Fjáraukalög 1990
Fimmtudaginn 29. nóvember 1990


     Kristinn Pétursson (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég kem hér upp vegna þess að hv. 3. þm. Norðurl. v. minntist á fund sem við nefndarmenn í sjávarútvegsnefndum Ed. og Nd. vorum boðaðir á á mánudaginn var. Þannig var að á laugardagskvöldið var sendur leigubíll frá hinu hæstv. sjútvrn. með sentimetra þykkan bunka af reglugerðum heim til nefndarmanna og þeir boðaðir á fund kl. 9 á mánudagsmorgun til að kynna þeim reglugerðir sem sjútvrn. hyggst gefa út um stjórnun fiskveiða fyrir næsta ár. Ég vil vekja hér á því athygli í umræðum um þingsköp, hæstv. forseti, hvílík endaskipti búið er að hafa á leikreglum og samskiptum löggjafar- og framkvæmdarvalds þegar hv. alþm. eru settir með þessum hætti í kennslustund hjá starfsmönnum framkvæmdarvaldsins um það hvernig leikreglurnar eigi að vera á næsta ári í hlutum sem hv. alþm. eiga að ákveða sjálfir. Það er búið að hafa alger endaskipti hér á leikreglum í samskiptum löggjafarvalds og framkvæmdarvalds.
    Það var hlutverk okkar í þessari hv. deild í vor að fjalla um kvótamálið. Hvað fékk þessi hv. deild langan tíma til að fjalla um málið? 42 alþingismenn fengu 24 klukkustundir til þess að afgreiða kvótafrv. ásamt 14 öðrum málum sem var rutt hér út úr deildinni með hrossakaupum sl. vor, við fengum 24 klukkustundir. Einn fund í sjútvn. Nd. í einn klukkutíma í bakherbergi hér í þinginu til að fjalla um þetta mikilvæga mál. Þetta var sá tími sem við fengum. Öllu var rutt yfir í sjútvrn. og síðan erum við teknir í kennslustund hjá starfsmönnum framkvæmdarvaldsins og hæstv. sjútvrh. um það hvernig þessar reglur eigi að vera sem við áttum að ákveða sjálfir og taka þátt í að vinna. Svona endaskipti er búið að hafa á vinnubrögðum í samskiptum löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Þetta er dæmigert.
    Hæstv. forseti, ég get ekki annað en mótmælt þessu vegna þess að þolendur þessa óskapnaðar eru auðvitað fólkið í landinu. Alþingismenn mega ekki einu sinni fá að sjá hver þessi kvóti á að vera. Nei, hvað þá þolendurnir, ekki enn þann dag í dag, en eftir einn mánuð eiga þeir að byrja að vinna eftir honum.
    Hæstv. forseti. Það er ekki hægt annað en að mótmæla svona vinnbrögðum harðlega.