsti því hér í fyrra og ég geri það enn að þetta er of langur tími. Við höfum sem betur fer hér á yfirstandandi þingi talsvert oft gert málefni barna að umræðuefni af ýmsum tilefnum. Það er alveg ljóst að það eru svo mörg teikn á lofti um slæmar aðstæður og slæman aðbúnað barna og skólinn er náttúrlega eitt stærsta mannréttindamál barna. Vandamál, sem skapast hjá fjölskyldum og börnum vegna þessa stutta og sundurslitna skóladags, verður að leysa. Ég ætla ekki að tíunda hér og nú margt í því sambandi, það hefur verið gert hér oft og iðulega. En þar sem hæstv. menntmrh. byrjaði nú ræðu sína á því, eins og ég sagði áðan, að lýsa því að þetta væri sameiginlegt áhugamál allra þingflokka á Alþingi og yfirlýst forgangsmál allra þingflokka, þá vil ég beina því til hans hvort hann geti ekki haft frumkvæði að því að kalla þá til fulltrúa frá öllum þingflokkum til þess að leggja á ráðin um það hvernig megi ná þessu markmiði fyrr. Það er alveg ljóst að til þess að svo megi verða þarf að koma til aukið fé og það fé verður að taka einhvers staðar. Og það væri fróðlegt að athuga hvort þingflokkar gætu náð um það samstöðu að ákveða að taka peninga frá einhverjum málaflokki og flytja yfir í þennan málaflokk. Í því þarf ekki að felast sá dómur að þar sem niðurskurði yrði beitt væru vond mál eða ónauðsynleg, síður en svo, einungis væri þetta viljayfirlýsing um hvað væri hið raunverulega forgangsmál og það væri fróðlegt að láta á það reyna hvort allir þingflokkar eru tilbúnir að fylgja eftir yfirlýsingum um nauðsyn þessa máls og að það skuli hafa forgang.