Byggðastofnun
Miðvikudaginn 28. nóvember 1990


     Málmfríður Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Í gær var ég ásamt fleirum hv. þm. stödd í afskekktu sjávarplássi, líklega því einangraðasta sem þjóð okkar byggir. Þar hafa menn í aldanna rás lifað af því að draga fisk úr sjó, enda ekki um aðra afkomumöguleika að ræða. Hafnarskilyrði hafa verið erfið þarna og harðbýlt nokkuð, en þarna býr dugmikið fólk í góðu samfélagi og hefur skilað, að ég hygg, meiri gjaldeyristekjum á mann í þjóðarbúið en flest ef ekki öll önnur byggðarlög í landinu.
    Að undanförnu hefur verið unnið þarna að hafnargerð, dýru mannvirki, það kostar milljónatugi. M.a. hefur Byggðastofnun komið þar við sögu með framlög. Í gær voru menn glaðir og fagnandi, höfnin tekin formlega í notkun og bjart fram undan, öryggi sjómannanna tryggara og aðstaða betri.
    En á þeim gleðidegi bárust aðrar fréttir. Nú er ljóst hvernig kvótamálum byggðarlagsins verður háttað á næsta ári. Í stuttu máli er það með þeim hætti að segja má að grundvellinum sé kippt undan byggðinni. Slík er skerðingin hjá þessu fólki sem hefur í enga aðra atvinnu að leita og getur ekki einu sinni selt eignir sínar ef það neyðist til að fara á brott. En fyrirtæki sem á ónýtan togara, bundinn við bryggju í næsta byggðarlagi og hefur ekki verið gerður út í tvö ár, fær 300 tonna aukningu í veiðiheimildum. Er þó síst hægt að segja að það fyrirtæki hafi skort veiðiheimildir áður. Slíkt er það réttlæti sem menn ástunda í þessum efnum.
    Ég skynjaði vonbrigði og reiði fólks ákaflega sterkt yfir því misrétti sem það taldi sig beitt. Og ég skynjaði líka, og það mættu fleiri gera, hvílíkur örlagavaldur fólks og byggðarlaga fiskveiðistjórnun getur verið eftir því hvernig henni er beitt. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Hvaða vit er í slíkum ráðstöfunum hjá stjórnvöldum? Þau rétta fólkinu höfn með annarri hendinni og hrifsa af því lífsbjörgina með hinni. Ég vænti þess ekki að stjórnvöld þurfi að búast við heitum þakkarávörpum frá Grímseyingum, því hvers virði er höfn ef ekki er hægt að lifa af fiskveiðunum? Þessa vildi ég geta hér í upphafi þegar rædd eru byggðamál því að svo snar þáttur er fiskveiðistjórnunin í því hvernig byggð þróast að fram hjá því má ekki ganga í umræðunni. Og er ekki hv. þm. og hæstv. ráðherrum að verða ljóst að kjarkleysi þeirra eða kæruleysi þegar þeir guggnuðu við að binda veiðiheimildir að einhverju leyti við byggðarlög, sem var tillaga kvennalistakvenna og óskir landsbyggðarbúa, kann að leiða til meiri ófara en séðar verða fyrir?
    En annað mál er til umræðu hér, þó að þetta sé að vísu þáttur í því, og það er skýrsla Byggðastofnunar, skýrsla um það hvernig stofnunin hefur á sl. ári farið með það hlutverk sitt að stuðla að þjóðfélagslega hagkvæmri þróun byggðar í landinu. Um það atriði út af fyrir sig hljóta þó alltaf að vera deildar meiningar. En allt um það er starf Byggðastofnunar mikið umfangs og á mörgum sviðum, svo sem skýrslan greinir og grípur inn á fjölmarga þætti í atvinnulífi landsmanna. Ég vil nota tækifærið til að lýsa ánægju með hversu hnitmiðuð skýrslan er og laus við allar málalengingar og aðgengileg fyrir hvern sem er.
    Þessari stofnun hefur frá upphafi verið ætlað beint og óbeint að hamla á móti því ójafnvægi sem er á byggð í landinu og fer vaxandi og að sporna við fólksflutningum á suðvesturhornið, þó hvergi sé það hlutverk í rauninni skilgreint beinum orðum. Augljóst er að miklu fyrr hefði þurft að hefja slíkar aðgerðir því að enn aukast fólksflutningarnir til höfuðborgarsvæðisins þrátt fyrir það starf sem stofnunin hefur unnið, sem ég er alls ekki að vanmeta.
    Hv. 1. þm. Vestf. hefur farið yfir fjárhagsstöðu stofnunarinnar svo að ég sé ekki ástæðu til að fara nánar út í það. En ég bendi á og undirstrika að fjárhagsstaða hennar fer versnandi og það ríkisframlag sem henni er ætlað á komandi ári veitir henni lítið svigrúm til aðgerða.
    Hlutverk Byggðastofnunar er tvíþætt. Hún er annars vegar umfangsmikil lánastofnun en hins vegar þróunarstofnun. Mér virðist að tími sé kominn til að endurskoða fyrra hlutverkið með tilliti til þess sem í skýrslunni stendur. Með leyfi hæstv. forseta stendur þar: ,,Nú er svo komið að auðvelt er að fjármagna skynsamlega nýfjárfestingu með aðstoð hinna hefðbundnu fjárfestingarlánasjóða banka og er það til bóta frá því sem áður var. Lánakjör þar eru síst verri en Byggðastofnun getur boðið, en menn líta hins vegar til Byggðastofnunar í þeirri von að hún horfi öðruvísi á mál með tilliti til áhættu á lánveitingum en bankar og aðrir fjárfestingarsjóðir, en það getur hún því miður ekki gert lengur.``
    Lánveitingar Byggðastofnunar á undanförnum árum hafa að miklum hluta farið til þess að forða því að neyðarástand skapist á ýmsum stöðum á landsbyggðinni og þá einkum til aðstoðar við fyrirtæki sem eru undirstaða atvinnulífs á sínu svæði. Þær lánveitingar hafa yfirleitt skilað sér vel og orðið til að treysta byggðina þar sem mörg þessi fyrirtæki eru rekin með það fyrir augum að sjá fólkinu fyrir atvinnu fremur en að einblína eingöngu á gróðasjónarmiðið. Þetta félagslega hlutverk fyrirtækjanna skiptir höfuðmáli víða um land. En í harðnandi samkeppni kann að vera að endurskoða verði það og rækja þann þátt, e.t.v. með aðstoð stjórnvalda. Slíkar skoðanir eiga þó ekki fylgi að fagna hjá þeim sem hafa skammtímagróðasjónarmið að höfuðleiðarljósi.
    Athuganir og ábendingar skýrslunnar um atvinnulíf á landsbyggðinni, einkum varðandi fiskvinnsluna, eru athyglisverðar. Fiskvinnsla í þeim löndum sem við seljum óunninn fisk til eflist nú hraðfara með aðstoð opinberra aðila þar meðan hún stendur í stað hér eða tæplega það. Og nú verður hún að keppa við fiskvinnslu Evrópubandalagsins. Það er rétt að geta þess að í upphafi viðræðna EFTA og EB um Evrópskt efnahagssvæði var lögð á það ofuráhersla af hálfu íslenskra ráðherra, þar á meðal hæstv. forsrh., að fríverslun með fisk væri meginhagsmunamál Íslendinga. Þess vegna væri mjög mikilvægt að taka þátt í samningaviðræðum við EB ásamt öðrum EFTA - þjóðum.

Það væri fróðlegt að vita hvort hæstv. ríkisstjórn gerir sér grein fyrir hvað felst í fríverslun með fisk. Ef um algera fríverslun er að ræða er alls óheimilt að reisa skorður við útflutningi á óunnum og hálfunnum fiski.
    Í skýrslunni er bent á aðstöðu fiskvinnslunnar í nágrannalöndum okkar sem býr við allt önnur kjör en hér og nýtur auk þess góðs af byggðastyrkjum. Er búist við að aðgerðir í byggðamálum muni aukast á næstu árum innan Evrópubandalagsins og þá væntanlega í þessum efnum líka. Síðan er bent á þá hugsanlegu þróun, sem við höfum raunar séð síðan skýrslan kom út, að fiskvinnslan flytjist smám saman úr landi eftir því sem erlend úrvinnsla eflist, sem við styðjum nú þegar dyggilega með því að flytja út óunninn fisk. Stjórnvöld geta komið í veg fyrir þessa þróun en það er e.t.v. að verða of seint. Fyrsta skrefið er að móta stefnu í fiskvinnslu og framkvæma hana, síðan jafnframt stjórnun á fiskveiðum. Það er ekki verjandi, og það er þjóðarskömm, að aldrei skuli hafa verið mynduð og rekin stefna um fullvinnslu og fullnýtingu dýrmætustu auðlindar okkar sem er fiskarnir í sjónum. Sú vinnsla ætti að vera okkar stóriðja. Þetta hafa kvennalistakonur margbent á í ræðu og riti en jafnan fyrir daufum eyrum í þingsölum.
    Í skýrslunni eru settar fram hugmyndir um hvernig þetta megi gera og væri ráð að fara að þeim tillögum því að annars rekur allt að því að við ströndum uppi á skeri sem hráefnisframleiðendur fyrir iðnaðarþjóðir Evrópubandalagsins. Er það það sem menn vilja? Vilja menn flytja fiskinn út og láta aðra vinna hann þar og flytja síðan inn súrál og vinna það hér með tilheyrandi mengun, umhverfisspjöllum og byggðaröskun sem af því hlýtur að leiða? Þá ráðamenn sem halda því fram að meiri hluti þjóðarinnar vilji fá álver er rétt að minna á það að af stjórnvalda hálfu hefur ekki verið boðið upp á aðra atvinnukosti. Og menn vilja þetta auðvitað heldur en ekki neitt.
    Þeir sem eru að þreifa sig áfram og reyna að koma á fullvinnslu í fiskafurðum eru ekki studdir sem skyldi. Rannsóknastarfsemi er fjársvelt en einmitt í rannsóknum liggja okkar dýrmætustu möguleikar um stóriðju í fiskafurðum, ensímvinnslu og fullnýtingu hvers þess sem hafið gefur okkur. Allt sem unnið er á þessu sviði nú er fálmkennt og máttlítið vegna þess að stefnuna vantar. Það verður að setja ákveðin markmið svo að fjármagn fáist til og stefna síðan að þeim.
    Byggðastofnun hefur unnið að fjölmörgum verkefnum um hin ýmsu mál sem varða byggðir landsins, ekki síst að atvinnumálum. Vonandi megum við sem fyrst sjá árangur af því starfi. Sú skoðun kemur sterkt fram hjá stofnuninni að horfur um þróun byggðar á næstu árum og áratugum séu nú mjög ískyggilegar. Nauðsyn sé að móta nýja byggðastefnu og hefja skipulagðar aðgerðir til að breyta hinni fyrirsjáanlegu þróun. Hér er talað um nýja byggðastefnu. Mér vitanlega hefur heildstæð byggðastefna aldrei verið til hér og er nú mál að taka til höndum ef eitthvað á að gera í því að skapa markvissa stefnu um það að treysta byggð sem víðast um landið.

    Ýmsar rannsóknir og kannanir hafa farið fram um orsakir byggðarröskunar og fólksflótta. Til að lækna meinið verður auðvitað að þekkja sjúkdóminn og finna viðeigandi lyf. Á Norðurlöndum hafa menn glímt við þennan sama vanda og er sú barátta þegar farin að sýna árangur. Þeir skilgreindu vanda sinn fyrr en við og nú njóta þeir þess í nokkru. Það er meginþáttur í þeirra stefnu í viðhaldi byggða að auka þurfi atvinnu fyrir konur, færa menntunina sem næst fólkinu og auka fjölbreytni í störfum. Auk þess eru sífelldar rannsóknir þar í gangi á nýsköpun í atvinnu og áætlanir gerðar samkvæmt því. Allt þetta þurfum við líka að gera. Vissulega er skilningur að aukast á mikilvægi þessara mála. Nefndin sem skal móta byggðastefnu hefur skilað inn ýmsum hugmyndum en hún hefur ekki séð enn fjárframlög til að hrinda þeim hugmyndum í framkvæmd, og til hvers er þá unnið?
    Ég vil minna á frv. Kvennalistans um sérstaka kvennadeild við Byggðastofnun sem ég er ekki í vafa um að skila mundi árangri. Sömuleiðis annað frv. Kvennalistans um heimilisiðnaðarráðgjafa. Slík starfsemi gæti leyst úr læðingi ónýtta krafta og orðið til aukinnar atvinnu, einmitt í dreifbýli, ef markvisst er unnið.
    Virðulegi forseti. Byggðastofnun hefur vissulega unnið gagnmerkt starf á undanförnum árum. Mikill tími og miklir fjármunir hafa að vísu farið í björgunaraðgerðir sem vonandi skila árangri þó að margt bendi til þess að það muni líka kosta áföll fyrir Byggðastofnun. En verkefnin eru ótæmandi. Ég vil benda á að umræður eru uppi um flutning ýmissa ríkisstofnana út á land. Þar gæti Byggðastofnun unnið að með tillögum og skipulagningu. Landsbyggðinni er þörf á að fjölmenntað fólk setjist þar að. Það hefur sýnt sig í öðrum löndum að önnur og/eða ný sjónarmið koma þá til í byggðunum og leiða oft til frjórra og fyllra mannlífs.
    Ég vil undirstrika aftur, virðulegi forseti, að ég tel að svo mikilvægt sem hlutverk Byggðastofnunar er sé höfuðnauðsyn að tryggja fjárhag hennar. Eiginfjárstaða hennar fer nú síversnandi og framlag til hennar í frv. til fjárlaga hrekkur skammt ef á að ráðast í eitthvað sem munar um. En mikilvægast er að fé hennar sé ráðstafað framvegis af gætni og yfirvegun að bestu manna yfirsýn.