Fjáraukalög 1990
Fimmtudaginn 29. nóvember 1990


     Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég hafði vænst þess að aðalforseti væri við þegar ég kveddi mér hljóðs um þingsköp. ( Fjmrh.: Þú sást nú hver var í stólnum.) Ég vænti þess að gerðar verði ráðstafanir til að ná í hann. ( Forseti: Forseti sér ekki ástæðu til þess þar sem aðalatriðið hlýtur að vera það að fundinum sé stjórnað af forseta.) Ég hef nú aldrei heyrt svona fyrr, ef það eru gerðar athugasemdir við þingsköp af þingmanni, þá sé því synjað að ná í aðalforseta. Ég held að forseti verði að lesa betur. Ég held ég verði að óska eftir því að það sé náð í aðalforseta. Við þurfum ekki að vera að taka umræðuna á þessum grundvelli. ( ÁrnG: Þetta er fullgildur forseti sem situr í stól samkvæmt þingsköpum.)
    Hæstv. forseti. Það gerðist í morgun að haldinn var fundur í sjútvn. Ed. að minni beiðni af þeirri ástæðu að smábátaeigendur hafa verið að fá í hendur bréf frá ráðuneyti þar sem gefnar eru upplýsingar um þær veiðiheimildir sem þeir geta vænst að fá á næsta ári. Eigendum smábátanna er gefinn frestur til 15. des. til að senda inn athugasemdir eða leiðréttingar. Það kom fram á fundinum í morgun að þegar eru farnar að berast fyrirspurnir til ráðuneytisins og það kom fram, eins og vænta mátti og ég er ekki að gagnrýna, að sums staðar hefur, kannski af eðlilegum ástæðum, ekki verið tekið tillit til allra staðreynda í sambandi við ákvörðun veiðiréttar. Er það auðvitað nauðsynlegt að eigendum smábáta sem öðrum útgerðarmönnum sé gefinn kostur á því að gera athugasemdir við þær veiðiheimildir sem búist er við að þeir fái á næsta ári. ( Forseti: Forseti vill gera athugasemd. Þetta getur ekki talist til þingskapaumræðu sem hv. þm. er hér að segja.) Það kemur nú í ljós að það hefði verið betra að ná í aðalforseta. Ég bað um orðið utan dagskrár en forseta þótti eðlilegt að hafa um þingsköp, forseti bað um að það yrði um þingsköp. Það lá alveg ljóst fyrir að ég ætlaði að ná í sjútvrh. til þess að biðja hann að svara hér fyrirspurnum vegna þess að þingnefnd hafði verið synjað um upplýsingar í morgun. Ég held að það verði bara að halda sérstakan forsetafund um það hvað forsetar vilja kalla málið. Það er ekki kjarni málsins. Kjarni málsins er sá að aðalforseti gaf mér heimild til þess að hefja hér umræður kl. 12 þar sem ég mundi inna hæstv. sjútvrh. eftir því hvernig á þessu stæði. Til frekari upplýsingar vil ég skýra frá því að ég fékk heimild aðalforseta til að gera hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni aðvart um að þessi umræða mundi byrja kl. 12. Honum er kunnugt um þetta. --- Ég heyri að hæstv. forseti segir að þetta sé fjarstæða. Það væri kannski niðurstaðan af þessu öllu saman að þingmenn yrðu að hafa bréfaskriftir við forseta sína til þess að geta komið fram eðlilegum óskum. Það væri svo sem eftir öðru.
    Það er ekki kjarni málsins raunar hvort forseti hafi heyrt það sem ég sagði. Aðalatriðið er að á fundi sjútvn. í morgun óskaði ég eftir því að fá í hendur ( StG: Er þetta umræða um þingsköp?) lista yfir þær veiðiheimildir sem sendar höfðu verið smábátaeigendum í pósti í þessari viku. (Forseti hringir.) Það er kjarni málsins. Ég hafði gert hæstv. sjútvrh. grein fyrir þessu í gær. (Forseti hringir.) Ég vil biðja hæstv. forseta að hætta þessu og reyna að vera til friðs. Það er algerlega óþolandi ef stjórnarandstaðan hefur ekki rétt til þess að koma hér fram lágmarksumræðum. ( Menntmrh.: Þetta er dónaskapur.) Það er ekki nóg með það að ekki sé staðið við það að umræðan geti hafist kl. 12 (Forseti hringir.), heldur er hæstv. forseti að trufla hér ræðumann hvað eftir annað og væri nær að láta þann forseta setjast í stólinn sem gaf heimild til þess að umræðan yrði haldin. ( StG: Þú átt að virða þingsköpin ...) ( Forseti: Það er forseti sem stjórnar fundinum.) Ég var að segja það hér áðan ( ÁrnG: Það á að fresta fundinum.) að ég hefði ... ( StG: Nota hamarinn rétt, forseti.)
    Ég var að skýra frá því að ég hefði átt viðtal við hæstv. sjútvrh. í gær þar sem ég hefði lagt fram beiðni um að fá þær upplýsingar í hendur sem ég hef nú greint frá. Hann vildi ekki verða við þeirri beiðni. Fulltrúar hans voru mættir á fundi sjútvn. í morgun. Þeir ítrekuðu að sjútvrh. væri ekki reiðubúinn til þess að láta nefndarmönnum í sjútvn. í hendur þau trúnaðargögn sem ég er nú að skýra frá. Ég spurði að því hvort rétt væri að þessi gögn hefðu borist eigendum smábátanna þannig að þeim væri kunnugt um hvaða áætlun væri uppi um veiðikvóta til þeirra á næsta ári. Fulltrúar ráðuneytisins svöruðu því til að eigendum smábátanna væri kunnugt um það hvað áætlað væri að þeir mættu veiða á næsta ári. (Forseti hringir.)
    Þá kom það fram hjá fulltrúum ráðuneytis að einstakir sjávarútvegsnefndarmenn mættu fara upp í ráðuneyti og lesa listann þar. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Hins vegar væri nefndarmönnum ekki treystandi fyrir því að hafa þessar upplýsingar í höndum. Þó kom fram að þeir listar sem hér um ræðir hafa farið um hendur mjög margra manna. (Forseti hringir.)
    Hæstv. forseti. Við vorum stödd saman úti í Grímsey núna á þriðjudag þar sem við vorum að fagna því að verið var að taka nýja bryggju í notkun með formlegum hætti. Þegar við komum á bryggjuna, ég og hæstv. forseti (Forseti hringir.), hittum við þar sjómann sem sagði að vel stæði á að vígja bryggjuna á þessu ári. (Gripið fram í.) Það hefði verið svo í Flatey að eftir að nýja höfnin kom þar hefðu allir eyjarskeggjar flutt til lands. (Forseti hringir.) Eins sögðu þessir Grímseyingar við hæstv. forseta þegar hann var í Grímsey sem þingmaður Norðurl. e. að það væri gott að fá nýju höfnina núna því að sennilega mundu allir Grímseyingar flytja til lands á næsta vori því að þeim væri ekki vært lengur í eynni eins og sjávarútvegsstefnan væri. ( Forseti: Forseti verður að biðja hv. 2. þm. Norðurl. e. þess að ljúka þessari umræðu þar sem hún er ekki um þingsköp. Það er vinsamlegast farið fram á það.) ( ÁrnG: Dónaskapur.) Ég gerði ráðuneytismönnum grein fyrir því að ég mundi ekki una þessu. (Forseti hringir.)
    Hæstv. forseti. Ég er ýmsu vanur hér í þinginu en ég hef aldrei upplifað það áður að forseti hagi sér

með þessum hætti og það er algerlega ljóst að við þetta verður ekki unað. (Forseti hringir.) Og ég spyr enn: Hvernig stendur á því að aðalforseti, sem hér er staddur og heimilaði umræðurnar, kemur ekki í stól þingforseta? Hvernig stendur á því að þingmaður verður að una því að vera með varamann í forsetastól, að aðalforseti skuli sitja hjá, sá sem heimilaði umræðurnar? Hvernig stendur á því að sjútvrh. gengur úr salnum þegar hér fer fram umræða samkvæmt réttum reglum? ( Forseti: Hv. þm. bað um orðið um þingsköp og hann verður að una því að varaforsetar verða annað slagið hér að stjórna fundum. Hv. 13. þm. Reykv. hefur beðið um orðið um þingsköp ef hv. 2. þm. Norðurl. e. vildi ljúka máli sínu.) Ég óska eftir því að aðalforseti fari í stólinn, sá sem gaf heimildina og úrskurðaði að þetta væri umræða um þingsköp. ( Menntmrh.: Ertu yfirforseti?) ( ÁrnG: Hver stjórnar þinginu?) ( Menntmrh.: Halldór Blöndal.) Ég óska eftir því að aðalforseti fari í stólinn, sá sem veitti mér heimild til þess að tala hér um þingsköp um þetta efni. ( Forseti: Hv. 2. þm. Norðurl. e. stjórnar ekki þinginu. Hann getur ekki skipað fyrir hver sé í forsetastól hverju sinni. Eins og kom fram áðan hefur hv. 13. þm. Reykv. beðið um orðið um þingsköp. Ef hv. þm. vildi ljúka máli sínu, þá gæti hann fengið að hlýða ...) Ég óska eftir því að fá að gera hlé á ræðu minni, það verði gert hlé á fundinum í 5 mínútur svo að mér gefist tóm til að ræða við forseta þingsins. ( GHelg: Forseti þingsins situr í stólnum.) ( Forseti: Forseti hefur ákveðið að gefa hlé í 5 mínútur á fundinum. Fundinum er frestað.) --- [Fundarhlé.]