Byggðastofnun
Miðvikudaginn 28. nóvember 1990


     Matthías Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ársskýrsla Byggðastofnunar fyrir árið 1989 var lögð hér fram í vor fyrir þinglok en að samkomulagi varð að ræða skýrsluna nú á þessu hausti. Hæstv. forsrh. hefur þegar fylgt henni úr hlaði. Samkvæmt lögum um Byggðastofnun þá er hún sjálfstæð stofnun sem heyrir undir forsrh. og hlutverk hennar er að stuðla að þjóðfélagslega hagkvæmri þróun byggðar í landinu og stofnuninni ber að fylgjast með þróun byggðar í landinu. Hún getur gert eða látið gera áætlanir um þróun byggðar og atvinnulífs í þeim tilgangi að treysta búsetu og atvinnu í byggðum landsins.
    Eins og fram kom í máli hæstv. forsrh. þá hefur starfsemi stofnunarinnar verið mest á þann hátt að bjarga atvinnufyrirtækjum, svo að segja frá mánuði til mánaðar eða frá ári til árs. Á árum áður naut Byggðasjóður verulega meiri framlaga á fjárlögum en nú er, auk þess sem Framkvæmdasjóður Íslands greiddi helming af rekstrarkostnaði. Þessar fjárveitingar voru notaðar til þess að lána til fjárfestinga vítt og breitt um landið. Lánin voru óverðtryggð og með vöxtum sem voru lágir miðað við aðra vexti í þjóðfélaginu. Mestur hluti lánsfjárins var fenginn af ríkisframlagi. Eftir því sem líða tók á starfstíma Byggðasjóðs þá rýrnaði framlagið úr ríkissjóði en lántökur fylltu upp í skarðið til að gera sjóðnum kleift að verða við óskum umsækjenda. Jafnframt varð nauðsynlegt að taka upp verðtryggingu eða gengistryggingu á öllum útlánum.
    Mér finnst rétt að minna hér á, sem reyndar má sjá í ársskýrslunni, framlög ríkissjóðs til Byggðasjóðs og Byggðastofnunar á árunum 1972 -- 1989. Raunvirði framlaga til byggðamála á fjárlögum er verulega minna en á árum áður en hefur þó hækkað lítillega núna undanfarin ár. Þetta takmarkar mjög þau verkefni sem hægt er að taka þátt í. Framlagið er starfsemi Byggðastofnunar afar mikilvægt og forsenda þess að hún geti sinnt því ætlunarverki sem henni er ætlað lögum samkvæmt.
    Ef við lítum á það sem er í ársskýrslunni þá var framlag ríkissjóðs hæst á árunum 1975 og 1977. Þá jafngilti það 1000 millj. miðað við verðlag í janúar 1989 en fyrir einu ári var þetta framlag innan við 200 millj. Það má eiginlega margfalda með rúmlega fimm miðað við það sem framlög til þessara mála og þessarar stofnunar voru á árunum 1975 og 1977. Þau voru aðeins lægri 1976 og 1978 en eftir það fara framlög hraðminnkandi, eins og menn sjá á þessari töflu sem er í ársskýrslunni.
    Eigið fé Byggðasjóðs og Byggðastofnunar á verðlagi í janúar 1981 hefur rýrnað mjög verulega frá 1981 en rýrnun varð gífurleg á árunum 1981 til ársbyrjunar 1984. Eftir það hefur ekki verið mjög mikil sveifla á eigin fé Byggðasjóðs á seinni árum en það er ekki nema innan við 2 / 3 þess sem það var á árinu 1981. Eignarfjárhlutfall Byggðasjóðs og Byggðastofnunar hefur einnig farið mjög lækkandi. Þrátt fyrir að eigið fé Byggðastofnunar hafi haldið raungildi á

starfstíma þeirrar stofnunar þá hefur eiginfjárhlutfall haldið áfram að lækka. Það stafar af miklum lántökum og afskriftum útlána.
    Þegar Byggðastofnun tók við af Byggðasjóði voru öll ný útlán orðin verðtryggð og óverðtryggð útistandandi lán ekki nema lítið brot af lánveitingum. Þess vegna var staða Byggðastofnunar hin sama og annarra opinberra stofnlánasjóða, enda þótt hún ætti töluvert eigið fé sem voru leifarnar frá því tímabili þegar framlögin voru meiri. Fjármagnið var fengið á erlendum lánsfjármarkaði og því þurftu vaxtakjör og öryggi í lánveitingum að vera sambærileg og hjá öðrum. Til Byggðastofnunar hafa aftur á móti alltaf verið gerðar allt aðrar kröfur að því er varðar hversu mikla áhættu henni er ætlað að taka með lánveitingum sínum. Lánveitingarnar hafa mótast mjög af því að tryggja atvinnu í hinum fjölmörgu útgerðarstöðum hringinn í kringum landið sem og víða í sveitum landsins.
    Á síðustu starfsárum Byggðasjóðs var enn ekki farið að taka tillit til verðbreytinga í uppgjöri. Því virðist afkoma sjóðsins vera betri þá en uppgjör síðustu ára gefa til kynna. Síðustu heilu fjögur árin sem sjóðurinn starfaði voru hreinar tekjur hans samkvæmt reikningi 507 millj. kr. á verðlagi hvers árs. Hefði verið beitt þeirri aðferð að færa verðbreytingar til gjalda, eins og síðan hefur verið gert, hefði árangurinn ekki verið svona glæsilegur. Þvert á móti hefði verið tap. Sérstaklega var það verðbólguárin 1982 -- 1983 en þá var tapið samtals um 700 millj. á núvirði ef leiðrétt er fyrir verðbreytingarfærslu. Þess ber að geta að á þessum árum var ekkert fé lagt fyrir á afskriftareikningi eins og gert hefur verið í Byggðastofnun og ekki veitt af.
    Nú er svo komið að eiginfjárhlutfallið stefnir í að vera undir 10%. Það var 33% þegar stofnunin tók til starfa fyrir fimm árum. Gjörbreytt stefna fjárveitingavaldsins gagnvart Byggðasjóði hefur m.a. valdið þessu. Endalausar lántökuheimildir og sáralítið af framlögum á fjárlögum er að ganga af stofnuninni dauðri ásamt meiri og hærri kröfum um styrk hér og styrk þar, hlutafé, og fleiri kostnaðarsamar aðgerðir fyrir stofnunina. Allt á þetta að framkvæmast fyrir lánsfé og lítil sem engin framlög.
    Ég benti á síðast þegar málefni stofnunarinnar voru rædd hér að skatttekjur ríkisins af starfseminni væru álíka og framlagið. Þetta hefur því miður lítið breyst. Stimpilgjöld eru greidd af lánum frá stofnuninni. Lán Fiskveiðasjóðs Íslands og Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina eru aftur á móti stimpilfrjáls. Stofnunin greiðir 0,25% ríkisábyrgðargjald vegna óbeinnar ríkisábyrgðar á lánum hennar meðan Framkvæmdasjóður Íslands greiðir ekki slíkt gjald vegna gamalla lagaákvæða. Það er oftar en ekki hlutskipti Byggðastofnunar að taka aftasta veðrétt þegar gengið er frá stofnlánum, að ekki sé minnst á lán vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar sem er að verða ein ástæða lánveitinga. Það þarf því lítið til að lán reynist án tryggingar þegar til innheimtu kemur. 2 / 3 hlutar lána Byggðastofnunar eru til útgerðar og fiskvinnslu. Við

vitum öll að fiskvinnsluna þarf að endurskipuleggja. En hvernig á að gera það án þess að létta af skuldum frystihúsanna á landsbyggðinni sem ekki geta selt húseignir sínar til annarra nota, eins og fremur er hægt að gera hér á höfuðborgarsvæðinu?
    Frá og með næstu áramótum verður lánastofnunum, þar á meðal Byggðastofnun, gert mun torveldara en hingað til að mæta óskum viðskiptavina sinna um lánveitingar en verið hefur. Þetta er vegna þess að 1. jan. nk. ganga í gildi lög um stjórnun fiskveiða en samkvæmt þeim verður heimilt að framselja kvóta varanlega. Samkvæmt núgildandi lögum er meginreglan sú að óheimilt er að framselja kvóta varanlega. Samkvæmt nýju lögunum verður á hinn bóginn heimilt að framselja kvóta varanlega. Þeir veðhafar sem eiga veð í skipi þegar lögin koma til framkvæmda verða að samþykkja framsal kvóta, en ekki þarf samþykki þeirra veðhafa er veð eignast eftir 1. jan. nk. Vegna þessa sáu Byggðastofnun og Fiskveiðasjóður Íslands sér ekki annað fært en að vekja athygli á ákvæðinu með auglýsingu í dagblöðum um síðustu helgi og þá vakti stjórn Sambands ísl. viðskiptabanka athygli sjútvrn. á þessu máli með bréfi nýlega, eða nánar tiltekið 23. nóv.
    Eins og hæstv. forsrh. kom inn á þá gera lög ráð fyrir því að Byggðastofnun taki við stjórn Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina um næstu áramót þegar sjóðurinn verður deild í Byggðastofnun með sérstakan fjárhag. Útlán Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina munu nú vera orðin um 8,5 milljarðar eða næstum jafnhá lánum Byggðastofnunar, sem nú er með útistandandi lán að fjárhæð um 9,5 milljarða. Innheimta á lánum frá Atvinnutryggingarsjóði er að hefjast því að vaxtagjalddagar fyrstu lánanna voru síðla sumars og nú á þessu hausti.
    Eftir því sem ég heyri gengur innheimta ekki allt of vel. Er ég ekki hissa á því eins og búið hefur verið að útflutningsatvinnugreinunum á undanförnum árum. Stofnfé Atvinnutryggingarsjóðs var sagt vera 1000 millj. kr. en síðan kemur í ljós að það er álit fjmrn. og ríkissjóðs að það sé aðeins 400 millj. kr. því sjóðurinn eigi sjálfur að endurgreiða Atvinnuleysistryggingarsjóði 600 millj. kr. en ekki ríkissjóður, eins og bæði ég og fleiri höfum haldið. Sjóður eða deild í Byggðastofnun með 4,7% eigið fé eða minna, ég sleppi því að minnast á framlag í afskriftasjóð og kaup á B-deildar skírteinum, er ekki til þess fallin að efla Byggðastofnun. Deildin verður klafi á stofnuninni, jafnvel þó að talað sé um sjálfstæðan fjárhag.
Það liggur þegar ljóst fyrir en á auðvitað eftir að liggja ljósar fyrir þegar séð verður, innan eins árs eða tæplega það, hversu mikil vanskil verða þarna. Það þarf því ekki að nefna annað en rekstrarkostnað, þá þjónustu sem Byggðastofnun hefur látið Atvinnutryggingarsjóði í té til þessa.
    Ég ætla alls ekki að gera lítið úr því sem Atvinnutryggingarsjóður hefur gert, síður en svo. En ég ætla að benda á það að ég óttast að sagan endurtaki sig og að í ríkari mæli verði nú uppi kröfur og beiðnir frá fyrirtækjum sem hafa fengið afgreiðslu úr Atvinnutryggingarsjóði um að það sé komið á sömu leið. Og nú spyrja menn: Hvernig stendur á því að þetta er svona? Það stendur þannig á því að stjórnvöld bíða oft lengi. Þau héldu dauðahaldi í ranga gengisskráningu, þau tóku ekki tillit til verulegs samdráttar sem varð vegna opinberrar stjórnunar á fiskveiðum, að þau fyrirtæki fóru niður á við. Eiginfjárstaða þeirra hefur rýrnað mjög verulega á undanförnum árum þannig að lánin verða sífellt hærri og hærri og þar með fjármagnskostnaðurinn. Þetta er það sem gerir gæfumuninn, að fjármagnskostnaðurinn er orðinn of mikill fyrir velflest atvinnufyrirtæki, einkum í sjávarútvegi, og líka í öðrum atvinnugreinum. Því fer sem fer. Þarna þarf að taka öðruvísi á en gert hefur verið og mun ég kannski síðar koma að því.
    Stjórnmálamönnum og lánastofnunum hefur verið legið á hálsi fyrir þær sakir að stuðla ekki að nýsköpun í atvinnulífinu og koma jafnvel í veg fyrir að tilraunir verði gerðar. Fyrir nokkrum árum sáu menn mikla framtíð í fiskeldi og var farið af stað af miklum stórhug. E.t.v. má segja að kappið hafi verið meira en forsjáin. Nú erum við gagnrýndir fyrir að hafa farið of geyst og þá ekki síst af þeim sem kröfðust þess að farið yrði í fiskeldi. Á það er bent að eftirspurn eftir fiski eigi enn eftir að aukast en hefðbundnar veiðar munu ekki skila meiri afla á land. Þess vegna verður að auka fiskeldi til að mæta vaxandi eftirspurn eftir fiskafla til þess að fæða mannkynið.
    Samkvæmt upplýsingum frá Fiskifélagi Íslands hefur heimsaflinn undanfarin ár verið rúmlega 90 millj. tonn að meðtöldum afla úr fiskeldi, sem er 10 -- 12 millj. tonna. Á tímabilinu 1978 -- 1987 óx heimsaflinn úr 70 millj. tonna í 93 millj. eða um 23 millj. tonna. Á þessu tímabili stóðu veiðar í Atlantshafi í stað, voru um 25 millj. tonna, en afli í Kyrrahafi óx úr 33 millj. í tæplega 50 millj. tonna eða um 17 millj. Og í innhöfum og vötnum óx hann úr 7 millj. í 12 eða um 5 millj. tonna. Þannig má segja að nær öll aukningin á umræddu tímabili hafi orðið í Kyrrahafi og í fiskeldi. Ekki er fyrirsjáanlegt að öllu meiri afli náist úr Kyrrahafi nema þá með ofveiði og við þekkjum það allt of vel.
    Þriðja aflahæsta fiskveiðiþjóð veraldar, Kínverjar, er við Kyrrahaf. Þeir hafa lagt stund á fiskeldi, hvorki meira eða minna en sl. 4000 ár, og ætla enn að auka fiskeldi. Heildarafli þeirra 1987 var um 9 millj. tonna, þar af um 4 millj. frá fiskeldi. Stefna stjórnvalda þar í landi er að heildaraflinn verði um aldamótin 18 millj. tonna, þar af 70% úr fiskeldi eða um 13 millj. tonna. Þetta getur kennt okkur það að fiskeldi er ekki talið heyra sögunni til annars staðar í veröldinni þó að móti hafi blásið hér um slóðir um nokkur missiri.
    Um síðustu áramót voru á skrá hjá Veiðimálastofnun 105 fiskeldis - og hafbeitarstöðvar, þar af 65 með einhverja starfsemi. Allmörg fyrirtæki í fiskeldi hafa orðið gjaldþrota á síðustu mánuðum. Stofnlán til fiskeldisfyrirtækja nema nú um 4100 millj. kr., þar af um 1900 millj. kr. hjá Framkvæmdasjóði, 950 millj. kr. hjá Byggðastofnun, 750 millj. kr. hjá Fiskveiðasjóði, 160 millj. kr. hjá Iðnþróunarsjóði og erlendar lánastofnanir eru með um 340 millj. kr. Ljóst er því að lánastofnanir hafa lagt talsvert af mörkum til að koma greininni af stað en rekstrarfjárlán hefur skort. Vissulega var farið af stað með mikilli bjartsýni. Þekking á laxastofninum, laxaeldi, var lítil og markaðssetning ómarkviss. En þó svo sé er ekki rétt að leggja árar í bát. Mikið hefur áunnist og mikil reynsla skapast þó hún hafi e.t.v. verið dýru verði keypt. Fiskeldi er í örum vexti í heiminum eins og bent hefur verið á og beinist í auknum mæli að eldi sjávarfiska. Íslendingar mega ekki dragast aftur úr í þeirri þróun.
    Mörg vandamál hafa komið upp í rekstrarfjáröflun fiskeldisfyrirtækja og voru miklar vonir bundnar við að þegar ábyrgðadeild fiskeldislána loks komst á laggirnar 1. júlí sl. mundu mörg þessara vandamála leysast. Raunin er önnur því starfsemi ábyrgðadeildarinnar er ekkert nema vonbrigði. Starfsemi deildarinnar er ekkert nema viðbótarfjármagnskostnaður því ábyrgðargjaldið er um 7% og nægir eitt sér til þess að sliga fyrirtækin endanlega. Fiskeldisfyrirtæki búa við svo dýrt afurðalánakerfi að útilokað er að reka fyrirtækin, jafnvel þó rekstur þeirra gangi áfallalaust. Fyrirtækin greiða afurðalánavexti sem eru breytilegir eftir því í hvaða mynt lánin eru tekin. SDR - afurðalán bera 10,5% vexti, lán í íslenskum krónum 12,25%, í dollurum 9,5% og í sterlingspundum 15,25% vexti. Til að komast í afurðalán þurfa fyrirtækin að tryggja fiskinn og er iðgjaldið 5 -- 7% á ári. Iðgjald er reiknað af meðalverðmæti fisks á árinu samkvæmt eldisáætlun. Almenna reglan er sú að sjálfsáhætta er 25%. Þannig fá fyrirtækin ekkert greitt ef einstakt tjón er undir 25% af heildarverðmætum í viðkomandi fiskeldisstöð. Ef mörg smátjón verða fæst ekkert greitt nema samanlögð upphæð tjóna nemi hærri upphæð en 50% af áætluðu hæsta verðmæti fisks í stöðinni. Auk framangreindra afarkosta eru ýmis ákvæði í tryggingaskilmálum sem gera tryggingafélögunum mögulegt að neita greiðslu bóta eins og þegar liggur fyrir í veigamiklum atriðum.
    Bankar veita lán til fiskeldisfyrirtækja sem geta numið 30 -- 37,5% af verðmæti fisksins samkvæmt verðmætaskrá tryggingarfélaganna. Lán bankanna eru tryggð með 1. veðrétti í fiskinum. Hins vegar neita bankarnir sumum fiskeldisfyrirtækjum alfarið um rekstrarlán. Ábyrgðasjóður fiskeldislána veitir ríkisábyrgð á lán til fiskeldis. Ríkisábyrgðin getur numið allt að 37,5% af verðmæti fisksins samkvæmt verðmætaskrá samsteypu íslensku fiskeldistrygginganna. Ábyrgðasjóðurinn tekur ábyrgðargjald sem er breytilegt, 6 -- 7,3%. Ábyrgðargjald reiknast af lánsupphæðinni eins og hún er hæst í hverjum mánuði. Ríkisábyrgðin er tryggð með 2. veðrétti í fiskinum. Mjög erfitt er að fá áheyrn í ábyrgðasjóði fiskeldislána og eru dæmi um að lítil fiskeldisfyrirtæki hafi þurft að greiða allt að 1 millj. kr. í skýrslugerðir til sérfræðinga til að vera tekin gild hjá ábyrgðasjóðnum. Eðlilegra væri að starfsmenn ábyrgðasjóðsins ynnu þessa skýrslu sjálfir þar sem lítið er um verkefni hjá sjóðnum og aðeins örfá fyrirtæki hafa verið afgreidd hingað til.
    Rétt er að gera sér nokkra grein fyrir hve mikinn kostnað fyrirtækin bera vegna vaxta af afurðalánum, tryggingaiðgjöldum og ábyrgðargjöldum. Það er gert ráð fyrir að það taki um 44 mánuði að ala lax frá hrognastigi í þriggja kílóa þyngd. Auk þess er reiknað með að bankinn láni 32,5% af tryggingarmati og ríkisábyrgð sé 37,5% og tryggingargjald sé 6%. Eftir að búið er að slægja fiskinn vegur hann 2,7 kg. Skilaverðið að frádregnum flutnings-, pökkunar- og sláturkostnaði er í dag um 260 kr. á kg. Kostnaður vegna vaxta, trygginga- og ábyrgðargjalda er 54 kr. á kg eða um 21% af skilaverði, þ.e. söluverði fisksins. Trygging og ábyrgðargjald er um helmingur af þessum kostnaði. Það er mín skoðun að lögin um ábyrgðasjóð fiskeldislána séu með öllu gagnslaus og betra sé að nema þau úr gildi en að hafa þau eins og þau eru núna.
    Þegar aðrar þjóðir styrkja nýjar atvinnugreinar og renna styrkari stoðum undir atvinnulíf sitt, þá tökum við fegins hendi við nýjum greinum eins og þessum, en þetta er það sem þeim greinum er boðið upp á. Alþingi hefur ekki einu sinni heldur tvisvar afgreitt lög í þessum efnum. Á aðvaranir ákveðinna þingmanna hefur ekki verið hlustað. Þetta er árangurinn af starfi meiri hluta alþingismanna hvað þetta snertir. Og mættu þeir nú fara að hugsa örlítið meira um það hvað er hverju sinni verið að taka ákvörðun um og hversu langt er fært að ganga í þessum málum eða öðrum. Þetta er dæmigert sýnishorn af því sem ekki á að gera.
    Ég held að það væri rétt, virðulegi forseti, að skýra aðeins frá opinberum styrkjum til atvinnufyrirtækja sem eru notaðir í mjög ríkum mæli í Evrópu svo alþingismenn geti fengið einhverja lykt af því sem er að gerast annars staðar og séð að ekki er hægt að halda áfram á þessari braut eins og gert hefur verið. Opinberir styrkir til atvinnufyrirtækja eru notaðir í mjög ríkum mæli í Evrópu til þess að örva atvinnu á ákveðnum landsvæðum og raunar einnig í ákveðnum atvinnugreinum. Nánast öllum Evrópulöndum er skipt niður í byggðaþróunarsvæði. Þar er með ýmsum hætti leitast við að auka atvinnu og hafa áhrif á búsetu fólks. Í því skyni er árlega varið í Evrópubandalagslöndunum sem svarar hundruðum milljarða íslenskra króna af opinberu fjármagni, oftast í formi beinna stofnfjárstyrkja til einstakra atvinnufyrirtækja. Þessir styrkir frá ríkisstjórnum einstakra landa og frá Evrópubandalaginu geta numið allt að 75% af stofnkostnaði nýframkvæmda við atvinnufyrirtæki í Portúgal og á Spáni en 35% í Bretlandi auk aðstoðar frá sveitarfélögum. Opinberir byggðastyrkir frá Evrópubandalaginu munu tvöfaldast að raungildi samkvæmt áætlun bandalagsins til ársins 1993. Á móti því vegur að greina má tilhneigingu til lækkunar á beinum styrkveitingum frá einstökum ríkisstjórnum í bandalagslöndunum. T.d. gætir þessa í Bretlandi. Fullyrða má þó að í heild fari þessi opinberi beini stuðningur við atvinnuvegina verulega vaxandi í Evrópu. Í því sambandi má minna á að fyrir tæpu ári voru teknar upp nýjar styrkveitingar frá Evrópubandalaginu til fiskvinnslu. Það er því sérstaklega áhugavert fyrir okkur Íslendinga að fylgjast vel með opinberum styrkveitingum til byggðamála í Evrópu og líklegri framvindu á því sviði á næstunni.
    Í Bretlandi utan Norður - Írlands var varið um 700 millj. sterlingspunda á árinu 1986 í opinbera byggðastyrki frá bresku ríkisstjórninni og að auki 200 millj. á Norður - Írlandi eða rúmlega 90 milljörðum ísl. kr. á núverandi gengi. Ef upphæðinni er deilt niður á íbúana í Bretlandi er hún um 1250 kr. á mann. Sé henni á hinn bóginn deilt niður á þá sem njóta hennar yrði hún um 36 sterlingspund á íbúa eða liðlega 3600 kr. Sambærileg upphæð fyrir landsbyggðina á Íslandi yrði um 400 millj. kr. í hreinum ríkisstyrkjum til greiðslu á stofnkostnaði fyrirtækja. Og beri menn það nú saman við framlög til þeirrar stofnunar sem á að annast þessi mál og sömuleiðis beri þau saman við það fjárlagafrv. sem ekki hefur enn þá hlotið afgreiðslu.
    Eins og hæstv. forsrh. gat um réttilega hefur orðið verulegur flutningur á fólki nú á síðustu árum frá landsbyggðinni til Reykjavíkur. Ástæður þessara flutninga eru auðvitað margar og ég ætla ekki að fara að tíunda þær allar hér. En ég tel þó að ein meginástæðan fyrir þessum auknu flutningum sé sá samdráttur sem hefur orðið í atvinnulífi landsbyggðarinnar sem er fyrst og fremst samdráttur í sjávarútvegi, samdráttur í veiðum sem hefur verið um 10% þrjú sl. ár í röð. Það kemur harðast niður á stöðum sem eiga allt sitt undir fiskveiðum og fiskvinnslu. Samdrátturinn nær síður til þeirra svæða þar sem þjónustan er höfuðatvinnuvegur, eins og t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu. Sama má segja um samdrátt víðast hvar úti um land í landbúnaði þar sem hann er fyrir hendi og menn þekkja. Þetta er að mínum dómi ein höfuðástæðan fyrir þessum flutningi.
    Svo er líka hitt að það er engin samræmd stefna til, í raun og veru engin stefna til í þessu landi varðandi fiskvinnslu, hún fyrirfinnst ekki. Og það er enginn sem ljær máls á því að taka upp slíka stefnu. Við horfum upp á það að fiskurinn er fluttur í vaxandi mæli óunninn úr landi. Hann er fluttur til svæða þar sem er farið að byggja atvinnu mjög mikið á íslenskum fiski. Það er það sem verið er taka frá fiskvinnslufólkinu í landinu og fiskvinnslustöðvunum og flytja til. Það er uppgangur á Humber-svæðinu núna þar sem var hrun eftir að við færðum út í 200 sjómílur og gerðum samningana um að koma Bretum út úr 200 mílna fiskveiðilögsögu. Nú er þar uppgangur. Byggðastofnun eyddi nokkrum peningi í að senda okkur nokkra í fróðleiksferðalag. Það var að vísu erfitt og ekkert farið eftir venjulegum skikkanlegum vinnutíma því að það var svona frá kl. 6 og til 12 á kvöldin. Þrátt fyrir það var það þess virði að fara það.
Maður varð margs vísari, bæði á Humber-svæðinu, í Belgíu, Zeebrugge og í Bremerhaven. Eitt voru menn almennt sammála um á öllum þessum svæðum: Þeir byggja á því að auka fiskvinnslu, auka fiskmarkað og fara í stórfelldar framkvæmdir og njóta margvíslegra styrkja, bæði Efnahagsbandalagsins og sinna þjóðlanda hver staður fyrir sig. En mér er óhætt að segja að flestir eða allir þeir aðilar sem við hittum voru mjög áfjáðir um það að við gengjum sem allra fyrst í Efnahagsbandalagið. Frá þeirra sjónarmiði fannst mér það mjög skiljanlegt. En mér finnst að á síðustu vikum sé allur fréttaflutningur og allt tal eins og ákveðið sé að ganga í Efnahagsbandalagið. Ég veit ekki hvort það á að vera fyrir jól eða milli jóla og nýárs. Það getur ekki beðið mikið lengur eins og mörgum mönnum er mál. Menn spyrja ekkert, hvað fáum við? Hvað er verið að biðja um og hvað ætlið þið ykkur?
    Ég get sagt það: Við viljum efla samskipti okkar við nágrannaþjóðir okkar og Evrópuþjóðirnar. Samskipti sem mörg hver hafa átt sér stað um aldir. Við viljum eiga greiðan aðgang að hefðbundnum mörkuðum okkar í þessum löndum og efla viðskipti okkar við þær þjóðir sem við höfum skipt við öldum saman og líka við þær þjóðir sem við höfum skipt við skemmri tíma. En við viljum ekki kaupa þau viðskipti því verði að veita þeim forræði yfir auðlindum okkar, hvorki beint eða óbeint. Hvorki með aðgangi að fiskimiðum eða eignarhaldi á fyrirtækjum í sjávarútvegi. Fiskimiðin eru og verða eign íslensku þjóðarinnar allrar, ekki einhverra útvalinna heldur allrar þjóðarinnar. Því má gjarnan bæta við að með sama hætti og við viljum verja þau gegn ásælni útlendinga hljótum við líka að verja þessa þjóðareign gegn innlendri ásælni. Við, þessi litla og vopnlausa þjóð, erum búin að heyja þrjú þorskastríð við þjóðir sem við töldum áður og teljum aftur vera vinsamlegar. Við höfum sigrað í öllum þessum styrjöldum, öllum þessum þorskastríðum, með þeim árangri að við höfum yfir að ráða 200 mílna fiskveiðilögsögu. Og nú spyr ég: Eigum við að hlaupa í fang Efnahagsbandalagsins eins og það séu engir aðrir kostir fyrir hendi? Ég segi nei. Við eigum eðlilega að efla samvinnu við Efnahagsbandalagið, ekki eingöngu á þessum sviðum heldur á fjölmörgum öðrum sviðum eins og frekast er hægt, en halda reisn okkar sem sjálfstæð þjóð. Við eigum að fylgja fast eftir kröfunni um tvíhliða tollasamning. Við náðum góðum tollasamningi á sínum tíma með svokallaðri bókun 6 sem ekki kom til framkvæmda fyrr en við vorum búin að semja við Breta um lausn á þorskastríðinu.
    Þegar menn segja, bæði útlendingar og þó nokkuð margar hjáróma raddir í þessu þjóðfélagi, að við þurfum að flýta okkur, við séum að missa af strætisvagninum ef við förum ekki að biðja um --- sumir tala um aukaaðild að Efnahagsbandalaginu. Ég veit ekki til þess að hún sé til. Annaðhvort er aðild eða ekki aðild. Annaðhvort er að vera eða vera ekki. Og það sé ekki um neitt annað að ræða. Þó Efnahagsbandalagið sé voldugt bandalag og hafi margan góðan tilgang, sennilega er þetta efnahagsbandalag að skapa frið í Evrópu, og undir það hljótum við öll að taka. En höfum við ekki neitt annað að snúa okkur til? Ég segi: Þó að þróun dollarans sé óhagstæð nú þá höfum við auðvitað stórkostlega möguleika í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Við höfum líka vaxandi möguleika í Japan og meðal fleiri þjóða. Svo kemur

hitt sem er stærsta trompið okkar, langstærsta og veigamesta, það er það að við búum við ómenguð fiskimið. Við framleiðum matvæli sem er óhætt fyrir fólk að neyta. En þjóðir Evrópu verða að fiska á hafsvæði sem er orðið mengað og svo mjög mengað að við köllum það helst af öllu drullupolla, því þeir eru orðnir svo hræðilegir, Norðursjórinn að ég tali ekki um Eystrasalt. Og þá spyr ég: Er hætta á því að menningarþjóðir, sem gera háar kröfur til heilbrigðis og hreinlætis, láti bjóða landsmönnum sínum óhollan mat sem er fiskaður úr menguðum sjó? Nei, krafa þessara þjóða verður sú að kaupa afla sem er ómengaður og veiddur hér í tiltölulega hreinum sjó og mjög hreinum sjó miðað við þann sem þessar þjóðir eru að veiða í. Það verður krafa fólksins í þessum löndum að það sé ekki verið að setja óþarfa innflutningstolla á þessar afurðir.
    Ég sé líka fyrir mér að ef við förum í fang Efnahagsbandalagsins þá geta þó nokkuð margir menn og vel menntaðir fengið vel borgaða vinnu hjá Efnahagsbandalaginu. Því verður ekki á móti mælt. En það verða aftur aðrir sem missa atvinnuna sína, fiskverkunarfólkið, fólkið sem hefur unnið í þjónustugreinum sjávarútvegsins. Þar harðnar á dalnum við það. Þar hrynur möguleikinn á því að halda þessu landi í byggð. Sjáum við ekki þróunina á ýmsum öðrum sviðum? Byrjaði ekki strjálbýlisverslunin að kvarta undan því að fólkið væri hætt að versla í heimabyggðunum og farið að sækja á stórmarkaðina í Reykjavík? Ég man eftir því og var mikið um talað. Eru ekki stórmarkaðirnir núna í Reykjavík farnir að kvarta undan því að í vaxandi mæli sé verið að flytja verslunina úr landi í stórmarkaði erlendis? Einhvers staðar sá ég í blöðunum, það er nú ekki allt að marka sem þau segja, að núna fyrir jólin séu flutt inn um 120 tonn af fötum.
    Gefur þetta okkur ekki tilefni til þess að hætta að vinna þannig að lagasetningu að spyrja alltaf menn í fjmrn.: Hvað tapar ríkissjóður ef þetta frv. eða hitt er samþykkt? Og þá kemur hvað ríkissjóður tapar en það kemur aldrei hvað ríkissjóður tapar á því að vera með svona óheyrilega tolla þannig að vöruverðið er svo miklu, miklu hærra en í nágrannalöndunum. Ef það væri orðið svipað eða eins og þar, þá mundi draga verulega úr þessum innflutningi og þessari eyðslu allri sem á sér stað. Allt þetta er þáttur í byggðastefnunni.
    Virðulegi forseti. Ég biðst forláts á því ef ég hef orðið kannski alllangorður en ég tel að þessi mál séu það mikils virði að nauðsynlegt sé að þau séu rædd ítarlega og lagt út af því og hugað að þeim upplýsingum sem fram hafa komið hér í þessari umræðu.