Fjáraukalög 1990
Fimmtudaginn 29. nóvember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram um frv. til fjáraukalaga þótt nokkurt hlé hafi orðið á henni síðustu tvær klukkustundirnar. Það er vissulega ánægjulegt að þessi nýja venja, að afgreiða fjáraukalagafrv. fyrir yfirstandandi ár, er að festast í sessi hér á Alþingi. Reyndar virðist nýbreytnin orðin svo hversdagsleg að mönnum finnst allt í lagi að rjúfa umræðuna á þann hátt sem gert var hér í dag.
    Í raun og veru er verið að ræða hér um nýtt fjárlagafrv. í þeim skilningi að verið er að breyta gildandi fjárlögum. Það væri vissulega tilefni til þess að ræða hér margt og mikið um stjórn efnahagsmála og samhengi ríkisfjármála við þann árangur sem náðst hefur í baráttunni gegn verðbólgunni, baráttunni gegn háu raunvöxtunum sem hér ríktu á gráa markaðnum, baráttunni gegn viðskiptahallanum, baráttunni gegn neikvæðum vöruskiptajöfnuði og mörgu öðru. Staðreyndin er sú að hlutlausir dómarar hafa á síðustu mánuðum kveðið upp sinn dóm í þessum málum. Ég vil í því sambandi minna á tvær skýrslur virtustu alþjóðlegra stofnana á þessu sviði, skýrslu OECD og nýlega skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þetta eru þær tvær stofnanir sem taldar eru traustastar í veröldinni í mati á efnahagslegum árangri. Það er alveg ljóst að í niðurstöðum þessara tveggja stofnana, m.a. í nýlegri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem afhent var íslenskum stjórnvöldum fyrir nokkrum dögum síðan, kemur ótvírætt fram að þessar tvær stofnanir telja að sá árangur sem hér hefur náðst í efnahagsmálum sé að verulegu leyti að þakka breyttri stefnu í ríkisfjármálum á síðustu tveimur árum. Og þótt sá ágæti flokkur, Sjálfstfl., vilji hafa að engu álit þessara viðurkenndu vestrænu efnahagsstofnana þá breytir það ekki niðurstöðum þeirra. Hitt verður hins vegar æ sérkennilegra hve oft og hve lengi Sjálfstfl. neitar viðurkenndum vestrænum hagstjórnaraðferðum og áliti virtustu vestrænu efnahagsstofnana.
    Það hefur líka komið fram í þessari umræðu að Sjálfstfl. vill lækka skatta. Það hefur einnig komið fram í þessari umræðu að Sjálfstfl. vill auka ríkisútgjöldin. Hvorugt er nýtt. En það leiðir hins vegar til verulegs halla á ríkissjóði sem mætti telja í tveimur tugum milljarða ef allt er lagt saman sem Sjálfstfl. hefur lagt til. Slíkt hrikalegt gat yrði einsdæmi í Íslandssögunni. Það yrði ekki brúað nema með erlendum lánum. Og eftir eitt ár yrði verðbólgan komin upp í 30%. Svona einfalt er reikningsdæmið þegar efnahagstillögur Sjálfstfl. í þessari umræðu eru lagðar saman. Og það er þetta sem OECD-skýrslan varar við, það er einmitt þetta sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varar við og þarf þess vegna ekki að hafa um það fleiri orð.
    Það er hins vegar nauðsynlegt fyrir Sjálfstfl., sem vill láta taka sig alvarlega, að gera þjóðinni grein fyrir því hvort hann ætlar sér virkilega að framkvæma hér stefnu sem felur í sér stórfelldar skattalækkanir upp á rúmlega 13 milljarða og stórfelldar útgjaldahækkanir á sama tíma um marga milljarða í viðbót. Niðurstaðan af slíkri stefnu er ljós. Það væri ný efnahagsleg kollsteypa á Íslandi. (Gripið fram í.) Það eru greinilega fleiri en Einar Oddur sem telja sig þurfa að tala við Sjálfstfl. um þessar mundir.
    Virðulegi forseti. Hér hefur verið vikið að nokkrum atriðum í umræðunum sem ég vil drepa lítillega á. Í fyrsta lagi er ég alveg sammála hv. þm. Pálma Jónssyni um það að hinn mikli skýrsluvélakostnaður sem fram kemur í þessu frv., kostnaðarauki vegna skýrsluvinnslu í skattkerfi, greiðsla á gjöldum til Skýrsluvéla ríkisins og Reykjavíkurborgar, er mikið áhyggjuefni. Það er nauðsynlegt að taka tölvumálefni ríkisins til ítarlegrar athugunar, leita hagkvæmari leiða í þessum efnum.
    Hv. þm. Pálmi Jónsson spurði einnig um hvað hefði verið gert varðandi heimild í 7. gr. og vék þar sérstaklega að viðræðum við Reykjavíkurborg. Ég vil strax taka það fram að ekki hefur verið greidd ein króna út úr ríkissjóði í samræmi við þetta heimildarákvæði. Hins vegar hafa embættismenn fjmrn. og embættismenn Reykjavíkurborgar farið rækilega yfir þessi mál. Borgarstjórinn í Reykjavík og ég höfum rætt þetta mál fyrr á þessu ári, höfum ákveðið að eiga fund til þess að ræða það aftur. Mér er ekki kunnugt um að af hálfu Reykjavíkurborgar hafi verið kvartað yfir meðferð á þessu máli. Það var áberandi í sumar og haust að það kom hlé í þessar viðræður. Það var ekki sök fjmrn. að það hlé varð. Ég vil ekki heldur segja að það hafi verið sök Reykjavíkurborgar. Það átti sér einfaldlega stað. Málin voru í eðlilegri athugun á milli þeirra embættismanna sem fyrst og fremst þurftu yfir þessi mál að fara. Þegar ég tók við embætti fjmrh. gekk ég frá samkomulagi við Reykjavíkurborg sem ekki hafði verið fullfrágengið þegar ég kom í ráðuneytið. Ég veit ekki til þess að neitt hafi staðið upp á fjmrn. á síðustu tveimur árum í þeim samskiptum og borgarstjórinn í Reykjavík og núv. fjmrh. hafa ekki átt í neinum vandræðum með að ræða þau vandamál sem eru milli ríkisins og Reykjavíkurborgar á þessu sviði.
    Hér hefur einnig verið rætt nokkuð um jöfnunargjaldið. Kom fram hjá hv. þm. Friðriki Sophussyni að í tengslum við framlengingu á þjóðarsátt hefði verið lofað að lækka tekjur af jöfnunargjaldi um 300 millj. Það er ekki rétt. Hins vegar kom til umræðu í þeim viðræðum hvort æskilegra væri að láta afnám jöfnunargjaldsins á næsta ári gerast í öðrum áföngum en gert er ráð fyrir í því frv. sem ég hef lagt fyrir þingið til þess að reyna að ná fram skýrari verðlækkunaráhrifum af þeim breytingum. Slíkar hugmyndir eru til skoðunar. Ég vil einnig segja, vegna fyrstu tillögunnar á þskj. 213, sem hv. þm. Friðrik Sophusson flytur, að þegar er búið að reikna inn í tekjuáætlun fjáraukalagafrv. þær viðbótartekjur af jöfnunargjaldi sem koma á þessu ári umfram það sem reiknað var í fjárlagafrv. Sú brtt. sem er nr. 1 á því þskj. frá hv. þm. Friðriki Sophussyni er óþörf því þegar er búið að ætla fyrir þessu atriði í frv.
    Hins vegar má lengi ræða það hvernig eigi að gera

upp og setja punkt aftan við málefni endurgreidds söluskatts til atvinnuveganna. Ég tel að viðunandi samkomulag hafi tekist milli ólíkra sjónarmiða í þeim efnum, milli þeirra atvinnugreina sem hér um ræðir og farsælast sé að ljúka því máli með þeim hætti sem hefur verið lagt til. Ég leggst því gegn því að brtt. nr. 2 frá hv. þm. Friðriki Sophussyni verði samþykkt.
    Hv. þm. Pálmi Jónsson gerði hér að miklu umræðuefni spurninguna um það hvernig eigi að færa í bókhaldi ríkisins yfirtöku á skuldum Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Það er nauðsynlegt að menn glati ekki efnisatriði málsins í þeim orðaleik um bókhaldsreglur sem þar fer fram. Efnisatriði málsins er mjög einfalt. Mun ríkissjóður á þessu ári reiða fram einhverja greiðslu vegna yfirtöku þessara lána? Svarið er nei. Það verður ekki ein einasta króna greidd út úr ríkissjóði vegna yfirtöku á þessum lánum Verðjöfnunarsjóðs. Fyrsta greiðslan verður á næsta ári og mun þá koma til gjaldfærslu í samræmi við það. Það sem hér er verið að gera mikið mál úr er einfaldlega með hvaða hætti endanlega er frá gengið milli fjmrn. og Seðlabankans í bréfum þeirri yfirtöku á þessum skuldum sem þar er um að ræða og með hvaða hætti slíkt er síðan staðfest hér af Alþingi. Fjmrn. hefur samkvæmt venju rætt við Seðlabankann um það mál. Enginn ágreiningur er milli fjmrn. og Seðlabankans um það atriði að það verður staðfest með samkomulagi milli bankans og fjmrn. að yfirtaka á lánunum verður með þeim hætti, eins og gert hefur verið ráð fyrir frá upphafi, að fyrstu greiðslurnar komi til framkvæmda á næsta ári.
    Mér finnst þess vegna miður að það sé verið að þvæla þessu máli svo mikið hér inn í þessa umræðu til þess eins að fá út stærri hallatölur. Þessi umræða snýst nú um það, að telja þjóðinni trú um að hallinn sé meiri en hann er í raun með því að bókfæra í hallanum greiðslur sem alls ekki á að greiða á þessu ári. Ég held að almenningur í landinu sé þeirrar skoðunar að samkvæmt almennri málvenju sé halli á ríkissjóði munurinn á þeim tekjum sem koma inn og þeim gjöldum sem ríkissjóður verður að greiða á árinu. Almenningur í landinu er ekkert mjög vel heima frekar en þingmenn yfirleitt í hinum hörðu latínufræðum bókhaldsfræðanna og reikningsskilavenja sem eru þannig fræði að þar breytast siðir og venjur mjög frá einu tímabili til annars. Og auðvitað væri mjög auðvelt að sýna fram á með svipuðum rökum
og hér er beitt að hallinn væri ekki 4 milljarðar heldur 40 milljarðar og hefði verið hjá Þorsteini Pálssyni á sínum tíma ekki mældur í eins stafs tölu heldur kannski þriggja stafa tölu, 100 milljarðar í halla. Það er allt hægt með slíkum aðferðum.
    Það er ekki kjarni málsins. Kjarni málsins er hvað við eyðum miklu umfram tekjur á því ári sem til umræðu er. Það er alveg ljóst að vegna þessa máls kemur engin einasta króna til greiðslu á þessu ári. Að sjálfsögðu verður gengið frá þeim málum með þeim hætti að öllum reglum og skilmálum sé fullnægt þannig að þegar árið er á enda sé enginn vafi í þeim efnum, enda kemur það alveg skýrt fram hver skoðun Ríkisendurskoðunar er.
    Ég vil þess vegna biðja hv. þm. að vera ekki að tengja þetta umræðunni um hallann. Það má í sjálfu sér ræða þetta mál fram og aftur, en ég vil bara geta þess að það er mikill fjöldi álitamála í ríkisreikningsfræðum um það hvenær og hvernig eigi að færa hinar ýmsu skuldbindingar ríkissjóðs. Ég held að almenningur í landinu yrði nú mjög ruglaður í allri umræðunni ef ætti að fara að blanda þeim reikningsskilafræðum inn í hina hefðbundnu umræðu um hallann á ríkissjóði.
    Að lokum ræddi hér hv. þm. Matthías Bjarnason um heilsugæslustöðvar. Það verður því miður að segja þá sögu eins og er að við verkaskipti ríkis og sveitarfélaga voru þær upplýsingar sem fram komu um kostnað við rekstur heilsugæslustöðvanna ekki fyllilega tæmandi þannig að kostnaður ríkisins af yfirtöku þessarar starfsemi hefur reynst vera meiri. Ríkið er nú að fara í fyrsta sinn í gegnum þá reynslu að þurfa að hafa þetta reikningshald allt hjá sér. Auðvitað má hafa á því ýmsar skoðanir þegar við erum staddir í þeirri á miðri, en ég held hins vegar að það sé samdóma álit þeirra ráðuneyta og þingmanna sem um þetta mál hafa fjallað að æskilegt sé að stefna að því að þetta sé sem réttast og áætlanirnar sem traustastar.
    Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, þakka hv. þm. og sérstaklega hv. fjvn. fyrir afgreiðsluna á þessu máli. Ég lýsti því yfir þegar ég mælti fyrir því að það væri mjög mikilvægt að hægt væri að ljúka málinu í nóvembermánuði svo það skapaðist smátt og smátt sú venja að fjáraukalagafrv. væri afgreitt tiltölulega fljótt og afgreiðsla þess biði ekki endanlegrar afgreiðslu fjárlagafrv. fyrir næsta ár. Ég tel þess vegna að þessi önnur för okkar inn í tímabil þessarar nýju siðvenju hafi tekist vel og ef áfram verður haldið á þessari braut eigi þessar starfsaðferðir eftir að treysta í sessi meðferð ríkisfjármála í okkar landi.