Jarðalög
Þriðjudaginn 27. nóvember 1990


     Páll Pétursson :
    Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að hafa um þetta langa ræðu eins og hv. flm. Ég vil bara láta það koma fram hér við þessa 1. umr. að ég er andvígur þessu frv. og ég held að það gæti nokkuð mikils ókunnugleika og fljótfærni hjá hinum góðu vinum mínum sem flytja þetta mál, það eru valinkunnir sæmdarmenn, hv. þm. tveir, og ég tel að þeim hafi þarna skotist þó skýrir séu. Það er mjög eðlilegt og nauðsynlegt vegna almannaheillar og góðrar þróunar í landinu að sveitarstjórn og jarðanefndir hafi hönd í bagga með viðskiptum eins og hér er verið að fjalla um og það er ákaflega eðlilegt að sveitarfélag hafi forkaupsrétt. Það er náttúrlega fjarri lagi að halda því fram að seljandi hljóti að verða hlunnfarinn þó þessi ákvæði séu í lögum. Forkaupsréttur er í eðli sínu réttur til að ganga inn í hæsta boð og seljandi fær sitt þó að kaupandi verði e.t.v. annar heldur en seljandi ætlaði í fyrstu.
    Ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að sveitarstjórn hafi vitneskju um ráðstöfun jarða og jarðahluta innan sveitarfélagsins og eðlilegt að jarðanefnd hafi líka þessa vitneskju. Jarðanefnd ber að stuðla að skynsamlegri og skipulagðri nýtingu jarðanna og sveitarstjórn er til fyrir íbúana í sveitarfélaginu og hlýtur að líta á hagsmuni íbúa sveitarfélagsins. Hagsmunir sveitarfélaganna krefjast þess sem sagt að hér sé nokkurt öryggi á.
    Ég vísa algjörlega á bug útúrsnúningi hv. flm. um íbúa í fjölbýlishúsum þar sem hann var að líkja því saman. Það var algjörlega óskylt dæmi sem hann tók.
    Það ber að fagna áhuga þéttbýlisbúa á útivist og þeir eru boðnir velkomnir í sveitirnar. Sveitarfélögum er ánægja að því að fá sumargesti og hagur af því í mörgum tilfellum og það er alveg óþarfi fyrir jafnmikla heiðursmenn eins og hv. þm. tvo sem flytja þetta frv. að telja víst að þeir séu óvelkomnir í sveitirnar. Það er mesta fjarstæða. Það er nóg pláss fyrir svona öðlinga í sveitum landsins.
    Með jarðalögum er prýðilega tryggður réttur seljenda, kaupenda og samfélagsins og ég held að það væri mikið óhappaverk að fara að skadda þá löggjöf með þeim hætti sem hér er lagt til og þar á ofan er náttúrlega fáránlegt og mjög óþinglegt að vísa þessu til einhverrar annarrar nefndar en landbn. því að sjálfsögðu er þetta upplagt mál til að vísa til landbn. og engrar annarrar.