Fjáraukalög 1990
Fimmtudaginn 29. nóvember 1990


     Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Það er sumt rétt sem sagt var hér, sumt ekki. Það er rétt að ég fór fram á umræður utan dagskrár af því tilefni að sjávarútvegsnefndarmönnum var synjað um upplýsingar. Það er líka rétt að hæstv. forseti sagði að þetta væri þingskapaumræða. Það er rétt að forseti óskaði ekki eftir því að náð yrði í hæstv. sjútvrh. Það er á hinn bóginn líka rétt að ég sagði forseta frá því að ég mundi hafa samband við hæstv. sjútvrh. og hv. þm. Matthías Bjarnason. Hæstv. forseta var kunnugt um það að hæstv. sjútvrh. var tímabundinn. Ég hafði orð á því við hæstv. forseta þegar klukkan var orðin 12 og forseti taldi að hv. þm. Friðrik Sophusson mundi ljúka máli sínu svo fljótt að ekki kæmi að sök.
    Ég hlýt að biðja hv. 5. þm. Norðurl. e. afsökunar ef beiðni mín um það að fá forseta deildarinnar í þingsalinn var tekin svo að það lyti að fundarstjórn. Það var ekki. Forseti Sþ. kom hér í salinn, settist hér niður og ég gerði ekki athugasemdir við það heldur hóf mína ræðu þar sem ég gerði grein fyrir aðdraganda þess að ég óskaði eftir því að taka til máls. Þegar ég var hér um bil búinn að ljúka mínu máli kom í ljós að aðalforseti þingsins hafði ekki greint varaforseta frá efni þingskapaumræðu og má vera að varaforseti hafi tekið svo að ég hafi ætlað að gera athugasemdir við fundarstjórn hans. Svo var ekki.
    Ég vil, úr því sem komið er, þar sem ég á bæði erindi við forseta Sþ., ekki varaforseta Sþ. heldur forseta Sþ. ef hann er á landinu, og af því að ég á erindi við hæstv. sjútvrh., óska eftir því að á mánudag verði umræða utan dagskrár, almenn umræða, löng umræða, þar sem hægt sé að fjalla um sjávarútvegsmál og þann trúnað sem þingnefndir og starfsmenn Alþingis hljóta og eiga rétt á að njóta. Ég er síður en svo á móti því að þetta mál verði rætt ítarlega. Á þessu stigi málsins blanda ég mér ekki í umræður um hvort það sé frekar umræða utan dagskrár en þingskapaumræða þegar fjallað er um störf nefnda og þann trúnað sem sjútvn. hljóta að ætlast til að þær njóti hjá ráðuneytum og opinberum aðilum. Ef það er skoðun þingforseta að slíkt umræðuefni sé fremur utandagskrárumræða en þingskapaumræða verð ég að segja: Það er a.m.k. álitaefni og margsinnis hefur það komið fyrir, bæði á síðasta þingi og raunar á öllum þingum, að einstakir þingmenn hafa kvatt sér hljóðs um þingsköp til þess að gera athugasemdir við starf nefnda, kvarta undan því að meiri hl. liggi á málum, krefjast þess að mál séu afgreidd fljótt og fljótar, með öðrum orðum undir þessum dagskrárlið fjallað um starfshætti þingsins. Hitt má vera að ýmsir þingmenn telji, og þar á meðal ég í morgun, kannski fyrir fljótræði, að þegar við fjöllum um þann trúnað sem einstaka þingnefndir geti vænst af Stjórnarráðinu sé kannski hægt að segja að það eigi að vera utandagskrárumræða.
    Ég vil aðeins að síðustu, hæstv. forseti, ljúka máli mínu með því að segja að ástæðan fyrir því að ég óskaði eftir að forseti Sþ. væri viðstaddur var sú að

ég ætlaði að biðja forseta Sþ. að sjá um það að sjútvn. fengju í hendur þær upplýsingar sem einstakir nefndarmenn báðu um á fundum í morgun og sem var tilefni þess að ég óskaði eftir fundi sjútvn. í morgun.
    Ég vil svo ítreka. Hafi framkoma mín þegar ég óskaði eftir nærveru forseta Sþ. í morgun verið skilin svo að ég treysti ekki því að varaforseti gæti stjórnað fundi er það misskilningur. Það kom fram þegar forseti Sþ. gekk í salinn að ég gerði ekki athugasemdir við það að hann settist ekki í forsetastól. Ég óskaði einungis nærveru forseta Sþ. Það var af þeirri ástæðu að ég óska eftir því að hann gangi fram í því að sjávarútvegsnefndarmenn fái þær upplýsingar sem ég óskaði eftir að við fengjum, þ.e. skrá yfir þær veiðiheimildir sem vænst er að smábátar eigi rétt á á næsta ári, en þeim upplýsingum hefur verið dreift til smábátaeigenda vítt og breitt um landið. Mikil óánægja hefur komið fram í röðum smábátaeigenda og það er auðvitað óþolandi fyrir þingmenn að þeir geti ekki fengið heillega mynd af því sem þar er að gerast.